Nýr barnabókaklúbbur stofnaður Á SUMARDAGINN fyrsta hleypti Mál og menning af stokkunum nýjum barna- og unglingabókaklúbbi sem hefur hlotið nafnið Gulur - rauður - grænn - og - blár barnabókaklúbbur Máls og menningar.

Nýr barnabókaklúbbur stofnaður

Á SUMARDAGINN fyrsta hleypti Mál og menning af stokkunum nýjum barna- og unglingabókaklúbbi sem hefur hlotið nafnið Gulur - rauður - grænn - og - blár barnabókaklúbbur Máls og menningar. Klúbbnum er skipt í fjóra flokka eftir aldri lesenda. Guli klúbburinn er ætlaður yngstu börnunum fram að 3ja ára aldri, Rauði klúbburinn er fyrir 3-6 ára börn, Græni fyrir 7-11 ára og Blái fyrir unglinga 12 ára og eldri.

Markmiðið með stofnun klúbbsins er að auka útgáfu og útbreiðslu vandaðra barnabóka og efla með því bókmenntaáhuga barna og málskilning, sem margir hafa áhyggjur af að fari dvínandi. Reynsla Máls og menningar af Íslenska kiljuklúbbnum er sú að bókaklúbbur auki mjög útbreiðslu og lestur bóka. Barnabókaklúbbur Máls og menningar mun bjóða uppá nýjar bækur allt árið um kring, bækur af margvíslegum toga, allt frá bendibókum fyrir yngstu börnin til fjölbreytilegra skáldsagna og fræðsluefnis fyrir eldri börnin. Með því að skipta klúbbnum í fjóra aldursflokka er mögulegt að hafa mikla breidd í efnisvali og miða bækurnar við þroska hvers aldurshóps fyrir sig. Klúbbfélagar flytjast sjálfkrafa milli flokka eftir því sem þeir eldast eða samkvæmt eigin ósk. Langflestar bækurnar verða nýjar útgáfur nýrra eða sígildra verka eða endurútgáfur vinsælla bóka sem ekki hafa verið fáanlegar um lengri eða skemmri tíma.

Í upphafi gerast börnin áskrifendur eitt ár til reynslu en geta eftir það hætt hvenær sem er. Klúbbfélagar fá senda eina bók á 6-8 vikna fresti ásamt fréttablaði með aukatilboðum. Þeir fá einnig senda tilboðspakka með 3-5 bókum er þeir ganga í klúbbinn. Öllum bókum er hægt að skipta hjá útgáfunni fyrir aðrar bækur sem Mál og menning gefur út.

Þeir sem þess óska geta fengið kynningarbækling um klúbbinn þar sem fram koma allar nánari upplýsingar.

(Fréttatilkynning)