FYRSTA háskólafundi, sem haldinn var samkvæmt nýjum lögum um Háskóla Íslands, lauk í gær eftir tæplega tveggja daga fundasetu 60 fulltrúa úr öllum deildum og stofnunum Háskólans.

FYRSTA háskólafundi, sem haldinn var samkvæmt nýjum lögum um Háskóla Íslands, lauk í gær eftir tæplega tveggja daga fundasetu 60 fulltrúa úr öllum deildum og stofnunum Háskólans. Meginhlutverk fundarins var að ræða heildarstefnu Háskólans og fjalla um öll sameiginleg mál hans. Að sögn Páls Skúlasonar, rektors Háskóla Íslands gekk fundurinn mjög vel og skapaðist góð stemmning meðal fundarmanna.

"Vinnuhópar, sem myndaðir voru út frá fjórum meginhlutverkum Háskólans, þ.e. rannsókna-, kennslu-, fræðslu-, og þjónustuhlutverki, störfuðu á fundinum og þar að auki voru ýmsar tillögur ræddar," sagði Páll. "Þetta er upphafið að nýju starfi sem ekki hefur verið unnið áður með þessum hætti og tilgangurinn er að samhæfa störf háskólafólks."

Fundinn sátu forsetar allra deilda ásamt fulltrúum stúdenta og fulltrúum frá félögum starfsmanna Háskólans. Ennfremur sátu fundinn kjörnir fulltrúar og varafulltrúar deilda Háskólans auk tveggja fulltrúa sem menntamálaráðherra skipaði, og þá áttu Landsbókasafn, félag prófessora og félag háskólakennara sinn fulltrúann hvert. Fulltrúar úr háskólaráði og frá rektorsskrifstofu sátu fundinn einnig en án atkvæðisréttar og sama gilti um fulltrúa úr stjórnsýslu Háskólans og fulltrúa formanna starfsnefnda.

Samkvæmt lögum á að halda háskólafund að minnsta kosti tvisvar á ári, að hausti og vori, en að sögn Páls má halda fundinn oftar ef vill.

Nauðsynlegt að hafa sjálfstæðan vettvang til stefnumótunar

Aðspurður sagði Páll að þörfin fyrir þá lagasetningu, sem kveður á um háskólafundinn, endurspeglaðist í nauðsyn á því að hafa sjálfstæðan vettvang til að ræða og móta stefnu háskólans og sameiginleg mál hinna mörgu deilda og stofnana hans. "Nú er háskólafundurinn orðinn vettvangur stefnumótunar Háskólans, en háskólaráð, sem er mun fámennara ráð og er æðsti úrskurðaraðili í málefnum Háskólans, sér hins vegar um framkvæmdastjórnina."

Á næsta háskólafundi, sem verður að líkindum haldinn á vori komanda munu hópstjórar vinnuhópanna fjögurra gera grein fyrir stöðu stefnumótunarstarfsins, meta árangurinn og gera tillögur um endurskoðun og úrbætur eftir því sem þurfa þykir. Er þá gert ráð fyrir því að samþykkja ákveðnar yfirlýsingar um stefnu Háskólans í ýmsum mikilvægum málum, að sögn Páls.