20. ágúst 1999 | Minningargreinar | 322 orð

Brandur Brynjólfsson

Kveðjuorð frá Knattspyrnufélaginu Víkingi

Brandur Brynjólfsson Kveðjuorð frá Knattspyrnufélaginu Víkingi

Nýlega er látinn í Reykjavík Brandur Brynjólfsson, hæstaréttarlögmaður, eftir erfið veikindi. Með fáum orðum viljum við "Víkingar" minnast Brands og þakka honum góðar stundir á liðnum árum.

Ungur að árum kom Brandur til liðs við Víking og var þar vel fagnað enda fljótt liðtækur og snjall leikmaður.

Brandur var eins og sagt er vel af Guði gerður, sterkbyggður, hár, grannur og spengilegur, léttur á fæti og hinn liðlegasti, lipur og snöggur í hreyfingum. Hann var greindur vel og vinsæll.

Brandur naut þess að leika knattspyrnu, lék bæði með meistaraflokki Víkings og í landsliði Íslands og skilaði ætíð sínum hlut með sóma. Með Víkingsliðinu lék hann lengstum sem miðframvörður og var fyrirliði þess liðs. Hann þótti traustur leikmaður og leiðsögn hans örugg. Hann hafði með sér góða samherja, sem margir muna enn í dag, er sýndu góða og fallega knattspyrnu. Í þá daga höfðu Reykjavíkurfélögin fjögur yfirburði í þessari íþrótt og var keppnin því mikil á milli þessara liða. Síðan hafa komið sigursæl keppnislið frá landsbyggðinni og á það má minna nú að Víkingur er eina Reykjavíkurliðið sem unnið hefir íslandsmeistaratitilinn í knattspyrnu (1991) á þessum áratug. Heilbrigt og gott félagslíf og góður félagsandi skapar einnig betri keppni og meiri lífsgleði. Minna má á að á þeim tíma var knattspyrnan íþrótt áhugamanna en ekki launuð vinna eins og nú tíðkast til skaða þessari ágætu íþrótt og íslenskum knattspyrnufélögum. Hefir KSÍ þar sannarlega sofið á verðinum eða tekið ranga stefnu.

Brandur hafði einnig áhuga á og tók þátt í frjálsum íþróttum og skíðum. Í frjálsum tók hann þátt í hlaupum og stökkum með góðum árangri en fór á jökla til skíðaferða.

Í mörg ár var Brandur í stjórn Víkings og eitt ár formaður félagsins og er því margs að minnast er góður félagi fellur frá. Brandur var léttur í lund, ræðinn og glaður á góðri stund, en kappsamur íþróttamaður. Víkingar kveðja Brand Brynjólfsson og þakka honum samfylgdina.

Agnar Ludvigsson.Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.