Ása Pálsdóttir Elsku Ása frænka. Nú þegar okkur er orðið ljóst að við fáum ekki að hitta þig meira hérna megin, verður okkur hugsað til baka. Fyrsta skipti sem við sáum þig var þegar við vorum nýflutt til Danmerkur, þú áttir 6 ára afmæli og íbúðin hjá ykkur var full af sólbrúnum Íslendingum, sem voru að halda upp á daginn með þér. Þú varst svo kát og glöð og stolt af því að vera byrjuð í skóla. Þú heillaðir okkur strax með þínu prakkaralega brosi og jákvæði. Þú blístraðir líka manna hæst og strákarnir gátu ekki leynt afbrýðiseminni yfir því að svona lítil stelpa gæti gert betur en þeir og þú varst ekki svo óánægð með það.

Við minnumst allra skemmtilegu stundanna þessi fjögur ár sem fjölskyldur okkar voru sem mest saman. Allar frábæru strandferðirnar á Hasmarkströnd, útilegurnar og sumarbústaðarferðirnar sem við fórum í saman. Eftirminnilegust er þó skíðaferðin til Noregs, og þegar við fórum í stólalyftunni niður vegna þess að við þorðum ekki að renna okkur og urðum svo ennþá hræddari vegna þess hvað var hátt niður úr lyftunni við klettana.

Ása mín, þú varst yndisleg frænka og vinkona okkar og við erum heppin að hafa fengið að kynnast þér svona vel. Takk fyrir allt sem þú hefur gefið okkur.

Elsku Anna Magga, Palli og Kristján, þið hafið misst mikið, en við vitum að þið eigið yndislegar minningar um góða dóttur og systur.

Megi guð styrkja ykkur á þessum erfiðu tímum.

Ég fel í forsjá þína,

Guð faðir sálu mína,

því nú er komin nótt.

Um ljósið lát mig dreyma

og ljúfa engla geyma

öll börnin þín svo blundi rótt.

(H. Pétursson) Ágústa, Ásgeir, Árni Gunnar og Ásta María.