Ekki eru vísbendingar um að börn sem alast upp hjá samkynhneigðum foreldrum séu líklegri en önnur til að verða samkynhneigð. Þetta kom fram á fundi um réttindi samkynhneigðra og einnig það að félagsleg tengsl barna samkynhneigðra við jafnaldra hafi reynst eðlileg.
Líklegt að 458 til 624 börn alist upp hjá samkynhneigðum á Íslandi Ekki eru vísbendingar um að börn sem alast upp hjá samkynhneigðum foreldrum séu líklegri en önnur til að verða samkynhneigð. Þetta kom fram á fundi um réttindi samkynhneigðra og einnig það að félagsleg tengsl barna samkynhneigðra við jafnaldra hafi reynst eðlileg.RANNVEIG Traustadóttir, lektor við Háskóla Íslands, segir að miðað við áætlaðan fjölda samkynhneigðra hér á landi og reynslu erlendis frá, megi búast við að 458­624 börn séu nú að alast upp hjá samkynhneigðum foreldrum. Hún segir að fjöldi rannsókna hafi verið gerður erlendis á stöðu þessara barna, og hafa þær leitt í ljós að hún er í engu verri en staða barna gagnkynhneigðra. Þetta kom fram á fundi um réttindi samkynhneigðra foreldra og barna þeirra sem haldinn var í Odda í Háskólanum á vegum Félags samkynhneigðra stúdenta í gær. Fulltrúar stjórnarflokkanna sátu fyrir svörum á fundinum vegna frumvarps um ættleiðingar barna, sem nú hefur verið lagt fram á Alþingi. Samkynhneigðir hafa kvartað yfir því að ekki sé gert ráð fyrir því að þeir megi ættleiða börn, hvorki við frumættleiðingu né stjúpættleiðingu. Þorgerður K. Gunnarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokks og formaður allsherjarnefndar Alþingis, sagði að mikilvægt væri að frumvarpið yrði samþykkt á þessu þingi, til þess að Ísland gæti orðið aðili að alþjóðasáttmála um ættleiðingar, sem kenndur er við Haag í Hollandi. Það mundi opna þeim fjölmörgu foreldrum sem bíða eftir því að fá að ættleiða börn, aðgang að fleiri löndum þar sem hægt er að fá börn til ættleiðingar. Hún sagði einnig að aukin réttindi samkynhneigðra í þessum efnum ætti að komast í gegn með breytingum á lögum um staðfesta sambúð, en ekki með breytingum á ættleiðingarlögum. Hrefna Friðriksdóttir lögfræðingur, einn frummælenda á fundinum, benti á móti á að ekkert væri því til fyrirstöðu að gera þessa breytingu í ættleiðingarlögunum. Málið til athugunar í dómsmálaráðuneytinu Þorgerður sagði að í Svíþjóð væri verið að vinna að skýrslu um þessi mál, sem liggja á til grundvallar ákvörðun stjórnvalda, og á hún að verða tilbúin í byrjun árs 2001. Hún sagði að í dómsmálaráðuneytinu væri alvarlega til athugunar að breyta reglum um ættleiðingar samkynhneigðra og miðað við fyrri verk stjórnvalda í þessum efnum, sem hefðu komið Íslandi í fremsta flokk hvað varðar réttindi samkynhneigðra, væri ekki ástæða til að tortryggja vinnu þeirra að þessum málefnum. Hún minnti á að Íslendingar væru eina þjóðin sem heimilað hefði sameiginlega forsjá barna sem alast upp hjá samkynhneigðum foreldrum. Í máli hennar kom þó fram að Danir hefðu gengið einu skrefi lengra á þessu ári með því að leyfa stjúpættleiðingar samkynhneigðra. Össur Skarphéðinsson, þingmaður Samfylkingar, og samkynhneigðir á fundinum, bentu á að Rannveig Traustadóttir hefði sýnt fram á að miklar rannsóknir hefðu þegar verið gerðar á samkynhneigðum sem uppalendum, og ekki væri sérstök ástæða til að bíða eftir sænskri nefnd. Þeir minntu einnig á að frumvarp um rétt samkynhneigðra hefði ítrekað verið lagt fram áður á Alþingi, en hefði aldrei komist út úr allsherjarnefnd. Þorgerður tók undir það að ættleiðingar samkynhneigðra væru mannréttindamál, og að hraða þyrfti löggjöf sem leyfði stjúpættleiðingar þeirra, en að það mætti þó ekki tefja meginfrumvarpið um ættleiðingar. Þorgerður sagði einnig að málflutningur stuðningsmanna ættleiðinga samkynhneigðra, þar á meðal hennar, yrði að vera "skotheldur", áður en lögum um þessi efni yrði breytt, til þess að hægt yrði að mæta gagnrýni