Mig langar hér að minnast míns kæra tengdaföður, Njáls Andersen, sem lést hinn 27. október sl. og verður jarðsunginn frá Landakirkju í Vestmannaeyjum í dag.

Kynni okkar Njáls hófust sumarið 1970 þegar við Jóhanna dóttir hans kynntumst og ákváðum að ganga saman gegn um lífið. Ég fann fljótlega að Njáll var sérstakur maður, hann var traustur og öruggur í því sem hann gerði, úrræðagóður þegar á þurfti að halda og alltaf afar hjálpsamur. Við urðum strax góðir vinir og sú vinátta efldist þegar árin liðu og hefur alla tíð reynst mér afar dýrmæt. Það var svo margt í fari og hegðun Njáls sem gott var að taka sér til fyrirmyndar. Hann var ákveðinn en um leið sanngjarn, mildur, ljúfur og hafði því mikið aðdráttarafl og góð áhrif á alla þá sem umgengust hann. Njáll var mikill fjölskyldumaður. Hjá þeim samrýmdu hjónum Dóru og Njáli á Hásteinsvegi 29 var oft fullt hús barna og barnabarna og alltaf var allur hópurinn jafn velkominn. Öll fjölskylduboðin, þar sem brugðið var á leik, hlegið og þess notið að vera saman, eru ógleymanleg og ég veit að Njáll og Dóra nutu vel þeirra samverustunda. Þeim leið vel með sínu fólki og þeirra fólki leið afar vel hjá þeim. Heimili þeirra hjóna var því góður og ómetanlegur griðastaður þar sem gleði og bjartsýni ríktu og vináttuböndin treystust.

Garðurinn á Hásteinsvegi 29 var vettvangur margra ánægjustunda. Njáll hafði yndi af því að rækta þann garð á sama hátt og hann ræktaði fjölskyldu sína og hvort tveggja gerði hann með sinni miklu smekkvísi og alúð. Í garðinn sunnan við hús var alltaf gaman að koma og dást að allri snyrtimennskunni og reglunni á öllu þar. Marga góða sumardaga var unun að sitja í garðinum, spjalla um blómin og trén sem voru sérstakt áhugamál Njáls en einnig hafði hann ákaflega gaman af að rifja upp gamla tíð og segja sögur frá sínum æskuárum í Vestmannaeyjum. Oftast voru þessar sögur með léttu yfirbragði um hann og aðra fjöruga stráka sem ólust upp á fyrstu áratugum aldarinnar. En Njáll bjó einnig yfir miklum fróðleik um fjölmargt sem hér var að gerast á þessum tíma bæði úr atvinnu- og félagslífi. Þar var hann virkur þátttakandi og vann verk sín af mikilli alúð og samviskusemi. Fyrir það ávann hann sér því virðingu meðal samborgara sinna sem treystu honum vel til góðra verka.

Mörg sumur ferðuðumst við Jóhanna og börn okkar með þeim Njáli og Dóru vítt um landið. Þessar ferðir eru ógleymanlegar. Stundum var gist í tjöldum en stundum í sumarhúsum. Á daginn voru landið og náttúra þess skoðuð og á kvöldin var sest við spil og oft spjallað á léttum nótum langt fram á nótt. Við nutum þess öll að vera saman og á þessum ferðalögum var Njáll gjarna hrókur alls fagnaðar. Hann var óþreytandi og naut þess að leika sér við börnin sem fundu kannski best á þessum stundum hve góðan afa þau áttu. Hjá honum fundu þau öryggi, hlýju og góða fyrirmynd.

Nú er Njáll látinn og hans er sárt saknað. Hann mun hins vegar ávallt lifa í minningu okkar sem þekktum hann, virtum og dáðum. Minning hans mun tengja fjölskyldu hans traustari vináttuböndum og sú fyrirmynd sem hann skapaði verður afkomendum hans dýrmætt veganesti.

Ég votta elskulegri tengdamóður minni og fjölskyldu þeirra hjóna mína dýpstu samúð við lát góðs eiginmanns, föður, afa og langafa.

Blessuð sé minning Njáls Andersen.

Ragnar Óskarsson