Sveinbjörg Brandsdóttir Ef til er hin fullkomna veröld þar sem hið góða fær að ráða, þá ert þú þar núna, elsku amma. Það er verið að veita orður og verðlaun til fólks fyrir eitt og annað. Okkur finnst að stundum gleymist það fólk sem vinnur störf sín í kyrrþey, er heiðarlegt, býr yfir manngæsku og reynir að sjá eitthvað gott í öllu. Þannig varst þú, kæra amma, og betra væri að fleiri hefðu slíka kosti til að bera.

Við minnumst þess svo vel hvernig var að koma til þín að Runnum. Hvernig þú fagnaðir okkur með faðmlögum og kossum. Í Runnum áttum við góðar stundir með þér í rólegu og afslöppuðu andrúmslofti. Það var svo gott og óþvingað að tala við þig og aldrei var skopskynið langt undan.

Iðulega þegar við komum að Runnum sóttumst við eftir því að fá að skoða myndaalbúmin þín, alltaf sömu albúmin en það var bara svo gaman að heyra þig segja frá fólkinu á myndunum og atburðum þeim tengdum. Þannig gátum við skyggnst inn í eldri tíma með þér. Heimurinn var með öðru sniði þegar þú varst að alast upp en hann er nú. Það voru ótrúlega miklar breytingar sem fólk af þinni kynslóð lifði. Þú virtist taka þessum breytingum vel og ekki varst þú að óskapast yfir unga fólkinu.

Elsku amma, okkur finnst ómetanlegt að hafa fengið að kynnast þér. Við berum mikla virðingu fyrir þér og öllu því góða sem þú gafst okkur.

Kristín og Soffía.