Stjörnumenn rændir Hann byrjaði heldur betur glæsilega leikur Stjörnunnar og Skallagríms í 1. deild karla í Garðabæ í gærkvöldi. Áhorfendur voru varla búnir að koma sér fyrir þegar að Stojakovis Dragoslav - Júgóslavinn í liði Stjörnunnar - hamraði boltann í vinstra hornið af um 25 metra færi.
Stjörnumenn rændir Hann byrjaði heldur betur glæsilega leikur Stjörnunnar og Skallagríms í 1. deild karla í Garðabæ í gærkvöldi. Áhorfendur voru varla búnir að koma sér fyrir þegar að Stojakovis Dragoslav - Júgóslavinn í liði Stjörnunnar - hamraði boltann í vinstra hornið af um 25 metra færi. Þessi óskabyrjun Stjörnunnar sló Skallagrímsmenn útaf laginu og voru leikmenn þess hálfvankaðir góðan tíma á eftir. En með vindinn í sínu liði og baráttu að vopni tókst leikmönnum Skallagríms að jafna á tíundu mínútu. Þar var að verki Guðlaugur Rafnsson. Há sending kom fyrir markið, Guðlaugur tók boltann vel niður og þrumaði honum í netið.

Í seinni hálfleik gekk vindurinn úr liði Skallagríms og í lið Stjörnunnar með þeim afleiðingum að Stjörnumenn réðu ferðinni án þess þó að skapa sér mörg færi. Kristján Másson komst þó næst því að skora. Hann komst einn inn fyrir vörn Skallagríms - eftir sendingu frá Rögnvaldi Johnsen markverði - en fast skot hans fór hátt yfir. Kristján sannaði þarna enn og aftur gömlu lummuna að ekki er alltaf best að skjóta sem fastast. Gömul lumma en sönn.

Það leit allt út fyrir jafntefli þegar Hjörtur Hjartarson, fyrirliði Skallagríms, fékk boltann. Hann dútlaði með boltann utarlega í vítateignum og ekki virtist nein hætta á ferðum. Sæmundur Friðjónsson, varnarmaður Stjörnunnar, virtist þó vera á öðru máli, því hann sá ekki annan kost en að brjóta á Hirti. Fáránlegt brot og réttilega dæmd vítaspyrna. Hjörtur tók spyrnuna sjálfur og skoraði af miklu öryggi sigurmarkið. Lokatölur 1:2, sem ekki geta talist sanngjörn úrslit því Stjörnumenn áttu skilið að minnsta kosti eitt stig ef ekki þrjú.

Maður leiksins:

Stojakovis Dragoslav, Stjörnunni.

Tómas Gunnar Viðarsson