GERHARD Schröder, kanzlari Þýzkalands, sagði í gær að Kína væri á greiðri leið með að uppfylla sett skilyrði fyrir aðild að Heimsviðskiptastofnuninni, WTO, og hvatti til þess að Kínverjar tækju þátt í reglulegu samráði G8-hóps helztu iðnríkja heims.

GERHARD Schröder, kanzlari Þýzkalands, sagði í gær að Kína væri á greiðri leið með að uppfylla sett skilyrði fyrir aðild að Heimsviðskiptastofnuninni, WTO, og hvatti til þess að Kínverjar tækju þátt í reglulegu samráði G8-hóps helztu iðnríkja heims. En hann mælti með því að Kínverjum yrði sýnd biðlund hvað varðar mannréttindamál, og lofaði kínversk stjórnvöld fyrir framfarir á því sviði á allra síðustu árum. Við lok fjögurra daga heimsóknar sinnar til Kína tjáði Schröder blaðamönnum að hann væri bjartsýnn á að Kínastjórn næði fljótlega samkomulagi við Evrópusambandið um WTO-aðild Kína, og að hann vonaðist til að afstaða bandarískra þingmanna yrði jákvæðari svo að Bandaríkin gæfu einnig samþykki sitt. Rætt um lýðræði og réttarríki

Schröder átti í gær viðræður við Jiang Zemin, forseta Kína, en á fimmtudag ræddi hann sérstaklega við Zhu Rongji forsætisráðherra um leiðir til að auka veg lýðræðis og réttarríkis í Kína.

"Kína vill læra af reynslu annarra landa af lýðræði og réttarríki," sagði Zhu eftir viðræður leiðtoganna. Kínastjórn lýsti sig reiðubúna að kanna "nýjar leiðir" til að auka veg lýðræðis og réttarríkis í landinu, eftir því sem Schröder greindi fréttamönnum frá, án þess að skýra það nánar.

Í fyrradag tjáði Schröder kínverskum menntamönnum í Sjanghæ, að "viljinn til [pólitískra] umbóta verður að vera meiri en hann hefur verið fram að þessu."

Almennt vísa kínversk stjórnvöld erlendri gagnrýni á hið miðstýrða valdstjórnarkerfi sem við lýði er í Kína og á mannréttindamál í landinu á bug sem afskipti af innanríkismálum. En þau hafa fallizt á að eiga viðræður um mannréttindamál á vinsamlegri nótum við mikilvægustu löndin sem Kína er í stjórnmálasambandi við.

Í fylgd með kanzlaranum er stór þýzk viðskiptasendinefnd. Efnafyrirtækin Bayer AG og BASF undirrituðu samninga um viðskipti í Kína sem metnir eru á 5,9 milljarða marka, um 240 milljarða króna.