Sveinbjörg Brandsdóttir Sem lítil börn horfðum við upp í krónu ættartrésins, virtum fyrir okkur laufið á greinunum, sem blakti í golunni eða hristist til þegar vindurinn skók tréð. Þá fannst okkur að þessar laufguðu greinar myndu skýla okkur óbreytanlegar um aldur og ævi.

Smám saman varð okkur ljóst, þegar laufin tóku að falla, að tréð okkar laut lögmálinu um hringrás náttúrunnar frá lífi til dauða og aftur til lífs.

Ilmurinn af útsprungnum blómum eða nýskorinni íslenskri agúrku ber okkur langt aftur í tímann að bænum Runnum í Reykholtsdal. Þar bjó Sveinbjörg Brandsdóttir, móðursystir okkar, ásamt manni sínum, Einari Kristleifssyni. Þau hjónin höfðu reist sér nýbýlið Runna úr landi Stóra-Kropps, en þar var Einar fæddur og uppalinn.

Frá Runnum komu oft nýstárlegar sendingar að Sámsstöðum, sem voru agúrkur og tómatar, en Einar og Sveina, eins og frænka okkar var oft kölluð, byggðu gróðurhús við hverinn í landareigninni. Þótt þau stunduðu hefðbundinn búskap, en þau áttu kýr, kindur og hesta, virtist aðaláhugamál þeirra beggja vera garðrækt. Þau voru hafsjór af fróðleik um blóm og trjátegundir og ræktuðu ákaflega fallegan garð í kringum íbúðarhúsið.

Í huganum sjáum við Sveinu frænku ganga með okkur um garðinn í kvöldsólinni og sýna okkur blóm, tré og runna og fræða okkur um heiti þeirra með lágværu, þýðu röddinni sinni. Hún virtist vita nöfn á öllu, sem þarna óx, bæði á íslensku og latínu.

Okkur systkinunum þótti hátíð að fá að fara að Runnum og heimsækja þar Sveinu, Einar og frændsystkini okkar fimm, sem voru sérstaklega elskuleg og skemmtileg börn. Eflaust var lífsbaráttan oft erfið hjá fjölskyldunni, en þó hafði maður það á tilfinningunni að Runnahjónin ættu meiri andlegan auð en margur sá sem taldist efnaður á veraldarvísu. Þau gáfu sér líka tíma til að rækta ættingja- og vinahópinn, sem var afar stór.

Eftir að Einar lést árið 1982, dvaldist Sveinbjörg í Runnum eins lengi og kannski lengur en kraftar hennar entust. Það var henni ekki sársaukalaust að yfirgefa heimili sitt og fara á dvalarheimili fyrir aldraða í Borgarnesi.

Hún frænka okkar var falleg og blíðlynd kona, sem laðaði fólk að sér með góðleika sínum og hlýju. Hún lumaði líka á léttri kímni, sem gerði andrúmsloftið svo afslappað í kringum hana. Við munum hana fyrst, sem unga konu með síðar, dökkar fléttur, sem hún lét síðar klippa, manni sínum til lítillar hrifningar. Hann vildi varðveita myndina af æskuunnustunni sem lengst.

Afkomendur Sveinbjargar eru orðnir margir, og hún ljómaði þegar hún sýndi okkur myndir af börnum sínum, barnabörnum og barnabarnabörnum. Henni virtist þykja jafnvænt um þau öll, enda gat hún verið stolt af þeim. En það virtist einkenna lund hennar hvað hún var laus við að vilja breyta fólki eða stjórna lífi þess. Hún tók hverjum og einum af góðvild eins og hann var.

Löngu og erfiðu veikindastríði er lokið. Hún lést laugardaginn 15. maí á Sjúkrahúsinu á Akranesi, en þar höfðu börnin hennar skipst á um að vera hjá henni síðustu dagana. Hún hafði verið farin að biðja Guð að taka sig til sín, og nú hefur hann bænheyrt hana.

Við horfum upp eftir ættartrénu, sjáum að það hefur breytt um lit og lögun og enn eitt lauf fallið. Laufið sem gladdi okkur og gaf svo oft skjól. Vitum samt að hún frænka okkar lifir. Heyrum þýðan hlátur hennar og sjáum unga konu með tvær dökkar fléttur hverfa milli greinanna.

Elsku frænka, við þökkum þér fylgdina.

Margrét, Ólafur og Þuríður.