POKÉMON-skrímslin hafa lagt Japan að fótum sér, þegar hafið innreið sína í Bandaríkin og Evrópa er næst.

POKÉMON-skrímslin hafa lagt Japan að fótum sér, þegar hafið innreið sína í Bandaríkin og Evrópa er næst. Austur í Japan er leikur sem snýst um skrímslin vinsælasti leikur sögunnar, sjónvarpsþáttur með fígúrunum úr leiknum er vinsælasti barnaþáttur þar í landi, hljómplötur með tónlist úr þáttunum hafa selst í milljónum eintaka, milljónir ungmenna kaupa teiknimyndablöð um Pokémon reglulega, vinsælasta leikfang Japans síðustu tvö ár er Pokémon Pikachu-dúkka, 400 milljón Pokémon-safnmyndir hafa selst, kvikmynd um skepnurnar er næstvinsælasta teiknimynd japanskrar kvikmyndasögu og svo má telja. Ekki hefur reyndar alltaf gengið vel að flytja út japanska dægurmenningu (eða man nokkur eftir tamagotsji), en ekki ber á öðru en að vel muni takast að þessu sinni, enda hafa selst af Pokémon-leikjum tvær milljónir eintaka síðan í september á síðasta ári vestan hafs. Víst er það ekki mikið samanborið við Japan, þar sem tólf milljón leikir hafa selst, en það er á hálfu fjórða ári.

Ekki er gott að skýra Pokémon fyrir þeim sem ekki þekkja, en það er meira en bara leikur, því sjónvarpsþátturinn er væntanlegur í sjónvarp á Vesturlöndum á næstu vikum, kvikmyndin verður líkastil sýnd á næstunni og allkyns Pokémon-dót er þegar fáanlegt, um þúsund hlutir að sögn, allt frá lyklakippum í skyndibita, frímerki, límmiða, teningaspil og skurðgoð.

Menn voru efins að takast myndi að selja leikina af sama kappi vestan hafs og gerðist í Japan, en salan í Bandaríkjunum hefur verið það góð að miklu verður kostað til af hálfu Nintendo að markaðssetja Pokémon í Evrópu. Þar spá menn því að leikirnir muni ná milljónasölu, en svo er komið að Nintendo, sem virtist fara halloka í glímunni við Sony um stöðuna sem helsta leikjafyrirtæki heims, tekur nú Sony gersamlega í nefið og hagnast á tá og fingri á Nintendo 64, Game Boy og grúa leikja. Gera má því skóna að útbreiðsla Pokémon eigi eftir að auðvelda Nintendo að markaðssetja næstu kynslóð helstu leikjatölvu sinnar, Dolphin, á næsta ári og ekki síst skjóta stoðum undir næstu gerð af Game Boy, sem verður 32 bita, nettengd og kemur einnig út á næsta ári.

Blár Pokémon

Hér á landi er búið að gefa út bláan Pokémon, en rauður fæst einnig víða. Blái Pokémon hefst á því að leikandinn, sem heitir Ash Ketchum, einsetur sér að verða mesti Pokémon-stjóri heims. Hann leggur því upp með nesti og nýja skó og ráðleggingar frá prófessor Eik, sem er einskonar fyrirmynd, mesti Pokémon-fræðingur heims. Í leiknum glímir Ash við liðsmenn Team Rocket, leynisamtök Pokémon-óvina, en einnig þarf að fást við villt Pokémon-skrímsl og skepnur annarra þjálfara.

Í upphafi leiks er leikandinn með eitt ræfilslegt Pokémon undir höndum og þarf að þjálfa það og afla reynslu til að geta nælt sér í fleiri Pokémon. Markmiðið er að komast á heimsmót Pokémon-þjálfa, en til þess þarf hann að sigrast á átta öðrum þjálfurum í Pokémon-æfingastöðvum víða um leiksheim.

Alls eru Pokémon-skepnurnar 150, margar sérkennilegar útlits svo ekki sé meira sagt og skipt í fimmtán grunnflokka, til að mynda eld, vatn og svo framvegis. Hver á sín sérkenni, en ekki er hægt að rekast á allar "úti í náttúrunni", því margar eru þess eðlis að þróast í aðra Pokémon-gerð við sérstakar aðstæður. Til að mynda verður vinsælasta Pokémon-skrímslið, Pikachu, að Raichu, sem er talsvert öflugra, þegar þjálfarinn beitir þrumustein á það.

