Hugsanavélin, geisladiskur hljómsveitarinnar Suðs. Sveitina skipa þeir Helgi Benediktsson sem syngur og leikur á gítar, Kjartan Benediktsson sem leikur á bassa og hljómborð og Magnús Magnússon sem leikur á trommur. Öll lög og textar eru eftir Suð. Upptökum stýrði Halldór K. Júlíusson. 39,27 mín. Gráðuga útgáfan gefur út.
Gítarsurg úr grasrótinni TÓNLIST Geisladiskur HUGSANAVÉLIN Hugsanavélin, geisladiskur hljómsveitarinnar Suðs. Sveitina skipa þeir Helgi Benediktsson sem syngur og leikur á gítar, Kjartan Benediktsson sem leikur á bassa og hljómborð og Magnús Magnússon sem leikur á trommur. Öll lög og textar eru eftir Suð. Upptökum stýrði Halldór K. Júlíusson. 39,27 mín. Gráðuga útgáfan gefur út. HUGSANAVÉLIN er fyrsta plata Suðs, að frátöldum tveimur heimagerðum plötum sem einungis er hægt að nálgast í gegnum heimasíðu sveitarinnar (www.hi.is/Ìhelgibe/sud) eða beint í gegnum meðlimi. Svona grasrótareinkenni eru yfir og allt um kring á plötunni og gamla góða pönksjónarmiðinu "gerðu það sjálfur" er hér fylgt í hvívetna. Umslag gripsins er afar lágfitlslegt (e. lo-fi) og öll hönnun er í höndum meðlima svo og útgáfan sjálf. Eitt af því sem gerir Hugsanavélina aðlaðandi er að tilvera hennar byggist á einlægni og áhuga meðlima á að búa til tónlist, gróðasjónarmið virðast víðsfjarri. Tónlistin sjálf er tilfinningaþrungið nýbylgjurokk að amerískum hætti. Eins konar "emo-core", þar sem pólitískir textar eru skildir eftir heima og þess í stað leitað inn á við. Hljómar eru einfaldir og gripin fá en flutningurinn er lifandi og kröftugur. Flókin og fáguð lög skapa ekki endilega fegurðina, staðreynd sem liðsmenn Suðs virðast vita fullvel af. Stundum eru lögin hröð og beinskeytt, með bjöguðum og skítugum hljóm, í anda gæðasveita eins og Dinosaur Jr, Seam og Hüsker Dü. Á öðrum stöðum dufla Suð-liðar við hæg og drungaleg stef sem minna einna helst á hljómsveitirnar Slint og Mogwai. Á heildina litið eru lög Hugsanavélarinnar fremur fjölbreytt þótt þau séu innan áðurnefnds nýbylgjurokksramma. Mín helsta umkvörtun varðar sönginn, sem er fremur rislítill. Einhverja innlifun og tilfinningu skortir. Það er líkt og Helgi söngvari hiki dulítið við að sleppa fram af sér beislinu. Þetta söngvandamál virðist því miður hrjá flestar íslenskar sveitir. Einnig hefði sá litli hljómborðsleikur sem á plötunni er mátt missa sín. Hann skýtur svolítið skökku við í þau fáu skipti sem hann birtist. Myrkir textarnir, sem allir eru á íslensku, eru á gamalkunnum þunglyndisslóðum. Glötuð ást og brostnar vonir sveipa textana þó að örlítil ljóstýra brjótist í gegn stöku sinnum. Textarnir verða á stundum barnslega einlægir sem sést í setningum eins og "En ég veit ég er feiminn", "Ég er svo heppinn að eiga þig að" og "En hvað sem ég geri ­ ég klúðra því". Í flestum lögunum er þó bara skemmtilegt að fylgjast með dansi söngvarans við djöfulinn í fölu mánaskini. Eða þannig. Þessi niðurdregna stemmning er að vísu brotin upp í laginu "Gráðuga fólkið", einu besta lagi plötunnar. Þar leita þeir félagar ögn út á við og læða inn bráðskemmtilegum samfélagspælingum. "Vaknaði að morgni til að standa í röð", segir m.a. í laginu. Önnur lög sem standa upp úr eru "Svipbrigðin", sem er hraður og grípandi rokkari, hið dula og draumkennda "Hugarfar" og "Þú átt það skilið", en því tekst einna best að losna undan erlendum áhrifavöldum. Þessi fyrsta plata Suðs ber þess vissulega merki að vera frumburður hljómsveitarinnar og það er margt sem mætti slípa betur til. Fjölbreytni laganna gefur til kynna að þau séu samin á löngu tímabili og platan er ekki alveg nógu heilsteypt fyrir vikið. Hugsanavélin býr þó óneitanlega yfir sterkum sjarma, sigrar á einlægninni eins og áður er getið og gefur fögur fyrirheit. Fínasta plata sem meðlimir geta verið stoltir af. Arnar Eggert Thoroddsen