Hljómsveitin Maus, Birgir Örn Steinarsson gítarleikari og söngvari, Daníel Þorsteinsson trommuleikari, Eggert Gíslason bassaleikari og Páll Ragnar Pálsson gítarleikari, kynnti nýja plötu sína Í þessi sekúndubrot sem ég flýt í Íslensku óperunni sl. fimmtudagskvöld. Með hljómsveitinni léku ýmsir gestir, gítarleikari, blásarar og strengjakvartett.

HLJÓMSVEITIN Maus hefur tekið gríðarleg stökk á hverri skífu sinni frá því sú fyrsta kom út full af ungæðislegu fjöri og krafti fyrir nokkrum árum. Á þeirri plötu sem sveitin kynnti í Óperunni á fimmtudagskvöld er stökkið stærra en oftast áður, enda gáfu þeir félagar sér góðan tíma til að vinna skífuna og tónlistin metnaðarfyllri og ríkari að innihaldi fyrir vikið.

Ekki held ég að þeir Mausverjar hafi haldið eins veglega og metnaðarfulla tónleika og þá sem hér eru gerðir að umtalsefni, en þeir eiga sér ágætan samhljóm í plötu þeirra sem er glæsilegt verk og það besta sem þeir félagar hafa sent frá sér hingað til. Þeir voru ekkert að tvínóna við hlutina, töldu í og byrjuðu á Strengjum, fyrsta lagi plötunnar. Keyrslan á því var grimm og gaf fyrirheit um fjörugt kvöld, enda platan sannkölluð partíplata þar sem vitundinni er skellt í hrærivél á mesta hraða. Nokkuð voru þeir Mausar óstyrkir framan af og full einbeittir, en fundu sig síðan í tónlistinni og áður en varði geislaði af þeim kæruleysisleg spilagleðin sem er aðal sveitarinnar.

Báturinn minn lekur var með þróttmesta móti og Dramafíkill sterkur. Í Gefðu eftir var hljómborð eins og út úr kú framan af, en í næsta lagi á eftir, Gerð úr við, átti það afskaplega vel við. Síðan vatt keyrslunni áfram, með strengjainnskoti eins og til að krydda, til að mynda í Kemur og fer, þar sem allt rakst á, sumarlegt Árbæjarreggí, þotur í aðflugi, feitur blástur og sætir strengir. Gekk afskaplega vel upp á köflum, en þess á milli var það við að detta í sundur án þess þó að gera það. Lagið á undan, Kerfisbundin þrá, reis uppúr á þessu kvöldi, háreist lag og grípandi með skemmtilegum texta. Bílveikin var skemmtilega tryllt, eins og vera ber þegar menn ganga á vit örlaganna, og Maðurinn með járnröddina, ögrandi yfirlýsing Birgis, frábær endir á mögnuðum tónleikum. Reyndar má segja að þögnin ein hafi verið eftir, svo mjög var dælan látin ganga undir það síðasta, meira að segja með magnaðri snarstefjun frá Páli. Áheyrendur vildu þó meira og fengu; villta útgáfu á Allt sem þú lest er lygi.

Með Í þessi sekúndubrot sem ég flýt taka Mausverjar stórt skref inn í framtíðina og verulega fróðlegt að heyra hvaða kúrs þeir taka í næstu verkum sínum. Tónleikar sveitarinnar í Íslensku óperunni sýna svo ekki verður um villst að þar fer hljómsveit sem er til alls líkleg.

Árni Matthíasson