"Og það var rétt, eftirspurnin eftir tölvumenntuðu fólki er auðvitað slík þar á bæ að tölvufræðingurinn gat valið úr störfum þegar hann hafði náð heilsu eftir aðgerðina.

"Og það var rétt, eftirspurnin eftir tölvumenntuðu fólki er auðvitað slík þar á bæ að tölvufræðingurinn gat valið úr störfum þegar hann hafði náð heilsu eftir aðgerðina. Gallinn var bara sá að sem kona var hann orðinn minna virði í augum atvinnurekenda og þurfti á endanum að sætta sig við starf sem gaf honum 10 þúsund dollurum minna í árslaun en hann hafði haft sem karlmaður."

TÖLUR um skiptingu kynjanna í stjórnunar- og ábyrgðarstöðum, sýna svo ekki verður um villst að það er nokkuð langt frá því að staða kvenna í íslensku atvinnulífi sé viðunandi. Viðunandi út frá sjónarmiði jafnréttis annars vegar og hins vegar út frá því sjónarmiði að stefnt skuli að því að nýta til fulls þann mannauð sem býr í þessum helmingi þjóðarinnar. Það er hins vegar sem betur fer að verða einkenni á vel reknum og framsæknum fyrirtækjum, að þar hafa menn tekið þessi mál til gagngerrar endurskoðunar, þótt enn sem komið er hafi fá náð jafn langt og Eimskipafélags Íslands hf. sem í síðustu viku hlaut viðurkenningu Jafnréttisráðs fyrir markvissa vinnu í þá átt að auka hlut kvenna í stjórnunar- og ábyrgðarstöðum innan fyrirtækisins.

Í umfjöllun í leiðara Morgunblaðsins um viðurkenninguna sagði meðal annars: "Sjálfsagt hefðu fáir trúað því fyrir aldarfjórðungi eða svo, þegar barátta fyrir jafnstöðu kvenna og karla komst í hámæli, hversu stutt við yrðum á veg komin hvað þetta varðar og jafnréttismál yfirleitt í lok aldarinnar."

Bandaríski femínistinn og blaðamaðurinn Susan Faludi hlaut Pulitzerverðlaunin eftirsóttu fyrir bók sína "Backlash" eða Bakslag í upphafi tíunda áratugarins. Í Backlash benti Faludi á það andóf sem þá hafði myndast í bandarísku þjóðlífi gegn kvenréttindum eftir þann mikla árangur sem náðst hafði áratugina á undan. Hún nefndi það samsæri þjóðfélagsins í formi stjórnvalda, fjölmiðla, vinnumarkaða og tískuhönnuða sem miðaði að því að koma konum út úr sviðsljósi hins opinbera vettvangs aftur inn á heimilin. Varnaðarorð Faludi fólust í því að ef jafnréttissinnar vöknuðu ekki aftur til lífsins og hæfust handa við að reyna að snúa þessari þróun við væri hætt við því að einhverjum áratugum héðan í frá yrði litið til níunda og tíunda áratugar tuttugustu aldarinnar sem þess tíma þegar konur nutu mests jafnræðis á við karla.

Með reglulegu millibili birta fjölmiðlar fréttir af því að nú sé enn eitt karlavígið fallið, þegar kona hefur starf innan stéttar þar sem karlar hafa fram að því verið einráðir. Það þykir þó varla sæta tíðindum lengur þegar konur keyra rútur, gröfur, stjórna flugvélum, eða sækja sjó, svo dæmi séu tekin af fyrrum hefðbundnum karlastörfum. Í raun er það svo, að nú undir lok aldarinnar eru þau störf, sem enn er hægt að kalla karlastörf, æðstu stöður í viðskiptalífi og stjórnmálum, innan ríkisgeirans og í háskólanum. Þar eru karlarnir nánast einráðir enn og konum reynist erfitt að koma fæti í gáttina á hinum helgu véum.

Ein helsta leið kvenna til þess að skapa sér betri, með öðrum orðum réttlátari, samkeppnisstöðu á vinnumarkaði hefur verið að leita sér menntunar. Það á við bæði hér á landi sem annars staðar í hinum vestræna heimi. Fleiri konur en nokkru sinni afla sér háskólamenntunar, allt upp í doktorsgráðu. Þannig hefur til dæmis ný könnun í Bandaríkjunum sýnt að árið 1997 voru konur 41% þeirra sem þar í landi lögðu stund á doktorsnám. Tíu árum áður var hlutfall kvenna í doktorsnámi í Bandaríkjunum 33% og árið 1967 aðeins 12%. Það er reyndar enn gleðilegra að veita því athygli að þrátt fyrir að áberandi lítill hluti þessara kvenna sé í framhaldsnámi í fögum á við stærðfræði, efnafræði og verkfræði hefur það hlutfall aukist til muna á umræddu tímabili.

Góð og almenn menntun kvenna er vissulega lykilatriði í baráttunni fyrir auknu jafnræði á vinnumarkaði. Ein og sér er hún hins vegar engin trygging á meðan gömul gildi ráða ríkjum í þjóðfélaginu. Nýlegt dæmi frá Silicondal í Kaliforníu segir hér meira en mörg orð. Ungur maður, tölvufræðingur að mennt, vann þar hjá einu hinna nýju framsæknu fyrirtækja á sviði tölvuiðnaðar og naut velgengni í starfi. Hann gekkst síðan undir kynskiptingu og varð kona. Fyrir meðferðina sagði hann upp starfi sínu enda gerði hann ráð fyrir að þurfa að vera frá í einhvern tíma og taldi sig ekki þurfa að hafa áhyggjur af því að fá vinnu, vel menntaður maðurinn. Og það var rétt, eftirspurnin eftir tölvumenntuðu fólki er auðvitað slík þar á bæ að tölvufræðingurinn gat valið úr störfum þegar hann hafði náð heilsu eftir aðgerðina. Gallinn var bara sá að sem kona var hann orðinn minna virði í augum atvinnurekenda og þurfti á endanum að sætta sig við starf sem gaf honum 10 þúsund dollurum minna í árslaun en hann hafði haft sem karlmaður. Það munar um minna, heilar sjö hundruð þúsund krónur íslenskar á ári!

Í sjónvarpsviðtali nefndi tölvufræðingurinn að aðdragandi kynskiptaaðgerðarinnar hefði verið langur og strangur og að hann hefði auðvitað gaumgæfilega vegið og metið kosti og galla þeirrar ákvörðunar sem hann var í þann veginn að taka og áhrif hennar á framtíðina. En við þá útreikninga hafði honum yfirsést sú napra staðreynd að tölvufyrirtæki, reyndar þjóðfélagið í heild, mæti minna vinnuframlag hans sem konu.

Þetta hefði hvaða kona sem er getað sagt honum.