Hann féll í valinn óvænt - maður að vestan í fullu fjöri. Þessi mikilfenglegi eldhugi og hugsjónamaður, sem hafði frá unga aldri aldrei hvikað frá settu marki og barizt við sinnuleysi - skilningsleysi samferðamanna sinna í leit að andlegum auðæfum íslenzkrar þjóðar aftanúr fyrndinni og fram til okkar daga - hann er nú allur og að honum slík eftirsjá, að torvelt sýnist að bæta missinn.

Egill Ólafsson, löngum kenndur við lénið Hnjót í Örlygshöfn í V-Barðastrandarsýslu, var sérstakur maður - karakter á heimsmælikvarða, en rammíslenzkur í orðsins fyllstu merkingu. Hann drýgði dáðir með minja- og flugminjasafni sínu, bjargaði menningarlegum, félagslegum og háandlegum verðmætum þjóðar okkar í örugga höfn og skapaði þeim varanlega tilvist. Heiður sé hinum gengna um ár og síð.

Eftir tveggja daga náið samband við Egil heima hjá honum nú nýverið og báða dagana könnun á safni hans, sem er bæði kraftaverk í listrænum stíl og ólýsanlegt menningarlegt ævintýri, er sál skoðandans svipað og skírð í hugsjónaeldi og sígildri fegurð. Það minnir einna helzt á hafið, sem er eins og eilífðin. Hugsjónir Egils hafa rætzt og orðið eilífar.

Egill Ólafsson var lifandi maður og návist við hann var örvandi. Eins og góð bók, lífsbók, sem gefur manni trú.

Það er illt að hafa misst hann úr þessu lífi - hann virtist eiga svo margt eftir ósagt. Hann var einn þessara manna, sem höfðu til að bera andlegt hugrekki, sleitulausan kjark til að sjá heiminn og lífið í nýju og nýju ljósi eins og skapandi listamaður og stór hugsuður. Hann virtist ráða yfir aðgangi að guðdómnum á óskýranlegan hátt þarna í glæsifögru umhverfi á Hnjóti á Rauðasandinum, sem býr yfir snertikrafti og töfrum. Safnið hans góða gæti á vissan hátt staðizt samjöfnuð við British Museum eða eitthvað ámóta úti í hinum stóra heimi.

Það er drottinleg skylda menntunarlega leitandi Íslendinga, ungra sem aldinna, að kynnast þessari stórfenglegu orkustöð.

Minja- og flugminjasafn Egils á Hnjóti sem tilheyrir höfuðstaðnum fyrir vestan, Patreksfirði alias Örlygshöfn - Vesturbyggð. Þarna er vin og meira en það. Þarna er sönnun þess, að Íslendingar unnu, sköpuðu sér í aldanna rás tilverurétt með þjóðháttum sínum og lífsbaráttu til sjós og lands meira en orð fái lýst.

Egill á Hnjóti sannaði, að erfiðustu hlutina í lífinu gerir maðurinn einn og yfirgefinn með víkingslund.

Guð blessi minningu Egils Ólafssonar á Hnjóti, guð blessi hans eiginkonu, börn hans og fjölskyldu.

Steingrímur St.Th.Sigurðsson