Það var gott að fá að vera svona mikið með þér síðasta mánuðinn sem þú lifðir. En vissulega var það erfitt líka. Þó við höfum leyft okkur að vera bjartsýnir í upphafi eftir að þú komst á hjartadeildina, að allt mundi ganga vel, þá skynjuðum við báðir undir það síðasta að stundin nálgaðist. Á endanum kom svo að því að meira var ekki hægt að gera og þú kvaddir þennan heim.

Og þó svo að við sem erum þér nákomin séum hrygg nú þá getum við huggað okkur við þá einu minningu sem við eigum um þig; minningu um einstakan og góðan afa, afa eins og ég ætla að verða þegar barnabörnin mín koma í heiminn.

Tíminn flýgur áfram og hann teymir mig á eftir sér og ekki fæ ég miklu ráðið um það hvert hann fer en ég vona bara að hann hugsi svolítið hlýlega til mín og leiði mig á endanum aftur til þín.

Óskar Ragnarsson