[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í þessum greinaflokki verður fjallað um þrjú höfuðból í Fljótsdal á Héraði austur, landnámsjörðina Bessastaði, klausturjörðina Skriðuklaustur og kirkjustaðinn Valþjófsstað. Þessar jarðir eru samliggjandi í miðri sveit og hafa ávallt myndað kjarna hennar. Fljótsdalur hefur mikið verið í fréttum að undanförnu vegna fyrirætlana um virkjun Jökulsár í Fljótsdal, sem mjög er umdeild.

I. Bessastaðir

Bærinn Bessastaðir í Fljótsdal stendur á lækjargrund undir brekkurótum, nokkurn spöl fyrir utan Bessastaðaá (Bessu), sem kemur þar fram úr miklu gljúfragili, og fellur á eyrum út fyrir neðan bæinn. Utan og neðan bæjar er víðáttumikil slétta, Bessastaðanes, sem nú er orðin samfellt tún. Þar standa nýbýlin Eyrarland (stofnað 1937) og Litla-Grund, og gamla hjáleigan, Bessastaðagerði. Skammt fyrir innan bæinn, er önnur gömul hjáleiga, Hamborg, sem fór í eyði 1958. Líklega hefur bærinn Melar einnig verið hjáleiga frá Bessastöðum. Hefur því allt landið milli Hengifossár og Bessu, sem kallað er "Milli ánna", upphaflega tilheyrt jörðinni.

Fjallið upp af Bessastöðum er með aflíðandi bratta, næstum klettalaust og allvel gróið, en alsett lækjagiljum, er grafist hafa í þykkan jökulaur. Þar hefur um aldaraðir legið reiðvegur yfir Fljótsdalsheiði, Bessastaðavegur, sem kemur niður að bænum Klausturseli á Jökuldal. Í Hrafnkels sögu nefnist hann Bessagötur. Á árunum 1975-80 var lagður þarna fullkominn bílvegur upp á heiðina, kallaður Snæfellsvegur, því að hann liggur inn að Snæfelli, og er nú fjölfarinn á sumrum. Bessastaðir eru því enn sem fyrr á krossgötum, í miðri blómlegri sveit.

Á Bessastöðum hefur sama ættfólk búið síðan um 1870, að Jónas Jónsson frá Víðivöllum og Bergljót Þorsteinsdóttir frá Brekkugerði settust þar að, og er það kallað Bessastaðaætt. Jón sonur Jónasar og Anna Jóhannsdóttir kona hans áttu 19 börn, og komust 14 þeirra upp.

Við bæinn er gamall skrúðgarður, með háum og myndarlegum trjám, sem Anna húsfreyja (1877- 1954) átti mestan veg og vanda af, og framan af 20. öldinni þótti hann bera af öðrum skrúðgörðum á Héraði. Undruðust margir þá ástundun hennar.

Núverandi bóndi er Andrés Einarsson frá Bessastöðum, sem hefur stundað smíðar með búskapnum, og kona hans Lilja Esther Ragnarsdóttir, úr Árnessýslu, og eiga þau fjögur börn. Þau hættu búskap nú í haust. Um 1995 var bústofninn 225 kindur og 3 hross. Túnið er um 30 ha. Íbúðarhús úr steini var byggt 1937 og stækkað síðar. Þá eru myndarleg fjárhús úr steini rétt við bæinn.

Á Eyrarlandi búa Þorvarður Ingimarsson af Bessastaðaætt og Sólveig Jóna Ólafsdóttir úr Skagafirði. Þau stunda hrossarækt og minkarækt, auk sauðfjárbúskapar.

Á Bessastöðum væri tilvalinn staður fyrir umferðarmiðstöð og ferðaþjónustu, vegna hins mikla straums ferðamanna inn á öræfin, sem náði hámarki síðastliðið sumar, en á líklega eftir að vaxa. Má vel hugsa sér að í framtíðinni muni rísa þorp á Bessastaðagrundum.

