Kær vinur og samstarfsmaður er látinn.

Margs er að minnast þegar litið er yfir farinn veg samstarfs okkar Egils. Að leiðarlokum er okkur hjónum og starfsfólki Landgræðslunnar efst í huga söknuður og þakklæti fyrir áratuga vináttu og heilladrjúgt samstarf. Egill var um langt árabil, eða á fjórða tug ára, landgræðsluvörður í Vestur-Barðastrandarsýslu. Gegndi hann því starfi af einstakri elju og dugnaði enda unni hann náttúru landsins og gæðum þess. Hann sá árangur erfiðis síns í stöðvun sandfoks við Sauðlauksdal og Patreksfjarðarflugvöll. Egill naut þess að beisla sandinn og sjá hann gróa og lagði á sig erfiði og ómælda vinnu þrátt fyrir oft á tíðum lítinn skilning margra héraðsbúa á þörfinni fyrir verndun viðkvæms gróðurlendis. Það hefur löngum verið gæfa Landgræðslunnar að hafa í þjónustu sinni ósérplægna og trúa starfsmenn. Þar hefur verið að verki sú framvarðarsveit sem ótrauð axlaði erfiði og lagði grundvöll að betra og fegurra Íslandi. Í þessum hópi var Egill meðal hinna fremstu. Hann var sannur landgræðslumaður.

Hann átti viðburðaríka ævi, lifði og tók ötullega þátt í einu mesta breytingaskeiði þessa lands og var frumkvöðull í ræktun og búskap auk fjölda annarra framfaraspora þjóðfélagsins sem hér verða ekki rakin. Egill var vinsæll og vinmargur og þekktur um allt land sökum einstakrar elju við björgun menningarverðmæta. Þau hjónin voru höfðingjar heim að sækja og það er mikil birta í mínum huga þegar ég minnist hans og samstarfsins. Það var ógleymanlegt að fara um sandgræðslusvæðin fyrst 1959, aftur 1970 og síðan nær árlega og kynnast Agli og viðhorfum hans. Því miður dró úr þessari starfsemi á sviði sandgræðslu í umdæmi Egils nú á allra síðustu árum og þar með ferðum okkar vestur. Þar voru utanaðkomandi öfl að verki sem við Egill réðum ekki við. Áhugi hans og eldmóður í ræktun sandsins dvínaði samt aldrei þó að á móti blési um stund.

Við Oddný vottum Rögnu og börnum þeirra innilega samúð okkar. Megum við öll taka höndum saman og halda áfram að vinna að uppgræðslu lands með minninguna um Egil að leiðarljósi.

Oddný og Sveinn í Gunnarsholti