FJARSTÝRT vélmenni fann í gærkvöldi báða svörtu kassana svonefndu úr farþegaþotu EgyptAir sem hrapaði undan strönd Bandaríkjanna á sunnudaginn var. Í kössunum eru flugritar og segulbandsupptökur sem gætu skýrt hvað olli flugslysinu.

Vélmennið greindi hljóð frá kössunum en ekki var víst að hægt yrði að ná þeim strax af hafsbotninum þar sem bandaríska veðurstofan spáði stormi á leitarsvæðinu. Bandarískur embættismaður sagði að ef til vill þyrfti að fresta frekari aðgerðum þar til á mánudag vegna óveðursins.

Vona að vélmennið geti sótt kassana

Áhöfn USS Grapple, björgunarskips bandaríska sjóhersins, lét vélmennið síga niður í Atlantshafið þar sem þotan hrapaði, um 100 km undan strönd Massachusetts, þrátt fyrir mikinn öldugang og hvassviðri. Leitinni hafði þá seinkað um tvo daga vegna veðurs.

Um 30 kafarar eru í björgunarskipinu en þeir komust ekki að flaki þotunnar, sem er á 78 metra dýpi. Veðurstofan spáði því að vindhraðinn yrði um 30 hnútar og ölduhæðin 3-4 metrar og talsmaður sjóhersins sagði að hvorki kafararnir né vélmennið gætu starfað við slíkar aðstæður.

Vélmennið er búinn myndavélum, hljóðsjá og gripörmum sem vonast er til að geti borið svörtu kassana af hafsbotninum.

Þeir sem rannsaka flugslysið vona að flugritinn og segulbandsupptökurnar geti skýrt hvers vegna farþegaþotan steyptist beint niður á gífurlegum hraða og klifraði síðan aftur áður en hún skall í sjóinn. 217 manns voru í þotunni og fórust allir.