Landnámsbær

Engan þarf að undra, að Bessastaðir séu taldir vera bústaður Brynjólfs hins gamla, þó ekki sé þess getið í Landnámu, en samkvæmt henni nam Brynjólfur:

"Fljótsdal allan fyrir ofan Hengifossá fyrir vestan (Lagarfljót), en fyrir ofan Gilsá fyrir austan, Skriðudal allan og svo Völluna út til Evindarár og tók mikið af landnámi Una Garðarssonar og byggði þar frændum sínum og mágum. Hann átti þá tíu börn, en síðan fékk hann Helgu, er átt hafði Herjólfur bróðir hans, og áttu þau þrjú börn. Þeirra son var Özurr, faðir Bersa, föður Hólmsteins..." (Landnámabók).

Brynjólfur var því mikill ættfaðir á þessum slóðum, og kallast sú ætt Fljótsdælir. Fljótsdælir voru friðsemdarmenn og margir spakvitrir. Bersi Özurarson, sonarsonur Brynjólfs, var þeirra frægastur, og við hann er bærinn kenndur. Af honum fara margar sögur. Af Brynjólfi var einnig kominn Kolskeggur fróði, er "sagði fyrir um landnám" í Austfirðingafjórðungi, þegar Landnámabók var rituð.

Kirkju- og þingstaður

Á Bessastöðum reis kirkja, líklega við upphaf kristni. Með vissu er þar kirkja um 1200, og önnur á Valþjófsstað. Um 1300 varð Valþjófsstaðarkirkja aðalkirkjan, þegar þar var settur "staður". Eftir að klausturkirkja var byggð á Skriðu, tók hún við hlutverki Bessastaðakirkju, sem var lögð niður um 1600. Ekki sjást lengur neinar minjar um kirkju eða kirkjugarð á Bessastöðum, en kirkjan hefur eflaust verið heima við bæinn, sem enn er á sama stað.

Löggiltur þingstaður var á Bessastöðum snemma á öldum og fram á 18. öld. Um það vitna örnefnin Þingvöllur og Þingbrekka í túninu innan og neðan við bæinn, og sér þar enn móta fyrir lítilli tótt og garðlagi, rétt neðan vegar. Í skjölum um Sunnevumálin er getið um sérstakt þinghús á Bessastöðum. Hefur það líklega staðið á Þingvelli, en þar var síðar fjárhús nefnt Þingvallahús, er stóð fram á þessa öld. Vigfús Ormsson (Frásagnir um fornaldarleifar I, 35) segir þarna hafa verið ferhyrnt garðlag, um 30-40 faðma á hvern veg, og var kallað Hringur. Héldu menn það vera fornan dómhring, en aðrir töldu það vera "sáðgarð Bessa". (Nú er stykkið utan við Þingvöllinn kallað Hringur). Minjar þingstaðarins eru friðlýstar, en sagt er að vegurinn hafi verið lagður í gegnum Þingvöllinn.

Stutt fyrir innan Hamborg er Gálgaklettur, neðst í hlíðarbrekkunni. Lítil reynihrísla vex út úr klettinum, til vitnis um breytt viðhorf gagnvart afbrotamönnum. Drekkingarhylur er í Bessastaðaá, inn frá Gálgakletti. Bæði örnefnin tengjast þingstaðnum, þó ekki séu neinar heimildir um aftökur þar. (Karlar voru hengdir en konum drekkt).

"Hofgarður" Spak-Bersa

Bersi Özurarson á Bessastöðum kemur víða við fornsögur Fljótsdæla. Hann var spakur að viti og þessvegna auknefndur Spak-Bersi. "Hann var blótmaður mikill og hafði mikinn átrúnað við goðin", segir í Fljótsdælu. Hann var kallaður fóstri Helga Droplaugarsonar, sem dvaldi hjá honum löngum í æsku. Helgi fyrirleit goðatrúna, og varð þeim þetta oft að misklíðarefni. Í síðasta kafla sögunnar (sem nú er varðveitt) segir frá því er þeir Grímur og Helgi Droplaugarsynir villtust í hríðarbyl, og komu loks að "hofgarði" Bersa:

