Að haustnóttum einn ég að heiman geng því harms míns og gleði bíður hið myrka fljót, sem við flúð og streng svo fallþungum niði líður. Það kom hingað forðum á móti mér hvern morgun í sóldýrð vafið.

Að haustnóttum einn ég að heiman geng

því harms míns og gleði bíður

hið myrka fljót, sem við flúð og streng

svo fallþungum niði líður.

Það kom hingað forðum á móti mér

hvern morgun í sóldýrð vafið.

Í kvöld á það sefandi söng, sem ber

minn síðasta vordag í hafið.

Já, hér fann ég aldir og örlög hjá

í elfunnar niði streyma,

og hljóðum mér dvaldist við hylji þá,

sem himin og stjörnur geyma.

Þar hvarf mér sú veröld, sem vökunnar beið.

Þar varð mér hver ævinnar dagur

að heilögum söng, er um hjartað leið

svo harmdjúpur, sár og fagur.

Þá settust þeir töfrar í sál minni að,

sem síðan ég mátti ekki verjast.

Og því lét mig ósnortinn æðimargt það,

sem öðrum varð hvöt til að berjast.

- Ég veld þeirri sök því ég veit hver hún er,

sú veröld, sem fékk mín ei notið.

En hér fann ég ungur í hjarta mér

þann himin, sem ég gat lotið.

Og geiglausum huga ég held til móts

við haustið, sem allra bíður.

Og sefandi harmljóð hins helga fljóts

úr húminu til mín líður.

Eins veit ég og finn að það fylgir mér

um firð hinna bláu vega,

er hníg eitt síðkvöld að hjarta þér,

ó, haustfagra ættjörð míns trega.

(Fljótið helga, 1950.)

Oft hefur Tómas Guðmundsson verið kallaður Reykjavíkurskáld, skáld þversagna og skáld hinnar góðlátlegu kímni. En slíkar nafngiftir eru ekki annað en alhæfing til einföldunar - og gera í raun alltof lítið úr fjölbreytileika ljóða hans. Vissulega var hann þess konar skáld - en einnig öðruvísi skáld. Í bókinni Fljótið helga (1950) hljómar oft alvarlegri og dýpri tónn en í fyrri bókum hans, og þar er aftast þetta ljóð sem er samnefnt bókinni.

Tómas fæddist að Efri-Brú í Grímsnesi, rétt hjá Úlfljótsvatni og Soginu, við hinn mikla vatnaveg frá Þingvallavatni að Ölfusá. Þetta streymandi fljót hefur hann haft fyrir augum frá fyrstu tíð og það hefur fylgt honum síðan, eins og greinilega kemur fram í ljóðinu. Bernskustaðir eiga oft ótrúlega sterk ítök í mönnum, ekki síst ef þeir búa yfir mikilli náttúrufegurð eða sterkum landslagssérkennum. Við könnumst flest við erindi úr Númarímum Sigurðar Breiðfjörð:

Móðurjörð, hvar maður fæðist,

mun hún eigi flestum kær,

þar sem ljósið lífi glæðist

og lítil sköpun þroska nær?

Og síðan er oft eins og dularfullir þræðir liggi til baka til upprunans og verði æ áleitnari þegar líður á ævina, líkt og líf mannsins sveigist eða hverfist í eins konar hring. Eða eins og Snorri Hjartarson orðaði það: "Hver vegur að heiman/er vegur heim" (Ferð).

Fljótið er mælanda ljóðsins heilagt. Það er í senn hið sístreymandi fljót í ytri skilningi - sem kom á móti honum í æsku "í sóldýrð vafið" og jafnframt er það í táknrænum skilningi hinn eilífi lífsflaumur - hið myrka fljót sem bíður harms hans og gleði. Í það mun hann hverfa að lokum á því hausti "sem allra bíður".

Þannig byggist þetta ljóð annars vegar á tákni: hinu streymandi vatni sem er tákn lífsins - og hins vegar á þeirri notkun frumminnis (Archetypus) er lýtur að árstíðum sem endurspeglun mannsævinnar. Fljótið heillar hann í æsku. Sem lífsflaumur geymir það "aldir og örlög" - felur í sér samhengi kynslóða og hlutskipti þjóðar. Í djúpi vatnsins speglast bæði himinn og stjörnur - sjálfur alheimurinn birtist í þeirri dularfullu skuggsjá sem geymir í senn andartak hvers dags ævinnar og eilífðargildi þess himins er hann "gat lotið". Fljótið heillar mælandann í tvöföldum skilningi og færir hann ofar amstri hversdagsins "sem öðrum varð hvöt til að berjast". Sá skilningur gerir honum kleift að ganga "geiglausum huga" til móts við endalokin við "sefandi harmljóð hins helga fljóts". Hann veit að fljótið í hinum tvöfalda skilningi mun fylgja honum að eilífu um leið og hann hverfur inn í lífsflaum kynslóðanna.

NJÖRÐUR P. NJARÐVÍK