Í fáeinum orðum langar okkur systurnar að minnast ástkærs afa okkar. Afi var einstakur að öllu leyti, glaðvær og hjartahlýr. Ekki var hægt að hugsa sér betri afa.

Konni afi var á 95. aldursári og skilaði ævistarfi sínu með sóma. Hann kvaddi sína heittelskuðu eiginkonu, Pöllu-ömmu, fyrir 11 mánuðum og hefur nú fundið hana og Gumma son þeirra fyrir handan.

Afi og amma voru kærleiksrík hjón. Í gegnum lífið studdu þau hvort annað og styrktust við hverja raun. Það var yndislegt að horfa á þau saman og sjá hversu hamingjusöm og samheldin þau voru. Afi þurfti ekki annað en að segja "Palla mín..." þá vissi hún hvað hann vildi. Þeim varð fimm barna auðið og niðjar þeirra eru nú hátt á þriðja tug.

Við eigum okkar björtustu bernskuminningar frá heimsóknum okkar til ykkar Pöllu-ömmu á Sigló. Ávallt tóku þið á móti okkur opnum örmum. Við minnumst ótakmarkaðrar þolinmæði þinnar og glaðværðar.

Eftirminnilegt er hversu stoltur þú kynntir litlu stúlkunum þínum úr Reykjavík þitt ævistarf. Við eigum margar góðar minningar um veiðiferðir með afa á trillunni hans. Hann fór með okkur út á sjó, ýmist til að vitja um net, leggja þau eða að renna fyrir fisk. Hann kenndi okkur að trúa á okkur sjálfar. Við gætum þetta! Oft gengu tvær stoltar stúlkur við hönd afa heim á Hafnargötuna með afla veiðiferðarinnar.

Elsku Magga, aðrir ættingjar og vinir, við biðjum Guð að styðja okkur í að varðveita minninguna um afa og ömmu. Góða ferð, elsku afi. Guð blessi þig, Konni afi.

Sonja og Erla Konný