Í SKRIFLEGU svari Finns Ingólfssonar iðnaðarráðherra við fyrirspurn Sighvats Björgvinssonar, þingmanns Samfylkingar, um virkjunarleyfi og umhverfismat, sem lagt var fram á Alþingi í vikunni, kemur fram að ýmis virkjunarleyfi eru í fullu gildi skv. lögum um raforkuver eða sérlögum þar sem framkvæmdir eru ekki hafnar en þær taldar undanþegnar ákvæðum laga um umhverfismat.

Lög um mat á umhverfisáhrifum öðluðust gildi 21. maí 1993 en í bráðabirgðaákvæði II með lögunum segir að þrátt fyrir ákvæði 17. gr. laganna séu framkvæmdir samkvæmt leyfum útgefnum fyrir 1. maí 1994 ekki háðar mati á umhverfisáhrifum samkvæmt lögunum. Vildi fyrirspyrjandi vita hvaða virkjanir féllu undir bráðabirgðaákvæði II.

Í svari iðnaðarráðherra kemur fram m.a. að skv. lögum um raforkuver frá 1981 hefur Landsvirkjun heimild, að fengnu samþykki ríkisstjórnarinnar, til að stækka Hrauneyjarfossvirkjun í allt að 280 MW afl, en hún er 210 MW, og Sigölduvirkjun í allt að 200 MW afl, en hún er nú 150 MW. Eru framkvæmdir á grundvelli þessara heimilda ekki hafnar.

Ríkisstjórn gerði jafnframt samning árið 1983 við Landsvirkjun um að hún reisti og ræki Blönduvirkjun með allt að 180 MW afli, en hún er nú 150 MW, og Fljótsdalsvirkjun með allt að 330 MW afli, að fengnu leyfi ráðherra.

Ríkisstjórnin hafði einnig heimild skv. lögum um raforkuver til að semja við Landsvirkjun um Villinganesvirkjun með allt að 40 MW afli en með breytingu á lögum um Landsvirkjun var þessi heimild færð Rafmagnsveitum ríkisins í félagi með aðilum í Skagafirði og þarf sú virkjun því að fara í mat á umhverfisáhrifum.

Beiðni frá Orkuveitu Reykjavíkur liggur fyrir

Í lögum um raforkuver kom jafnframt fram að ríkisstjórnin gæti heimilað jarðvarmavirkjanir til raforkuframleiðslu á háhitasvæðum eða stækka slík orkuver sem fyrir eru um samtals 50 MW og hafa 39,4 MW verið nýtt af þeirri heimild. Eftir eru því 11,6 MW.

Ennfremur var Landsvirkjun veitt heimild til að stækka Búrfellsvirkjun í allt að 310 MW afl og er í dag 40 MW óráðstafað af þeirri heimild.

Loks var iðnaðarráðherra veitt heimild til að veita Hitaveitu Reykjavíkur leyfi til að reisa og reka jarðvarmavirkjun til raforkuframleiðslu á Nesjavöllum með allt að 76 MW afli í tveimur áföngum. Þegar hefur verið hafinn rekstur á 60 MW virkjun á Nesjavöllum og liggur nú fyrir í iðnaðarráðuneytinu beiðni Orkuveitu Reykjavíkur um að fullnýta heimild laganna og auka uppsett afl virkjunarinnar í 76 MW.

Virkjunarleyfi í Hvítá í Borgarfirði ekki verið nýtt

Í sérlögum um virkjun Hvítár í Borgarfirði frá 1977 var ríkisstjórn veitt heimild til að veita Andakílsárvirkjun sf. leyfi til þess að reisa og reka vatnsaflsstöð við Kljáfoss í Hvítá í Borgarfirði með allt að 13,5 MW afli og orkuveitu til tengingar við orkuflutningskerfið í Borgarfirði. Virkjun þessi hefur hins vegar ekki verið reist.

Að síðustu hefur iðnaðarráðherra, skv. lögum um sjóefnavinnslu á Reykjanesi frá 1981, heimild til að leyfa Sjóefnavinnslunni hf. að reisa og reka raforkuver allt að 10 MW að stærð í tengslum við starfrækslu fyrirtækisins. Sú heimild hefur aðeins verið nýtt til 0,5 MW virkjunar.