"Þeir sjá sorta einn í hríðinni fyrir sér. Þeir sjá að það var virki eitt mikið og svo hátt, að Helgi getur eigi betur en tekið upp jafnhátt. Þeir gengu umhverfis virkið. Það var kringlótt. Þeir finna að hlið var þar fyrir, grindlæst og búið um vel. Helgi mælti: "Vita muntu hvar við erum komnir." "Nei," sagði Grímur, "heldur fer það fjarri, því að hér hefi eg aldrei komið fyrr, svo að eg muna." "Ekki er mér það," segir Helgi. "Kenni eg víst hvar við erum komnir. Þetta er hofgarður Bersa fóstra míns..." (Ísl. fornrit XI, 294).

Helgi braut upp lásinn á hofgarðinum og síðan hofið sjálft, þrátt fyrir mótmæli Gríms. Í hofinu voru líkneskjur af Þór og Frey, Frigg og Freyju. Helgi ávarpaði goðin heldur kersknislega, en fátt var um svör af þeirra hálfu. Þá tók hann þau af stöllunum, svipti þau klæðum og gripum, og bar allt í eina hrúgu í einu horni hofsins. Vildi Helgi kenna þeim um villu þá er hent hafði þá bræður, en Grímur taldi þetta hið versta verk, þó hann fengi þar engu ráðið. Að svo búnu fóru þeir sína leið, og skildu hofið eftir opið, svo snjó lagði inn í það.

Ekki fer sögum af því hvernig Spak-Bersi tók þessum tiltektum fóstursonar síns, því að niðurlag Fljótsdæla sögu er týnt. Frásögnin ber þess merki, að söguhöfundur sé að skopast að goðatrúnni, og hún er því ekki talin trúverðug sem lýsing á hofi. Þó má skilja af sögunum, að Helgi hafi orðið "ógæfumaður", og þá ekki síst vegna bíræfni sinnar og hvatskeytni. (Af lýsingu sögunnar má helst ráða að hofgarður Bessa hafi verið á nesinu neðan við Bessastaðaármela).

Trúskipti Bessa og Bessahlaup

Þar sem fornsagan endar taka þjóðsögurnar við, og hefur Sigfús Sigfússon ritað langan þátt um Spak-Bersa, sem byggður er á munnmælum, er menn töldu vera ættuð úr hinum týnda hluta Fljótsdælu.

"Bessi var mikill trúmaður og átti hann hof. Mun Brynjólfur afi hans hafa reist það. Er sú sögn manna, að það stæði þar vestanvert við Bessastaðaána, spölkorn frá bænum. Er þar gil að ánni og hljóp hann þar yfir ána milli hamra, sem síðan var kallað Bessahlaup, en það er eigi annarra manna færi." (Þjóðs. Sigfúsar Sigfússonar, 2. útg., VI, 10)

Samkvæmt þessum gömlu munnmælum lifði Bessi fram á þann tíma, er kristniboð hófst í landinu. Þá gerði mikið harðæri, og hét Bessi á goðin til árbóta, en lítið skipaðist við það. Ákvað hann þá að prófa hvort hinn nýi guð kristinna manna væri máttugri, og hét því að trúa á hann, ef hláka yrði komin að morgni daginn eftir. Þegar hann hafði staðfest þetta heit þorði hann ekki að stökkva yfir gilið, en næsta dag var komin asahláka og batnaði tíðarfar upp frá því.

"Þegar Bessi þóttist sjá hve miklum mun goðin væru ómáttugri en hinn nýi guð, þá er mælt að hann segði: "Aldrei skal ég á goðin trúa framar." Síðan tók hann þau og bar í ána. Flutti hún þau út í Lagarfljót, og komu þeir hernaðarguðinn Þór og ársældargoðið Freyr sinn upp á hvort nes, sem síðan eru við þá kennd. Heitir þar Þórsnes austan Lagarfljóts er Þór kom á land; það er á Völlum út. En Freysnes heitir þar sem Frey rak, gagnvart, norðan Lagarfljóts, í Fellasveit." (Þjóðsögur Sigfúsar, 2. útg., VI, 10-11).