þeirra sem enn væru haldnir fordómum í garð homma og lesbía. Ég er tilbúin þegar þjóðin er tilbúin Valgerður Sverrisdóttir, þingmaður Framsóknarflokks, sagði að hún væri tilbúin til að samþykkja ættleiðingar samkynhneigðra þegar þjóðin væri tilbúin til þess, en víða leyndust fordómar í garð samkynhneigðra. "Víðsýni og umburðarlyndi hefur aukist í íslensku samfélagi, en það ber þess samt enn merki að það er smátt, og fordómum hefur ekki verið útrýmt." Valgerður sagði að málið væri ekki flokkspólitískt, en að mismunandi áherslur væru á það innan síns þingflokks. Hún benti á þau rök sem færð hefðu verið gegn ættleiðingum samkynhneigðra, án þess þó að gera þau að sínum, en þau væru að fyrst og fremst ætti að líta til þess sem væri barninu fyrir bestu. Hún minnti á að barnið væri ekki spurt hvort það vildi láta ættleiða sig hjá samkynhneigðum. Samkynhneigðir í hópi fundarmanna bentu á að barnið væri heldur ekki spurt í öðrum tilvikum, heldur ekki þegar aðrir minnihlutahópar, til dæmis fylgjendur Frjálslynda flokksins, ættu í hlut. Hrefna Friðriksdóttir lögfræðingur, sem var einn framsögumanna á fundinum, sagðist telja að löggjöf um ættleiðingar bryti gegn stjórnarskránni og barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, með því að heimila ekki ættleiðingar samkynhneigðra. Hún taldi þó að það væri kostur við frumvarpið sem nú liggur fyrir þinginu að þar væri í fyrsta sinn viðurkennd sú staðreynd að börn væru að alast upp hjá samkynhneigðum í samfélaginu. Hrefna gagnrýndi harðlega þau rök sem notuð hafa verið gegn því að börn alist upp hjá samkynhneigðum, að barn þyrfti bæði á föður- og móðurímynd að halda. Fráleitt væri að beita þeim gegn stjúpættleiðingum, því þau börn sem þar ættu í hlut væru hvort eð er að alast upp hjá tveimur foreldrum af sama kyni. Hún benti einnig á að sá málflutningur væri hvergi annars staðar tekinn gildur, að grundvallarmunur væri á hlutverki foreldra í uppeldinu. Hann væri til dæmis aldrei borinn á borð í forsjárdeilum, og ekki þegar deilt væri um hæfileika fólks til ýmiss konar vinnu. "Þessi rök eru tabú annars staðar en í umræðunni um samkynhneigða," sagði Hrefna. Felix Bergsson, sem var einn fundarmanna, spurði Hrefnu hvort vænlegt væri fyrir samkynhneigða að fara í dómsmál til að leita réttar síns. Hrefna sagði að samkynhneigðir hefðu með góðum árangri áfrýjað úrskurðum lægri dómstóla í Bandaríkjunum í slíkum málum, og fengið í gegn stjúpættleiðingar á þeim forsendum að fyrst og fremst ætti að hugsa um hag barnsins. Fleiri samkynhneigðir sem eignast börn saman Rannveig Traustadóttur sagði að það væri útbreiddur misskilningur að ekki væru til samkynhneigðir foreldrar. Staðreyndin væri sú að þeir hefðu alltaf verið til, og ekki væri ástæða til þess að þeim væri að fjölga nú, þeir hefðu aðeins orðið meira áberandi upp á síðkastið. Langflest þeirra barna sem alast upp hjá samkynhneigðum eru fædd í fyrri samböndum þeirra við gagnkynhneigða einstaklinga. "Fjölda samkynhneigðra para sem eignast börn saman virðist hins vegar fara fjölgandi víða um heim," sagði Rannveig. Börnin ekki líklegri til að verða samkynhneigð

Engar vísbendingar eru um að börn sem alast upp hjá samkynhneigðum séu líklegri en önnur til að verða samkynhneigð. Rannsóknir sýna einnig að þau sýna ekki síðri persónuleikaþroska en önnur börn, og þau hafa að jafnaði reynst víðsýnni og fordómalausari. Félagsleg tengsl þeirra við jafnaldra sína hafa reynst vera eðlileg. Rannveig sagði að það væri algengur misskilningur að börn sem ælust upp hjá samkynhneigðum væru líklegri til að verða fyrir kynferðislegri misnotkun heldur en önnur. Hún sagði að engar vísbendingar hefðu fundist um þetta í rannsóknum. "Þeir sem fyrst og fremst misnota börn eru gagnkynhneigðir karlar og þeir eru ekki til staðar í fjölskyldum samkynhneigðra foreldra," sagði Rannveig.