NJARÐVÍK, Keflavík og KR báru sigur af andstæðingum sínum í úrvalsdeildinni í körfuknattleik í gærkvöldi. Njarðvíkingar unnu sannfærandi sigur á Snæfelli, 98:67, Keflvíkingar völtuðu yfir spútníklið Hamars frá Hveragerði, 124:66, og KR-ingar gerðu góða ferð norður yfir heiðar og sigruðu Þór, 100:82.

Njarðvíkingar unnu sannfærandi sigur á Snæfelli frá Stykkishólmi í Ljónagryfjunni í Njarðvík í gærkvöldi og sýndu á köflum góðan leik. Snæfellingar mættu aðeins með átta menn til leiks og höfðu því aðeins þrjá skiptimenn sem er fullmikil bjartsýni ef menn ætla sér að standa í hárinu á Njarðvíkingum á heimavelli. Í hálfleik var staðan 41:31.

Njarðvíkingar tóku leikinn fljótlega í sínar hendur og sýndu þeir oft á tíðum bæði góðan leik og skemmtileg tilþrif. Liðið náði vel saman og höfðu gestirnir ekki roð við Njarðvíkingum að þessu sinni. Snæfell komst þó einu sinni yfir í fyrri hálfleik 13:12, en 10 stig Njarðvíkinga í röð breyttu snarlega gangi leiksins og ljóst að róðurinn yrði þungur hjá 8 Snæfellingum sem og raunin varð á.

Þeir Örlygur Sturluson, Hermann Hauksson, Páll Kristinsson og Teitur Örlygsson voru bestu menn Njarðvíkinga en hjá gestunum var Kim Lewis bestur í annars jöfnu liði.

Björn Blöndal skrifar