Frænda minn Egil Ólafsson á Hnjóti hefði með sanni mátt kalla safnvörðinn á heimsenda. Með ótrúlegri elju og útsjónarsemi tókst honum að reisa eitt vandaðasta byggðasafn þjóðarinnar á einum afskekktasta og strjálbýlasta stað landsins. Með tilkomu þess margfaldaðist fjöldi ferðamanna sem leið sína lögðu um Örlygshöfnina, þrátt fyrir erfiðar samgöngur, og þeirra á meðal voru fornbílamenn. Á liðnum árum hefur Fornbílaklúbburinn í tvígang farið með hóp roskinna bíla í ferðalag um Vestfirði, sem að sjálfsögðu hefur lagt leið sína til Egils á Hnjóti og notið þar frábærrar leiðsagnar um forna búskaparhætti og tækniþróun tuttugustu aldarinnar. Einn fárra áhugamanna um fornminjar hafði Egill einnig dálæti á tæknilegum minjum og lét sér fátt óviðkomandi í þeim efnum. Á síðasta ári lagði ég á mig langt ferðalag til að koma forláta flugvélatúrbínu í hendur Egils og flugminjasafns hans. Dvaldi ég fjóra daga í frábæru yfirlæti Egils og fjölskyldu, kynnti mér minjasafnið vel og framtíðaráform hans varðandi uppbyggingu og rekstur flugminjasafnsins. Mun sú reynsla nýtast mér vel nú þegar Fornbílaklúbburinn hyggur á byggingu bílasafns í Reykjavík. Því miður entist Agli ekki aldur til að sjá flugminjasafn sitt fullmótað, né bílasafn okkar í Reykjavík, en það er eindregin ósk mín og annarra fornbílamanna að byggða- og flugminjasafn Egils Ólafssonar á Hnjóti megi vaxa og dafna um ókomin ár, sem eilífur minnisvarði um einn mesta brautryðjanda og hugsjónamann í varðveislu íslenskrar verkmenningar.

Örn Sigurðsson formaður