[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í GÆR tilkynntu stjórnarmeðlimir Íslensku kvikmynda- og sjónvarpsakademíunnar hverjir væru tilnefndir til Edduverðlaunanna sem eru veitt í fyrsta skipti í ár.

Í GÆR tilkynntu stjórnarmeðlimir Íslensku kvikmynda- og sjónvarpsakademíunnar hverjir væru tilnefndir til Edduverðlaunanna sem eru veitt í fyrsta skipti í ár.

Stjórnarformaðurinn, Jón Þór Hannesson, sagðist vona að afhending verðlaunanna yrðu fastur liður í íslensku menningarlífi þegar fram í sækti.

Skáldskaparmál nútímans

Þorfinnur Ómarsson, ritari akademíunnar, kynnti verðlaunagripinn Edduna sem allir sigurvegarar koma til með að hljóta. Þorfinnur sagði að ólíkt Óskarsverðlaununum ætti Eddan sér fyrirmynd, en listamaðurinn Magnús Tómasson sækir hugmynd sína í skáldskaparmál Snorra-Eddu, þar sem segir frá hvernig Óðinn komst yfir skáldskaparmjöðinn. En Þorfinnur sagði verðlaunin einmitt veitt fyrir nútíma skáldskaparmál sem kvikmyndirnar séu. Við afhjúpun vaktigripurinn mikla hrifningu viðstaddra fyrir fegurð og á hann að virka sem hvatning fyrir kvikmyndagerðarmenn að gera vel.

Styttan er 40 cm há, steypt í brons og sýnir Gunnlöðu reyna að vernda mjöðinn frá Óðni sem er í ormslíki.

Niðurstöður valnefndar

Í valnefnd ÍKSA í ár sitja Ragnar Arnalds, rithöfundur og fyrrverandi ráðherra, Hulda Hákon myndlistarmaður, Kristín Jóhannesdóttir kvikmyndaleikstjóri, Jónas Knútsson kvikmyndafræðingur, Svanhildur Konráðsdóttir blaðamaður, Mikael Torfason rithöfundur og Edda Þórarinsdóttir, leikkona og formaður Félags íslenskra leikara, en hún tilkynnti niðurstöður valnefndarinnar.

Sem besta bíómynd ársins eru tilnefndar til Edduverðlaunanna Dansinn ; sem Ágúst Guðmundsson framleiddi, leikstýrði og samdi handritið að ásamt Kristínu Atladóttur, Úngfrúin góða og húsið ; framleidd af Halldóri Þorgeirssyni, Snorra Þórissyni, Eric Crone og Crister Nilson, sem Guðný Halldórsdóttur leikstýrði og skrifaði handritið að, og Sporlaust ; framleiðandi er Jóna Finnsdóttir, leikstjóri Hilmar Oddsson og handritshöfundur Sveinbjörn I. Baldvinsson.

Sem leikstjóri ársins eru tilnefnd; Ágúst Guðmundsson fyrir kvikmyndina Dansinn, Guðný Halldórsdóttir fyrir kvikmyndina Úngfrúna og Viðar Víkingsson fyir heimildarmyndina SÍS, ris, veldi og fall.

Til leikaraverðlaunanna eru tilnefndir Hjalti Rögnvaldsson fyrir sjónvarpsmyndina Heimsókn, Ingvar E. Sigurðsson fyrir stuttmyndina Slurpinn & Co. og Dofri Hermannsson fyrir kvikmyndina Dansinn. Leikkonurnar eru Nanna Kristín Magnúsdóttir tilnefnd fyrir hlutverk sitt í Sporlaust, María Ellingsen fyrir sjónvarpsmyndina Dómsdag og Tinna Gunnlaugsdóttir fyrir hlutverk Þuríðar í Úngfrúnni góðu og húsinu.

Sem heimildarmynd ársins eru tilnefndar Corpus Camera ; framleidd af Böðvari Bjarka Péturssyni, stjórnað af Sigurjóni Baldri Hafsteinssyni og Hrafnhildi Gunnarsdóttur, SÍS ris, veldi og fall ; framleidd af Jóni Þór Hannessyni, í stjórn Viðars Víkingssonar, og Sönn íslensk sakamál sem Viðar Garðarsson og Björn Brynjúlfur Björnsson framleiddu, Björn Brynjúlfur stjórnaði upptökum eftir handriti Sigursteins Mássonar.

Sem besti sjónvarpsþátturinn voru tilnefndir; Stutt í spunann , dagskrárgerð annaðist Jón Egill Bergþórsson og umsjón höfðu Eva María Jónsdóttir og Hjálmar Hjálmarsson, Þetta helst dagskrárgerð Kolbrúnar Jarlsdóttur í umsjón Hildar Helgu Sigurðardóttr og Stundin okkar dagskrárgerð Kristínar Ernu Arnardóttur sem Ásta Hrafnhildur Garðarsdóttir hefur umsjón með.

Besta leikna sjónvarpsefnið var Slurpinn & Co . sem Katrín Ólafsdóttir skrifaði, leikstýrði og framleiddi ásamt Reyni Lyngdal, Heimsókn í leikstjórn Ásgríms Sverrissonar, sem Björn Emilsson á RÚV framleiddi, en Friðrik Erlingsson skrifaði handritið að, og Fóstbræður; framleiðandi og leikstjóri er Óskar Jónasson fyrir Stöð 2, en handritið skrifa Helga Braga Jónsdóttir, Jón Gnarr, Sigurjón Kjartansson og Þorsteinn Guðmundsson.

Þrenn fagverðlaun verða veitt, en þau hljóta Ragna Fossberg fyrir förðun í Dómsdegi og Úngfrúnni góðu og húsinu, Hilmar Örn Hilmarsson fyrir tónlistina í Úngfrúnni og Þórunn Marí a Jónsdóttir fyrir búninga í Dansinum.

Sem framlag til Óskarsverðlaunanna koma til greina Óeðli eftir Hauk Margeir Hrafnsson og Úngfrúin góða og húsið.

Hátíð 15. nóvember

Ein heiðursverðlaun ÍKSA verða veitt ár hvert, en hver þau hlýtur kemur í ljós á hátíðinni sjálfri þar sem öll verðlaunin verða afhent í Borgarleikhúsinu mánudaginn 15. nóvember nk. og sýnd verður í opinni dagskrá á Stöð 2, strax á eftir 19:20.

Fagmenn í kvikmyndagerð kjósa laugardaginn 13. nóvember í húsakynnum Kvikmyndasjóðs Íslands. Almenningi gefst einnig tækifæri til að kjósa á

Netinu á mbl.is, frá og með sunnudeginum 7. nóvember og til kl. 19 laugardaginn 13. nóvember.