Ásta Sigrún Guðjónsdóttir Tengdamóðir þín er látin, hljómaði fregnin sem ég fékk ­ og í hugann kom stef úr margræðu miðleitnu kvæði Eyjafjarðarskáldsins Davíðs: "en stundum lýsir ljós, sem aldrei var kveikt lengur en hin, sem kveikjum sínum brenna."

Tengdamamma er ein af þeim sem lifir þótt hún sé dáin. Því hvernig sem syrti í sálu hennar, lék hugur og kraftur öll sín ljóð. Hennar bros gat dimmu í dagsljós breytt, sem dropi breytir veig heillar skálar. En hvað er það sem kemur upp í huga minn þegar ég kveð hana að sinni, það er svo margt. En fyrst og síðast gleði því hún var vinur sem kastaði birtu og yl á allt sviðið hverja samverustund, svo stundin var önnur og betri en stundin sem var liðin, og sannaði um leið að í hverju lífsins spori að maður getur verið manns gaman, en samt notið alvöru lífsins.

Frá fyrsta degi var Ásta mér alltaf kær vinur, símalínan var okkar fremsti fundarstaður, en oft áttum við líka yndislegar samverustundir. Ég gleymi ekki fyrstu ferð Ástu í Þjóðleikhúsið með móður minni og mér. Ásta og móðir mín svo glerfínar að það geislaði af þeim og mamma hafði þessa ferð framarlega í minningu sinni.

Alltaf þegar eitthvað bjátaði á í lífi mínu, barna minna og barnabarna var Ásta alltaf fyrst til að hringja og eins þegar eitthvað skeði í stóra hópnum hennar Ástu þá fékk ég boð. Stórkostlegt og stórmannlegt var einnig hugarfar Ástu, víðsýnt og fordómalaust. Ef fleiri væru fordómsleysi Ástu búnir væri betra að lifa.

Skáldið frá Fagraskógi segir í ljóði:

"Hver lítil stjarna, sem lýsir og hrapar

er ljóð sem himinninn sjálfur skapar.

Hvert lítið blóm sem ljósinu safnar

er ljóð um kjarnann, sem vex og dafnar.

Hvert lítið orð, sem lífinu fagnar

er ljóð við sönginn, sem aldrei þagnar."

Mér stóð Ásta ævinlega fyrir sjónum sem sú sem ljósinu safnar og skapaði þannig ljóð við sönginn, sem aldrei þagnar.

Ung var Ásta gefin Valtý Brandssyni, glæsilegum manni og dugnaðarforki. Þau Ásta og Valtýr eignuðust 13 börn og 5 barnanna eru látin. Búskapurinn var aldrei auðveldur og víst hefur Ásta fengið að finna fyrir lífinu, eins og sagt er. Valtýr var bæði sjómaður og landverkamaður. Hann var sérstaklega elskur að heimili sínu og til verka var hann snillingur. Það var enginn dans á rósum hjá Ástu og Valtý, en hjónabandið var gott og allt bjargaðist þetta.

Það var hörkubarátta að koma barnaskaranum upp, en þau höfðu lært að bjarga sér, höfðu kýr, og kartöflugarð og það var endalaust saumað upp úr gömlu. Ásta vildi aldrei vera í skuld og aldrei var neitt keypt nema að það væru til peningar. En svo kom byltingin og Ásta eignaðist handsnúna saumavél og stærsta hjálpin við heimilishaldið var handsnúna tauvindan. Á fyrstu búskaparárunum varð að sækja vatn út í brunn og bera skolpið út. Já, handtökin voru mörg á stóru heimili, börnin, matargerð, þvottur og aftur þvottur, þjónusta fyrir alla jafnt. Vera alltaf til staðar í blíðu sem stríðu. Vera mamma fyrir alla jafnt. Börnin flugu úr hreiðri eitt af öðru, og félaginn, vinurinn og samferðamaðurinn kæri, Valtýr, lést 1. apríl 1976. Ásta bjó alltaf yfir miklu jafnaðargeði, var skapgóð í gegnum þykkt og þunnt, þótt lítill væri tíminn til tómstunda, kannski seinna hefur hún vafalaust hugsað, kannski seinna segja þeir sem hallir eru undir skyldur sínar og ábyrgð.

"Þér við viljum þakkir færa

þegar leiðir okkar skilja nú.

Fyrir milda móðir blíðu

mesta sem veittir þú.

Fyrir störf þín stríð og þrautir

er stormar lífsins sóttu að.

Fyrir allt sem gafst að gæðum

geymt og munað verður það ".

(Ókunnur höfundur.) Sigurrós Jónasdóttir.