SAMKEPPNI um nýsköpunarverkefni í vetrarferðum á Norðurlandi var hrundið af stað í gær og er frestur til að skila inn tillögum í samkeppnina til 15. sesember næstkomandi.

SAMKEPPNI um nýsköpunarverkefni í vetrarferðum á Norðurlandi var hrundið af stað í gær og er frestur til að skila inn tillögum í samkeppnina til 15. sesember næstkomandi. Keppnin er öllum opin og er haldin að frumkvæði verkefnis sem kallast "Stefnum norður", en að baki því standa ýmis ferðaþjónustufyrirtæki og atvinnuþróunarfélög.

"Verkefnið "Stefnum norður" hófst í kjölfar kynnisferðar íslenskra fulltrúa til norðursvæða Finnlands síðasta vor þar sem þeir kynntu sér þá þróun sem átt hefur sér stað í vetrarþjónustu í Norður-Finnlandi. Finnar hafa náð miklum árangri í sölu vetrarferða til norðlægra slóða.

Hólmar Svansson framkvæmdastjóri Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar sagði að um yrði að ræða tveggja ára verkefni að lágmarki, enda þyrfti drjúgan tíma til að vinna svæðinu sess. Með samkeppninni er ætlunin að laða fram nýjar hugmyndir um áhugaverða þætti í vetrarferðamennsku á Norðurlandi sem síðan yrði söluvara á ferðamarkaði. Takist vel til mun í kjölfar keppninnar vera hægt að auka framboð afþreyingar á vetrartímanum á Norðurlandi og fá fleiri ferðamenn á svæðið á þeim árstíma.

Jón Karl Ólafsson framkvæmdastjóri Flugfélags Íslands sagði svæðið eiga mikla möguleika á að auka ferðaþjónustu að vetrarlagi, þegar kæmi fjöldi ferðamanna til Reykjavíkur og ef vel tækist til ætti að vera hægt að fá einhverja þeirra til að bregða sér að auki út fyrir borgarmörkin og dvelja einnig á öðrum svæðum. "Lykillinn að því er að finna einhverja sérstöðu fyrir þetta svæði," sagði Jón Karl.

Vegleg verðlaun

Vegleg verðlaun verða veitt í samkeppninni, en Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins greiðir verðlaunin auk þess sem VSÓ ráðgjöf á Akureyri veitir ráðgjöf vegna nánari útfærslu á þeim hugmyndum sem valdar verða. Fyrstu verðlaun eru 500 þúsund krónur og 30 klukkustunda ráðgjöf, en önnur og þriðju verðlaun eru 150 þúsund krónur auka 10 klukkustunda ráðgjöf hjá VSÓ ráðgjöf á Akrueyri.

Hugmyndir þurfa að vera vel fram settar og útfærðar þannig að dómnefnd geti metið hversu framkvæmanlegar þær eru. Auk lýsingar á hugmyndinni þurfa að fylgja hugleiðingar um hugsanlega kaupendur, framkvæmdatíma, áætlaðan kostnað og hvernig standa skuli að sölu og markaðssetningu.

Gert er ráð fyrir að dómnefnd tilkynni niðurstöðu sína í janúar á næsta ári.