Kristján Vernharður Oddgeirsson Þegar ég heimsótti Venna bróður minn 7. og 8. maí sl. þar sem hann lá á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri var hann meðvitundarlítill. Hann hafði dottið niður nokkrum dögum áður heima á Hlöðum. Sennilega blæðing inn á heila. Þegar andlátsfregnin, sem kom ekki á óvart, barst svo 11. maí komu upp í hugann minningar frá liðnum árum. Þegar við vorum að alast upp keypti Venni sér skíði, skauta og reiðhjól, en hafði lítinn frið með það fyrir okkur yngri systkinunum. Ég man hvað ég var dauðhrædd þegar ég loks kom heim á hjólinu hans eftir langa ferð, en sá ótti var ástæðulaus.

Venni var alla tíð reglumaður. Hann hafði yndi af að syngja í glöðum systkinahópi og rifjaðist þá upp margt skemmtilegt frá þeim tíma, sem sungið var margraddað í beitingaskúrunum. Á yngri árum var Venni til sjós á Narfa og fleiri skipum. Síðar keypti hann trillu sem hann reri til sjós á.

Honum fórst sonarhlutverkið vel úr hendi og annaðist foreldra okkar þar til þeir létust í hárri elli. Hann bjó einn á Hlöðum eftir að móðir okkar dó árið 1977. Það var alltaf gott að koma heim að Hlöðum og heimsækja Venna. Nú er hans sárt saknað og verður tómlegt að koma heim án þess að hitta nokkurn fyrir. Ég kveð bróður minn með þessum orðum.

Drottinn elskar

Drottinn vakir

daga og nætur

yfir þér.

(S.Kr.P.) Margrét.