Hann Geiri í Neslöndum var alveg sérstakur maður. Hann var svo einlæglega góðhjartaður. Við kynntumst honum þegar við unnum uppi á hól í Mývatnssveitinni, í eldhúsbíl á tjaldstæðinu í Reykjahlíð. Hann bauð okkur velkomin í sveitina með sínum þægilegu heimsóknum, hann þáði kaffi og spjallaði og hló auðveldlega. Það var svo gaman þegar hann birtist, alltaf með dulúðlegt bros á vörum sem sagði manni aldrei hvað var í vændum en alltaf var það eitthvað fyndið eða skemmtilegt. Við nánari kynni sáum við hvílíkt eðalmenni Geiri var, því ekki einasta var hann fróður um allt sem gerðist í sveitinni, þekkti hvern stokk og stein, heldur var hann líka mjög fús til að miðla aðkomufólki af þekkingu sinni.

Við vorum svo heppin að njóta sérstakrar leiðsagnar Geira um fáfarnar náttúruperlur Mývatnssveitar, sem enn eiga eftir að vera uppgötvaðar af hinum almenna ferðamanni. Hann sýndi okkur stórmerkilegan íshelli og yndislega gjá sem hægt var að baða sig í á laun. Hann þekkti sveitina sína vel og rataði um óbyggðirnar eins og af eðlishvöt. Hann var barn náttúrunnar, lifði í náttúrunni og virti hana. Mývatn var vatnið hans og fuglarnir sem þar bjuggu voru sérstakt áhugaefni. Inni í litlum skúr á Ytri-Neslöndum leyndist risastórt safn af fuglum, sem Geiri hafði safnað, merkt og komið fyrir á haganlegan hátt. Hann þekkti allar tegundirnar með nafni og gat gert þeim góð skil á staðnum. Hann dreymdi um að gera stórt safn með líkani af Mývatni þar sem fuglunum yrði komið fyrir í sínu rétta umhverfi. Kannski sá draumur verði einhvern tímann að veruleika.

Til marks um fuglakunnáttu hans og áhuga á fuglum rifjast upp eitt lygnt og fallegt kvöld í Mývatnssveitinni eins og þau gerast best. Við lögðum leið okkar í Höfða, settumst þar niður og nutum þess að horfa út á spegilslétt vatnið og á fuglana sem þar syntu. Allt í einu sá Geiri himbrima og fór að kallast á við hann og gerði það í drykklanga stund. Skemmtilegra sjónarspil höfðum við sjaldan orðið vitni að og munum ávallt geyma með okkur.

Geiri var ekki bara vitur og góðhjartaður heldur var hann líka alltaf til í að skemmta sér. Þegar eitthvað stóð til, böll voru í Ýdölum eða partí í nágrenninu var hann mættur á Econoline-bílnum sínum og keyrði alla skemmtanaglaða þangað sem ferðinni var heitið. Geiri var alltaf manna skemmtilegastur og alltaf með bros á vör. Hann hafði í sér sérstakan hæfileika til að hjálpa fólki, án þess að manni fyndist hann vera að fórna sér. Hann hafði hreinlega gaman af að vera öðrum innan handar. Þennan eiginleika mátum við mikils.

Vegna alls þessa syrgjum við Sigurgeir sárt. Við hugsum um örlög hans með trega í hjarta og tár á vanga. Minningin um þennan góða og skemmtilega mann er gull sem við geymum innst í hjarta.

Við biðjum almættið að hugga fjölskyldu hans og vini alla.

Kristín Björk, Ragna Sara, Eva María, Maggí og Stefanía