VERÐBRÉFAFYRIRTÆKIÐ Kaupthing Luxembourg S.A. hefur sótt um leyfi til yfirvalda bankamála í Lúxemborg til að stunda alhliða bankastarfsemi.

VERÐBRÉFAFYRIRTÆKIÐ Kaupthing Luxembourg S.A. hefur sótt um leyfi til yfirvalda bankamála í Lúxemborg til að stunda alhliða bankastarfsemi. Forráðamenn Kaupþings ráðgera að bankinn hefji starfsemi í byrjun árs 2000 að fengnum tilskildum leyfum, að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá Kaupþingi hf.

"Hugsun okkar er sú að þróa erlenda starfsemi Kaupþings áfram," segir Sigurður Einarsson, forstjóri Kaupþings, í samtali við Morgunblaðið. Hann segir að Kaupþing hafi starfrækt verðbréfasjóð í Lúxemborg frá árinu 1996 og svo verðbréfafyrirtækið Kaupthing Luxembourg S.A. í hálft annað ár.

"Það hefur sýnt sig að Kaupþingi hefur tekist ágætlega upp í því umhverfi sem er að finna í Evrópu. Við teljum því nú vera tímabært að þróa fyrirtækið frekar og fá réttindi sem banki sem geti þar með þjónað núverandi viðskiptavinum enn betur en áður. Og jafnframt sótt á í samkeppni við önnur evrópsk fjármálafyrirtæki," segir Sigurður.

"Áhersla okkar er sú að ef ætlunin er að stækka og þróast er nauðsynlegt að horfa lengra en til markaðarins hér heima," segir hann.

Aðspurður segir Sigurður að nýi bankinn verði fjárfestingarbanki og muni starfsemi verðbréfafyrirtækisins Kaupthing Luxembourg renna inn í hann. Þau verkefni sem bankinn taki að sér verði því þau sem fjárfestingarbankar sinni, t.d. útgáfa skuldabréfa og milliganga um fjármögnun verkefna.

Aðspurður um væntanlegan viðskiptavinahóp nýja bankans segir Sigurður: "Markmiðið er að tekjur af þjónustu við íslenska aðila, fyrirtæki sem tengjast Íslandi eða við Íslendinga búsetta erlendis, en þeir eru reyndar um 16.000 manns, verði ekki meiri en helmingur af rekstrartekjum bankans. Við erum einfaldlega að keppa á hinu evrópska efnahagssvæði."

Magnús Guðmundsson og Johnie Brögger bankastjórar

Í fréttatilkynningunni kemur fram að eitt skilyrði þess að bankinn fái starfsleyfi er að tveir bankastjórar verði við bankann. Þessir tveir bankastjórar hins nýja banka verða Magnús Guðmundsson, núverandi framkvæmdastjóri Kaupthing Luxembourg S.A., og Daninn Johnie Brögger.

Johnie Brögger er kunnur íslensku viðskiptalífi, en hann hefur um fjögurra ára skeið verið aðstoðarbankastjóri Nordvestbank A/S í Danmörku. Áður starfaði hann í átta ár hjá Union Bank of Norway International S.A. í Lúxemborg, UBN, þar af fjögur ár sem aðstoðarbankastjóri. Í tilkynningunni segir að UBN hafi verið umsvifamikill í lánveitingum til íslenskra aðila og hið sama gildi um Nordvestbank á síðustu árum.

Fjórtán starfsmenn munu starfa við Kaupthing Bank í fyrstunni. Sigurður Einarsson segir að þar af verði fimm Íslendingar. "Þarna verða einnig einn Svíi, einn Norðmaður, einn Dani, Belgi, Ítali og innfæddir Lúxemborgarar," segir Sigurður.

Hann segir að stefnt sé að því að fjölga starfsfólki á næstunni. "Við erum að leita að fólki frá t.d. Norðurlöndum sem þekkir finnska markaðinn, norska markaðinn, danska markaðinn og svo framvegis," segir Sigurður. Hann segir jafnframt aðspurður að bankinn verði á sama stað og Kaupthing Luxembourg S.A. en húsnæðið verði þrefaldað úr um 240 fermetrum í um 700 fermetra.

Í fréttatilkynningunni segir að eigið fé bankans verði 250 milljónir lúxemborgískra franka, sem jafngildir um 500 milljónum króna. Bankinn verður að öllu leyti í eigu Kaupþings hf. og segir í tilkynningunni að hann verði fyrsti bankinn í eigu Íslendinga á erlendri grund.