LAGT hefur verið fram á Alþingi frumvarp til laga um afnám gjalds á menn utan trúfélaga. Flutningsmaður er Mörður Árnason, þingmaður Samfylkingar.

LAGT hefur verið fram á Alþingi frumvarp til laga um afnám gjalds á menn utan trúfélaga. Flutningsmaður er Mörður Árnason, þingmaður Samfylkingar.

Í greinargerð frumvarpsins eru tíunduð þau ákvæði í stjórnarskrá sem tryggja mönnum rétt til að mega standa utan félaga, auk þess sem vísað er í ákvæði um trúfrelsi. Kemur fram að með frumvarpinu sé ekki lagt til að breytingar verði gerðar á þeirri skipan að ríkisvaldið innheimti gjald til þjóðkirkjusafnaða eða annarra skráðra trúfélaga, enda megi líta svo á að þessum innheimtustörfum hafi verið komið svo fyrir vegna þeirra sérstöku tengsla ríkisins við evangelisk-lútersku kirkjuna sem kveðið sé á um í stjórnarskránni.

Hins vegar sé lagt til að sérstök gjaldheimta á fólk utan trúfélaga sé stöðvuð. "Einstaklingur sem kýs að vera utan trúfélaga nýtir sér þar með rétt sinn samkvæmt fyrrgreindum ákvæðum stjórnarskrár til að standa utan félaga," segir í greinargerðinni. Það sé í ósamræmi við lög um rétt manna til að standa utan trúfélaga og lög um félagafrelsi að trúfélögum sé gert svo hátt undir höfði að réttinum til að standa utan þeirra fylgi sú kvöð að greiða til alls óskyldra hluta sama gjald og sá greiðir sem kýs að vera í trúfélagi.

Segir í greinargerð að verkefni háskólasjóðs, sem haft hefur verulegar tekjur af svokölluðum "sóknargjöldum" fólks utan trúfélaga, geti ekki talist slík þjóðarnauðsyn að fjár sé aflað til þeirra með sérstöku gjaldi á umræddan hóp fólks í samfélaginu.