Á leikskólanum Norðurbergi í Hafnarfirði eru rúmlega 60 börn og 10 starfsmenn, samt er minna í rulsatunnu leikskólans eftir vikuna en á heimilum flestra fjögurra manna fjölskyldna.

Á leikskólanum Norðurbergi í Hafnarfirði eru rúmlega 60 börn og 10 starfsmenn, samt er minna í rulsatunnu leikskólans eftir vikuna en á heimilum flestra fjögurra manna fjölskyldna. Sorphirðumennirnir þurfa ekki einu sinni að rúlla tunnunni út í bíl, heldur tína bara þá örfáu poka sem í henni eru upp úr.

Haustið 1997 hófst þróunarverkefni á Norðurbergi þar sem stefnt var að því að gera leikskólann vistvænan. Fengin var fjárveiting frá menntamálaráðuneytinu til verkefnisins og vinnuhópar settir af stað sem tóku að sér ýmis verkefni með það markmið að gera starf leikskólans vistvænt og veita börnunum umhverfismenntun.

Berum ábyrgð í nútíð og líka til framtíðar

Anna Borg, leikskólastjóri á Norðurbergi, segir verkefnið hafa gengið vonum framar og að börnin séu fljót að tileinka sér það sem þeim sé kennt og að þeim finnist þetta þar að auki alveg stórskemmtilegt. Fjögur markmið voru sett í upphafi. Að leikskólinn Norðurberg yrði umhverfisvænn, að starfsfólk leikskólans yrði gert hæfara og sér betur meðvitandi um hvað það er að vera umhverfisvænn, að börnin yrðu virkjuð og frædd um hve mikilvægt það sé að bera virðingu fyrir náttúrunni og ganga vel um hana, að sorp yrði flokkað, það endurnýtt sem hægt er og að neysluvenjur yrðu sparsamari. Anna segir marga leikskóla í Hafnarfirði hafa orðið umhverfisvæna í kjölfarið á þróunarvinnu þeirra og einnig sé byrjað að vinna í þessu á fleiri stöðum á höfuðborgarsvæðinu.

Anna segir að þau vilji tala um umhverfismenntun en ekki umhverfisfræðslu því börnin séu þátttakendur í henni. Þau sitji ekki undir fræðslu frá starfsfólkinu heldur sé það fyrirmyndir og er umhverfismenntunin fléttuð inn í daglegt líf barnanna.

Á leikskólanum er úrgangur og rusl flokkað og allt endurunnið sem hægt er. Börnin nota ýmislegt sem til fellur í föndur og listsköpun og endurvinna sjálf pappír með því að rífa niður afgangspappír, leggja hann í bleyti, sigta hann og hengja til þerris. Matarumbúðir eru flokkaðar og settar í endurvinnslukassa og matarafgangar í safnkassa og það eru börnin sjálf sem sjá um að koma öllu á sinn rétta stað. Einnig er börnunum kennt að slökkva alltaf ljós þegar það er enginn inni í herberginu og skrúfa fyrir vatnið þegar enginn er að nota það.

"Auðvitað er rétt að byrja á þessum yngstu krökkum," segir Anna. "Ég hef fulla trú á því að börn sem byrja að læra þetta svona ung verði miklu fljótari að aðlagast breyttum aðstæðum í þjóðfélaginu. Jörðin tekur ekki endalaust við og við verðum að hugsa fram í tímann. Það erum við sem berum ábyrgð í nútíð og við berum líka ábyrgð til framtíðar."

Naglar og sinnepstúba

Ýmis fleiri verkefni eru á dagskrá. Börnin hreinsa fjöru í nágrenninu og tína rusl í grennd við leikskólann. Til stendur að búa til grænmetisgarð og þá átta börnin sig á því að þau geti ræktað sinn eigin mat og borðað hann.

Anna segir að börnin læri smám saman mikilvægi þess að hugsa vel um umhverfið, sérstaklega vegna þess að í daglegu lífi sínu á leikskólanum geri þau svo margt sem að því snýr. Að sjálfsögðu komi þau svo heim full af fróðleik og hugmyndum um hvernig megi geri heimili sín umhverfisvænni.

"Einu sinni þegar við vorum að hreinsa fjöruna fundum við risastóra hrúgu af nöglum sem við hreinsuðum upp og tókum með okkur til að láta endurvinna í Sorpu. Við ræddum um hvað væri hægt að gera við naglana, til dæmis að búa til áldósir eða skrúfur. Pabbi einnar stúlkunnar sagði mér svo að þau hafi stuttu seinna verið í eldhúsinu heima og hann hafi ætlað að fara að henda sinnepstúbu þegar stúlkan hljóp að honum og æpti: "Pabbi, pabbi, ekki henda sinnepstúbunni við getum búið til nýja nagla úr henni!"

Þarna er hún náttúrlega að blanda öllu saman en samt er hún að segja það sem máli skiptir. Það sem hún er raunverulega að segja er: Hugsaðu áður en þú hendir, því hún er búin að átta sig á því að úr flest öllu gömlu, getum við búið til eitthvað nýtt."