13. júlí 1999 | Innlendar fréttir | 581 orð

Talið að stíflugarður í Sandvatni hafi brostið vegna framhlaups Hagafellsjökuls

Hugsamlegt að Hagavatn tæmist

Talið að stíflugarður í Sandvatni hafi brostið vegna framhlaups Hagafellsjökuls Hugsamlegt að Hagavatn tæmist TALIÐ er að stíflugarður, sem reistur var 1985 í Sandvatni, hafi brostið á að minnsta kosti einum stað vegna framhlaups Hagafellsjökuls, og telja menn um talsvert skarð að ræða að sögn Margeirs Ingólfssonar,
Talið að stíflugarður í Sandvatni hafi brostið vegna framhlaups Hagafellsjökuls Hugsamlegt að Hagavatn tæmist

TALIÐ er að stíflugarður, sem reistur var 1985 í Sandvatni, hafi brostið á að minnsta kosti einum stað vegna framhlaups Hagafellsjökuls, og telja menn um talsvert skarð að ræða að sögn Margeirs Ingólfssonar, formann hreppsráðs í Biskupstungum, miðað við það vatnsmagn sem veltur fram í Tungufljót. Menn óttast nú um lífríki í fljótinu, sem verið hefur hrein bergvatnsá en er nú mengað af jökulvatni. Þá er einnig sá möguleiki til staðar að Hagavatn tæmist að mestu eða öllu. Miklir vatnavextir vegna framhlaups Hagafellsjökuls urðu seinast árið 1980.

Margeir var einn þeirra sem könnuðu framskrið í Hagafellsjökli í fyrradag og ástand göngubrúar yfir Farið. "Þar sem affallið úr Hagavatni er heitir áin Farið og þar er göngubrú að finna. Vatnsyfirborið í vatninu hefur hækkað svo mikið að brúin var komin á kaf í vatn og jökulvatnið buldi á henni. Það var merkilegt að mínu mati að hún stóð þegar við vorum þar á ferð og það kemur mér á óvart að hún standi enn," segir Margeir, en hann hafði það eftir mönnum sem fóru í könnunarferð um svæðið í gær að brúin væri enn á sínum stað.

Tjón á lífríki hugsanlegt

Hagavatn rennur í Farið sem rennur í Sandvatn, en það fer síðan í Sandá og út í Hvítá, og þangað á jökulvatnið að skila sér. Áður fyrr fór Sandvatnið líka í Tungufljótið en 1985 voru reistir varnargarðar til að koma í veg fyrir að það gæti gerst, þannig að undanfarin ár hefur Tungufljót verið tær bergvatnsá. Varnargarðarnir virðast hafa rofnað um helgina eins og áður sagði, með þeim afleiðingum að Sandvatnið beljar bæði fram í Sandá og Tungufljótið.

"Vatnsmagn í Tungufljótinu er mun meira en við eigum að þekkja og við gætum þurft að búa okkur undir tjón á lífríkinu ef fram heldur sem horfir," segir Margeir. "Við óttumst einnig að ef framskrið í jöklinum heldur áfram, getur það gerst að jökullinn rjúfi haftið við affallið af Hagavatni og þá er sá möguleiki fyrir hendi að vatnið tæmist á örfáum dögum. Það myndi þá renna niður í Sandvatn og áfram niður í byggð," segir Margeir. "Menn eru að vísu ekki á einu máli um þennan möguleika, en það er þó staðreynd að mjög stutt er orðið frá jöklinum að þessu hafti. Við munum reyna að fylgjast með því hvort að jökullinn heldur áfram á sama hraða, því ef hann gerir það er um raunhæfan möguleika að ræða. Seinustu vikuna hefur vatnsyfirborðið hækkað um eina tvo metra."

Mestu vatnavextir í 19 ár

Árið 1939 brast fyrirstaða í Hagavatni og myndaðist Nýifoss í kjölfarið. Þá lækkaði í vatninu um 8 til 9 metra á skömmum tíma. Hætta er talin á að haftið sem byrjaði að bresta þegar Nýfoss myndaðist, bresti enn frekar. Bæði myndu þá vatnavextir aukast enn frekar og fyrrgreind hætta á að vatnið tæmdist væri til staðar.

Margeir segir að erfitt hafi verið að skoða aðstæður á sunnudag, enda þoka og rigningarsuddi yfir svæðinu. Um miðja viku eigi hins vegar að birta og stefni menn að því að skoða svæðið rækilega á morgun, miðvikudag.

Sveinn Runólfsson landgræðslustjóri kannaði aðstæður við fljótið á laugardag og kvaðst telja um að ræða mestu vatnavexti á svæðinu í nítján ár.

Morgunblaðið/Rax BRÚIN yfir Sandá á Kjalvegi er brún og bólgin vegna framhlaups Hagafellsjökuls í Hagavatni.

TUNGUFLJÓT í Biskupstungum hefur vaxið mjög og er litað auri vegna framhlaups Hagafellsjökuls í Hagavatn. Myndin er tekin við brúna á veginum milli Geysis og Gullfoss.Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.