ÍR-INGAR, sem fengu stóran skell í síðustu umferð á móti ÍBV í Eyjum, sneru við blaðinu í gærkvöldi og unnu KA-menn sannfærandi á heimavelli sínum í Breiðholtinu, 30:27.

ÍR-INGAR, sem fengu stóran skell í síðustu umferð á móti ÍBV í Eyjum, sneru við blaðinu í gærkvöldi og unnu KA-menn sannfærandi á heimavelli sínum í Breiðholtinu, 30:27. Leikurinn var jafn í fyrri hálfleik en ÍR-ingar gerðu út um leikinn í upphafi síðari hálfleiks. Með sigrinum fóru ÍR-ingar upp fyrir KA í þriðja sæti deildarinnar. "Við komum grimmir eftir tapið í Eyjum. Strákunum fannst þeir skulda bæði sjálfum sér og þeim sem standa utan við liðið eitthvað og sýndu nú hvað býr í liðinu," sagði Jón Kristjánsson, þjálfari ÍR.

KA-menn byrjuðu af krafti og komust í 4:1 þegar átta mínútur voru liðnar. Hornamaðurinn Guðjón Valur Sigurðsson hafði þá gert öll fjögur mörk KA. ÍR-ingar settu fljótlega fyrir þennan leka í vörn sinni og náðu að saxa á forskotið jafnt og þétt og jöfnuðu í fyrsta sinn, 10:10, þegar átta mínútur voru til leikhlés. Staðan í hálfleik var 13:13.

ÍR-ingar náðu mjög góðum leikkafla í síðari hálfleik og voru nánast búnir að gera út um leikinn þegar stundarfjórðungur var eftir og staðan þá 22:17. KA-menn reyndu að taka Ragnar Óskarsson leikstjórnanda úr umferð en allt kom fyrir ekki. Þá losnaði enn meira um skytturnar, Ingimund Ingimundarson og Erlend Stefánsson. Þeir röðuðu inn mörkum og ekki stóð steinn yfir steini í vörn KA og allt lak inn.

ÍR-ingar sýndu að þeir eru til alls líklegir. Þeir mættu mjög ákveðnir til leiks og leikgleðin skein úr andlitum þeirra á meðan KA-menn voru með hangandi haus. Eins og áður segir léku Erlingur og Ingumundur vel og Hallgrímur varði vel í markinu, sérstaklega í síðari hálfleik. Ragnar og Ólafur Sigurjónsson ógnuðu mjög með hraða sínu og útsjónarsemi. Þá voru þeir Finnur Jóhannsson og Róbert Róbertsson sterkir í 3-2-1 framliggjandi vörn þeirra.

Hjá KA voru aðeins tveir sem léku af eðlilegri getu, Bo Sage, sem gerði 11 mörk og Guðjón Valur Sigurðsson. Aðrir voru nánast úti á þekju. Heimir Örn Árnason kom inn á í blálokin og gerði þá fjögur mörk á stuttum tíma og hefði mátt koma fyrr inn á fyrir Lars Walter sem gerði aðeins eitt mark.

Atli Hilmarsson, þjálfari KA, var vonsvikinn eftir annað tap liðsins í röð. "ÍR spilaði betur, sérstaklega í seinni hálfleik. Við vorum ekki tilbúnir í þennan leik. Menn spiluðu sem einstaklingar en ekki sem lið. Við fengum á baukinn í síðasta leik gegn Stjörnunni á heimavelli og það hefði átt að vera okkur víti til varnaðar. En þegar menn berjast ekki er ekki von á góðu. Sóknin var ekki vandamálið hjá okkur, heldur var það fyrst og fremst vörnin sem brást," sagði Atli.

Valur B. Jónatansson skrifar