KVA misnotaði víti KVA og Dalvík gerðu jafntefli, 1:1, á Eskifirði þar sem heimamenn misnotuðu vítaspyrnu þegar langt var liðið á leik. Veður var ekki upp á það besta til knattspyrnu og setti sterkur vindur töluvert mark sitt á leikinn. Eins var grasvöllurinn frekar slæmur. Dalvíkingar léku undan vindinum í fyrri hálfleik og sóttu þá meira.
KVA misnotaði víti

KVA og Dalvík gerðu jafntefli, 1:1, á Eskifirði þar sem heimamenn misnotuðu vítaspyrnu þegar langt var liðið á leik. Veður var ekki upp á það besta til knattspyrnu og setti sterkur vindur töluvert mark sitt á leikinn. Eins var grasvöllurinn frekar slæmur.

Dalvíkingar léku undan vindinum í fyrri hálfleik og sóttu þá meira. Jóhann Hreiðarsson kom gestunum yfir með marki beint úr hornspyrnu þremur mínútum fyrir leikhlé. Hann tók spyrnuna og snéri boltanum í átt að markinu og hjálpaði vindurinn þar upp á. Ekki var mikið um marktækifæri fram að hálfleik.

Í síðari hálfleik snérist dæmið við, heimamenn sóttu undan vindinum og átti Nikulas Miruslav skot í stöng á upphafsmínútum hálfleiksins. Hallur Ásgeirsson jafnaði síðan fyrir KVA á 75. mínútu með skalla eftir fyrirgjöf frá Kristjáni Svavarssyni. Tveimur mínútum síðar fengu heimamenn vítaspyrnu er Daníel Borgþórsson var felldur innan vítateigs. Miroslav tók spyrnuna en besti maður vallarins, Atli Már Rúnarsson, varði meistaralega. Á lokamínútu leiksins skall hurð nærri hælum við mark Dalvíkinga er Egill Örn Sverrisson átti skot í stöng og Grétar Þórðarson náði frákastinu og aftur var það Atli Már sem varði.

Einar Örn Daníelsson dæmdi leikinn og gerði það vel. Hann sýndi sex gul spjöld og Sigurjóni Gísla Þórðarsyni rauða spjaldið fyrir aðra áminningu sína á lokamínútunni.

Maður leiksins:

Atli Már Rúnarsson, Dalvík.

Benedikt Jóhannsson skrifar