Eftir því sem leikandinn safnar að sér Pokémon aukast eðlilega líkur hans á að sigrast á þeim villtu Pokémon sem hann rekst á á för sinni, en þó verður að vera vel vakandi yfir því hvaða Pokémon hann lætur berjast við villtu skrímslin, því þau hafa mismunandi eiginleika eins og getið er. Þannig ræður vatns-Pokémon hæglega við eld-Pokémon og svo má telja.

Skipst á skrímslum

Eftir því sem Pokémon taka þátt í fleiri orrustum eykst þeim viska og afl, en enn má auka aflið með því að skiptast á skrímslum við aðra leikendur því færni og afl Pokémon eykst hálfu hraðar þegar þau eru fengin í skiptum. Skiptin fara fram með aðstoð kapals sem tengir tvær Game Boy tölvur saman. Það að skrímsl sem skipt er á milli verði fljótlega mun öflugri en ef þau eru alltaf föst í tölvunni er hvatning í sjálfu sér til að skipta, en einnig er ekki hægt að komast yfir öll 150 kvikindin nema þeð því að skipta því sum þeirra verða ekki til nema frumgerð þeirra sé skipt. Alls eru 139 Pokémon skrímsli í hvorum leik, rauðum eða bláum.

Ekki tekur langan tíma að komast inn í leikinn þó hann virðist flókinn við fyrstu sýn, en erfiðleikarnir við að skilja hann byggjast fyrst og fremst á því að hann er frábrugðinn flestum leikjum öðrum sem út hafa komið. Þó eru í honum ákveðin atriði sem leikjavinir kannast við, til að mynda bardagarnir sem byggjast á því að stjórnandinn leikur og verður síðan að bíða á meðan keppinauturinn leikur.

Leikandinn getur mest borið með sér sex Pokémon og aðeins getur eitt tekið þátt í bardaga í einu. Það má þó hvenær sem er skipta inn nýju Pokémon, og getur komið sér vel ef keppandinn er aðþrengdur. Eins og getið er má skiptast á skepnum við aðra leikendur með kapaltengingu, en einnig er hægt að berjast með aðstoð kapalsins.

Það sem hér hefur verið sagt um bláan Pokémon á að mestu við um rauða, þó leikirnir séu lítillega frábrugðnir. Það eru þó ekki sömu skepnur í þeim og því þarf leikandinn annað hvort að kaupa sér báða leikina, eða komast í samband við einhvern sem á hina gerðina. Einnig er til gulur Pokémon, eða verður til réttara sagt því hann kemur á markað víðast hvar á mánudaginn, en sá er sérstök Pitachu-gerð Pokémon og lítið frábrugðinn bláa eða rauða Pokémon. Að sögn er gulur Pokémon aðeins til þess ætlaður að vinna tíma á meðan hönnuðir Nintendo leggja síðustu hönd á næsta skammt, gull/silfur Pokémon, sem væntanlegir eru um mitt næsta ár. Líklega verða þeir gerðir sérstaklega fyrir lita Game Boy, en þó allir leikirnir séu í litum, þá nýta blái, rauði og guli ekki litaspjaldið í tölvunni af viti.

Fleiri leikir eru til tengdir Pokémon, þannig kom út í sumar Pokémon-kúluspil, sem þykir vel heppnað, Pokémon Pikatchu, sem er einfaldlega tamagotsji, Pokémon Snap sem er leikur fyrir Nintendo 64 og byggist á því að taka myndir af Pokémon úti í náttúrunni og Pokémon Stadium er væntanlegur, en það er leikur þar sem eigendur geta keppt sín á milli í Nintendo 64 tölvu, en þá lesa þeir leikina úr Game Boy yfir í 64 tölvuna. Nýjasta gerð Pokémon-leikja austur í Japan er svo Pikachu Genki Dechu fyrir Nintendo 64, en í honum stýrir leikandinn Pokémon-skrímsli með röddinni einni saman, því hljóðnemi er tengdur við tölvuna. Ógetið er svo Pokémon-myndanna sem hægt er að kaupa í pökkum áþekkum körfuboltamyndunum sem milljónir fóru í fyrir nokkrum árum og líklegt að þær verði ekki síður vinsælar.