Þær sorgarfréttir bárust okkur í síðustu viku að hann vinur okkar Egill á Hnjóti væri látinn. Við höfðum ekki þekkt Egil lengi en mátum það mikils að hafa fengið að kynnast honum. Hann var höfðingi heim að sækja og þar átti ekkjan hans, Ragnheiður, stóran þátt. Egill tilheyrði þeirri kynslóð manna sem voru brautryðjendur í íslenskum safnamálum og beinlínis björguðu verðmætum frá glötun. Slíkir menn voru og eru safnarar af lífi og sál eins og sést best á Minjasafninu á Hnjóti. Egill var gæddur þeim fágæta eiginleika að drífa fólk með sér og vekja hjá því áhuga á því sem hann var að fást við. Nú mun minjasafnið hans standa sem minnisvarði um elju og dugnað þessa merka manns. Að standa á Hnjóti og horfa yfir söfnin hans vekur með manni undrun og aðdáun á því hvað hægt er að gera þegar viljinn er fyrir hendi. Auðvitað gerði hann þetta ekki alveg einn, hann naut trausts stuðnings fjölskyldu sinnar og vina.

Við gleymum því seint þegar við komum að Hnjóti fyrsta sinni. Okkur var tekið með kostum og kynjum, og að góðum og gömlum sið vorum við spurðir hverra manna við værum. Það kom strax í ljós að hann vissi meira um ættir okkar en við sjálfir og fann m.a. út að amma annars okkar væri Barðstrendingur, sem honum þótti góðar fréttir. Undanfarin ár ferðuðumst við um Vestfirði að skoða fornleifar og annað skemmtilegt. Fórum við víða og sáum margt. Þekking Egils var með eindæmum og dýrmætt fyrir okkur unglingana að fá að njóta nærveru hans og reynslu. Þessum ferðum ætluðum við að halda áfram um alla eilífð, en án Egils er ljóminn farinn af slíkum ferðum.

Okkar síðustu samvistir með Agli voru á Farskóla íslenskra safnmanna þar sem hann lék á als oddi. Þar brölluðum við margt og hlógum að skoplegum hliðum mannlífsins. Þannig viljum við minnast Egils, eldhugans sem gat líka séð skoplegu hliðarnar á lífinu.

Við færum ekkju hans, börnum og vinum okkar innilegustu samúðaróskir og kveðjum hann með þessum ljóðlínum, sem leiknar voru við minningarathöfn hans.

Magnús S. Sigurðsson, Bjarni F. Einarsson