Bessahlaup hefur líklega verið neðst í gilinu, en þar eru nú um 15-20 m milli kletta. Þar var mjó hengibrú á fyrri áratugum aldarinnar, fyrir gangandi fólk að fara yfir ána, og sér ennþá merki brúarsporðanna.

Bessagötur eru nefndar í Hrafnkels sögu, og sagðar liggja frá Bessastöðum vestur yfir Fljótsdalsheiði. Bessabrunnar koma fyrir í Fjótsdæla sögu, og má skilja að þeir hafi verið nálægt "hofgarðinum". Stórt, ferhyrnt gerði heima við bæinn töldu sumir vera "sáðgarð Bessa".

Bessahaugur (og Bessasteinn)

Sagt er að Bessi héldi vel trú sína, en vildi þó láta heygja sig að fornum sið.

"Því er svo sagt, að þegar hann þóttist skammt mundi lifa þaðan frá, þá tók hann stein einn hnöttóttan, og renndi honum eftir vellinum, og bað heygja sig þar sem hann stansaði. Steinninn rann ofan sléttan völlinn og stansaði á árbakkanum. Skömmu síðar lést Spak-Bessi og var þar heygður, er steinninn hafði staðnæmst. Er haugur þessi hár og toppmyndaður." (Þjóðs. Sigf. VI, 11).

Steinninn er kallaður Bessasteinn. Hann er nú á Skriðuklaustri og var notaður þar sem aflraunasteinn (Sjá Skriðuklaustur). Ýmsar heimildir eru um Bessahaug og greina flestar frá því, að reynt hafi verið að brjóta upp hauginn, en ekki tekist vegna óvæntra atburða er hentu grafarmennina. Í eitt skipti fylltist holan jafnóðum af vatni, í annað sinn af mold, og grafarmaður fékk augnaverk. Jafnan bar Bessa í drauma þeirra er grófu, og skildist þeim að honum væri lítið um það gefið að haugnum væri raskað.

Nú er haugurinn ekki toppmyndaður, heldur eins og skeifa í laginu, eða tóttarbrot, og virðist miðhlutinn með toppnum hafa verið grafinn burtu. Hann er vaxinn háu grasi, en á einum stað sér í mold, og kemur þar fram beinarusl. Sagt er að þar hafi fundist hrossbein. Bessahaugur er friðlýstur.

Í þjóðtrúnni er Bessahaugur tengdur tveimur öðrum fornhaugum á Héraði, þ. e. Ormarshaugi í Fellum og Rauðshaugi á Völlum. Áttu þeir Bessi, Ormar og Rauður að hafa verið fóstbræður, og lést Rauður síðast. Lét hann þá heygja sig þar sem sæist til hauga vina sinna beggja, enda er Rauðshaugur uppi á Hálsinum fyrir ofan Höfða og sést þaðan vítt um Hérað.

Hamborg

Hamborg heitir gömul hjáleiga Bessastaða, skammt fyrir innan bæinn. Hún var komin í jarða tölu, en hefur verið í eyði síðustu áratugina.

Um aldamótin var þar Hóseas Jónsson vinnumaður, sem var organisti við Valþjófsstaðakirkju og frumkvöðull að sönglífi í Fljótsdal.

Halldór Stefánsson (1877-1971) síðar alþingismaður bjó um tíma (1909-21) í Hamborg, en hann átti dóttur Halldórs á Klaustri fyrir konu. Halldór var alinn upp í Geitagerði, og taldi sig jafnan Fljótsdæling. Á efri árum gerðist hann mikilvirkur fræðimaður og ritaði mikið um sögu Austurlands. Einnig stofnaði hann og stóð fyrir útgáfu á ritsafninu "Austurlandi" 1947-1958, og ritaði æviminningar sínar (Ævislóð og mannaminni. Rv. 1971) þar sem sagt er frá ýmsu úr Fljótsdal.

