Lárus Garðar Long Enn og aftur er höggvið skarð í nágranna- og vinahópinn. Lárus Garðar Long kvaddi þetta jarðneska líf fimmtudaginn 13. maí sl. (Uppstigningardag). Við Lalli vorum félagar í Akóges til margra ára og lét hann þar gott eitt af sér leiða eins og annarsstaðar þar sem hann var félagi. Akógesar sakna góðs vinar og kveðja hann með söknuði. Auk þess að vera félagar í Akóges unnum við saman í Fiskiðjunni frá 1968, er hann hóf þar störf, allt þar til á sl. ári. Árið 1969 varð Lalli verkstjóri í Fiskiðjunni. Margur unglingurinn í Eyjum byrjaði sitt brauðstrit undir handleiðslu hans, við að slíta og pakka humri. Þó lífsstarf Lalla hafi orðið verkstjórn í Fiskiðjunni var hann málarameistari að mennt og greip hann oft í pensilinn við að mála sali, tól og tæki á milli vertíða, svo allt yrði fínt og fágað fyrir næstu törn. Saga samneytis okkar Lalla er ekki öll sögð með þessum fátæklegu orðum. Við vorum einnig nágrannar í Túngötunni yfir þrjátíu ár. Heimili hans að innan sem utan lýsti því best hvern mann Lalli Long hafði að geyma, þar sem umhyggja fyrir fjölskyldunni og snyrtimennskan var í fyrirrúmi. Þegar daginn fór að lengja og sólin að skína voru þau komin út í garð Unnur og Lalli að huga að fyrstu vorblómunum. Síðan voru þau hluti af landslaginu og útsýninu frá stofuglugganum hjá okkur Hólmfríði allt sumarið. Að hvaða blómum hann Lalli kemur til með að hlúa núna veit ég ekki, en ef eitthvað er til um nærveru hinna látnu við ástvini sína, þá veit ég að hann verður með henni Unni sinni út í garði í sumar sem og önnur sumur.

Unnur, börn og afabörn, nú er minninginn um ástkæran eiginmann, föður og afa huggun í sorg ykkar. Við "gömlu" grannarnir og félagar í Akóges vottum ykkur dýpstu samúð og kveðjum góðan vin. Blessuð sé minning Lalla Long.

Guðjón Ólafsson.