Þegar Kristín Gestsdóttir fékk sér morgungöngu fyrsta vetrardag brostu nýútsprungnir fíflar við henni á hlaðinu.

EN FLEIRI blóm en fíflarnir halda að það sé komið vor, vallhumalplanta sprettur í fullum blóma upp með stofni birkitrés hér við eldhúsdyrnar þótt allar aðrar vallhumalplöntur séu löngu orðnar brúnar. Flugur og ánamaðkar eru í fullu fjöri þó fuglunum hafi fækkað, en þeir fuglar sem eftir eru hafa nóg að éta. Líka höfum við mannfólkið nóg af ferskum ávöxtum, berjum og grænmeti þótt verðið sé svimandi hátt á sumum tegundum, enda grænmeti ekki eins árstíðabundið og áður. Í hillum búðanna eru ýmsar tegundir sem fáir þekkja, svo sem ferskar baunir. Íslendingar eiga erfitt að greina á milli bauna og ertna, en ertur eru kringlóttar, aflangar og oft flatar og æði oft þurrkaðar. Ferskar baunir hingað komnar eru aftur á móti belgir með baunum eða fræum inni í og er allt borðað, bæði belgir og baunir. Ég hefi legið yfir bókum til að fá botn í hinn mikla baunafrumskóg, en ekki haft árangur sem erfiði og íslensk nöfn á baunirnar láta á sér standa. Oftast fást hér afar ljúffengar flatar baunir, 5-6 sm á lengd sem eru ýmist kallaðar snjóbaunir eða sykurbaunir. Þær eru með fræjum sem eru borðuð með og eins konar slaufu á endanum, hún er fjarlægð og fylgir með þráður sem liggur niður eftir bauninni. Stundum fást svokallaðar hrökkbaunir eða strengjabaunir (stringbeans) sem eru stökkar og brotna auðveldlega með smelli. Þær eru tíndar áður en fræin þroskast. Harður strengur liggur oft niður eftir bauninni. Hann er skorinn eða klipptur frá. Nýrri afbrigði eru án strengsins. Haricot vert hin franska fæst stundum hér. Ég vil kalla hana Franska baun. Fræbelgurinn er grannur, mjúkur og bragðsterkur. Hann hrekkur ekki í sundur við átak. Ameríska belgbaun hefi ég líka séð hér. Hún líkist frönsku bauninni Haricot vert í útlit en er sverari, stökkari og safaríkari. Baunir (ekki ertur) komu frá Nýja heiminum með Kólumbusi. Þær eru upprunnar í Mið-Ameríku og voru þar í ræktun löngu áður en hvíti maðurinn kom þangað. Yfirleitt var baununum plantað innan um maís. Eins og kunnugt er var uppistaða í fæðu Indíána maís, en í maís vantar mörg þýðingarmikil prótein sem aftur á móti eru í baunum. Indíánarnir blönduðu baunum og maís saman í rétt sem kallaður var succotash. Við getum sagt að fyrsta uppskriftin í dag sé af þeim rétti. Ég fékk hvergi ferskan maís en notaði niðursoðinn í staðinn.