Bæjarnafnið Hamborg getur verið skylt hamur og hamar, og sagnorðinu að hama (sig), eða standa í höm (um hesta). Í grannmálum getur ham merkt hrútur, sauður, læri eða rass, og jafnvel þorp (í ensku). Kannske er borgarnafnið Hamborg (Hamburg) af sama uppruna. Þess er og að geta, að einn eða fleiri umboðsmenn Skriðuklausturjarða á 17. öld voru af þýskum uppruna, og líklega tengdir Hansakaupmönnum. Gátu þeir gert sér til gamans að nefna kotið þessu nafni. Í gömlum manntölum er stundum ritað "Handborg", og í sóknalýsingu (1841) segir að það hafi verið ritað "Hauðurborg" til forna, og vitnað í Kirkjusögu Finns Jónssonar. (Hauðna eða haðna er = geit eða kið). (Sbr. einnig Hantó á Skriðuklaustri).

Fljótsdalsrétt

Hamborg, tilheyrir nokkur spilda sunnan Bessastaðaár, þar sem heita Bessastaðaármelar. Melarnir eru forn framburðareyri Bessu út í Lagarfljót (sbr. Valþjófsstaðamela). Á melunum stendur Fljótsdalsrétt (oftast kölluð Melarétt heima fyrir) stór og mikil fjárrétt, hlaðin úr hnullungagrjóti, og mun lengi hafa verið ein stærsta skilarétt í landinu. Hún var byggð kringum árið 1905, eftir teikningu og í umsjá Halldórs Benediktssonar á Klaustri. Útveggir eru mjög þykkir með miklum fláa að utan, og hefur þurft firn af grjóti til að hlaða þá, en grjótið var tekið í farvegi Bessastaðaár. Hingað var allt fé af hinum víðlendu afréttum vestan Jökulsár rekið til réttar í kringum 20. september, og skipti það mörgum þúsundum þegar flest var.

Réttardagurinn í Fljótsdal var einn mesti hátíðisdagur sveitarinnar, og þangað fóru allir sem vettlingi gátu valdið. Einnig sóttu menn þangað úr öðrum sveitum á Héraði og jafnvel neðan af Fjörðum, og var því oft mikið fjölmenni saman komið á réttardaginn. Kvenfélagið hafði kaffisölu í litlum skúr við réttina, sem stundum var kallaður Pilsvangur, brennivínsflöskur gengu á milli, og þegar líða tók á daginn voru flestir karlmenn orðnir hreifir og upphófu söng í smáhópum kringum réttina. Líklega var réttardagurinn þó mesta hátíðin fyrir börnin, og þar gerðust ýmsir örlagaríkir atburðir, eins og sá sem Rögnvaldur Erlingsson segir hér frá:

"Þegar ég kom svo á réttina um morguninn settist ég á réttarvegginn og virti fyrir mér féð. Og ég tók strax eftir stelpu á svipuðu reki og ég sjálfur, með mikið ljóst hár, bundið í tagl aftan á hnakkanum, montin og kát að sjá. Hún þykist vera að draga lömbin, en er þó alltaf öðru hverju að gefa mér gætur, glettin á svipinn. Grunar víst að ég sé hálf smeikur við féð. Og allt í einu stendur hún svo við réttarvegginn hjá mér og segir, án þess að heilsa fyrst. "Ertu hræddur við féð veslingur?" (Réttardagsmorgunn í Fljótsdal. Austri 24. 9. 1987).

Síðdegis streymdu svo fjárrekstrar í allar áttir frá réttinni, og þeir sem lengst áttu að reka komu ekki heim fyrr en í myrkri. Nú er þetta breytt því fénu hefur fækkað til muna, og er flutt burtu á bílum eða vögnum. Réttun er vanalega lokið um hádegi, þegar flestir gestir koma. Í haust var tekin upp sú nýbreytni að byrja réttun um hádegi.

Góður áningarstaður er á melunum við Fljótsdalsrétt. Þaðan er hið fegursta útsýni um alla sveitina, og stutt að ganga í Bessastaðaárgilið.

