Fyrir tveimur árum þegar ég fór að vinnna fyrir Tálknafjarðarhrepp var eitt af mínum fyrstu embættisverkum að heimsækja Minjasafn Egils Ólafssonar á Hnjóti. Það reyndist vera hið skemmtilegasta verk, þar sem safnið var miklu stærra og glæsilegra en mig hafði órað fyrir. En kannski var það jafnvel skemmtilegra að hitta Egil og Ragnheiði konu hans og fá þar höfðinglegar móttökur.

Egill hafði gefið sveitarfélögunum í Vestur-Barðastrandarsýslu Minjasafnið. Eru fá byggðarlög á Íslandi sem eiga slíka gersemi. Á engan er hallað þegar ég segi að hann hafi gert meira til þess að varðveita sögu og minjar sýslunnar en nokkur annar.

Egill var stórhuga maður og sást það ekki bara á safninu heldur einnig á öllu sem hann tók sér fyrir hendur. Menn er þekktu hann sögðu mér að hann næði alltaf því marki sem hann setti sér, og efaðist ég aldrei um það eftir viðkynni okkar. Minjasafnið er ekki bara safn áhugaverðra og einstakra muna, heldur einnig minnismerki um merkilegan mann sem náði marki sínu.

Ég ætla fyrir hönd Tálknafjarðarhrepps að bera fram samúðarkveðjur til Ragnheiðar og fjölskyldunnar.

Björn Óli Hauksson, sveitarstjóri Tálknafjarðarhrepps