Bessastaðaárgil

Fyrir utan Melana fellur Bessastaðaá (Bessa í daglegu tali) í fossum fram úr miklu gili, Bessastaðaárgili, sem er eitt helsta náttúruundur Fljótsdals. Áin var fyrrum kennd við gilið og nefnd Gilsá (sbr. Gilsárvötn á Heiðinni), en í Fljótsdælu er gilið kallað Öræfagil. Raunar líkist það meira þröngum afdal en gili, enda er það allt að 200 m djúpt á kafla í Heiðarbrún, og um km breitt, með vel grónum brekkum og hvömmum, einkum að utanverðu, og kallast þar Litlihagi og Stórihagi. Að innanverðu er allt að 100 m hátt standberg á einum stað. Jónsfoss er hæsti fossinn, um 20-30 m, nálægt miðju gilinu, en neðar eru Litlifoss og Tófufoss. Mikil og litskrúðug setlög eru í gilinu frá tertíertíma, og surtarbrandsvottur með fornum gróðurleifum eins og í Hengifossárgili.

Jónas Hallgrímsson skáld fór eitt sinn að leita kola í Bessastaðaárgili, en fann ekkert nema bikstein, og sagðist hafa lent í lífshættu við að klifra þar (Ferðadagbók).

Í neðsta hvamminum að utanverðu eru gamlar stekkjartættur og nátthagi umluktur grjótgarði. Þar er fagurt og skjólsælt, og því finnst mörgum líklegt að þar hafi staðið hof Bessa, en munnmælin segja það hafa verið í litlum hvammi innan við ána, þar sem enn heitir Goðaborg, og sést þar tóttarvottur. Sá staður er beint upp af Melarétt, á merkjum Klausturs og Hamborgar, og lætur lítið yfir sér. Skammt fyrir neðan er Bessahlaup fyrr nefnt og göngubrú, nýlega rifin.

Vorið 1981 fannst hauskúpa af manni og síðan fleiri bein í grjóturð innanvert í gilinu, fyrir neðan Litlafoss (?). Voru getgátur um að það væru bein Sunnevu (sjá Skriðuklaustur / Tíminn 16. júní 1981), en líklegra er að þau séu í sambandi við þingstaðinn á Bessastöðum.

Þægilegast er að ganga upp gilið eða meðfram því að utanverðu, og einnig má skoða það úr bíl af Snæfellsvegi, sem liggur í krókum upp með því að utan, og kemur á einum stað alveg fram að gilbarminum.

Á heiðarbrún fyrir utan gilið, og Snæfellsveg er klettur, sem kallast Ingiríður. Þar eru einkennilegar tættur, sagðar vera af seli, sem fróðlegt er að skoða. Um það var eitt sinn kveðinn gamanbragur og er þar í þessi vísa:

Þegar ég fer Hamborg hjá,

heimsins sést þar prýði.

Selið ber við himin há,

hæst á Ingiríði.

Sumir segja að kletturinn sé kenndur við selráðskonu sem hét Ingiríður, en líklega er nafnið eldra en selið.

Leikskálar og Skálavað

Hamborgarnes kallast sléttan niður frá bænum Hamborg. Þar eru dálítil tóttarbrot, niður við Jökulsá, sem kallast Skálatættur, og menn halda að séu af leikskálum fornmanna, þar sem þeir höfðu knattleiki á ísum. Hugsanlega var það hér, sem Brynjólfur landnámsmaður reisti sinn fyrsta skála í Fljótsdal. Á þessum slóðum var Skálavað kallað á Jökulsá, og getur þess m.a. í Hrafnkels sögu. (Í Hrafnkels sögu er einnig getið um bæjarnafnið Leikskála í Hrafnkelsdal eða á Efra-Dal). (Þjóðs. Sigf. Sigf. VI, 8). Sigurður Gunnarsson (1886) segir 13 götur liggja frá vaðinu.

EFTIR HELGA HALLGRÍMSSON

Höfundurinn er náttúrufræðingur og býr á Egilsstöðum.