Mig langar til að rita hér nokkur kveðjuorð um látinn vin minn Egil Ólafsson, bónda og safnvörð á Hnjóti í Örlyshöfn.

Kynni okkar Egils eru orðin löng og hafa verið farsæl alla tíð enda sameiginleg áhugamál efst á baugi þegar fundum okkar bar saman.

Fyrst kom ég að Hnjóti 1963 með Lúðvík Kristjánssyni rithöfundi þegar við vorum að vinna að gerð hins mikla ritverks "Íslenzkir sjávarhættir". Sá fróðleikur og frásagnarlist sem Egill og faðir hans Ólafur miðluðu okkur var ómetanlegur. Minni Egils var einstakt, og það sem hann mundi um þá fágætu hluti sem eru í safni hans var með ólíkindum.

Allar þær ferðir sem við Egill fórum um nærliggjandi svæði voru ævintýri líkastar því hann þekkti sögu og mannlíf á hverri þúfu. Hinn eldheiti áhugi hans á að safna og halda til haga gömlum munum sem hendur horfinna kynslóða höfðu handfjatlað, var einstakur og ómetanlegur fyrir þjóðina. Hann var einn af þeim mönnum sem lét engar hindranir, eins og öfund og fordóma, standa í vegi fyrir sér, þegar hagsmunir safnsins voru annars vegar. Safnið á Hnjóti er í dag orðið eitt af merkustu söfnum landsins og þótt víðar væri leitað. Þarna er að finna hluti sem hvergi eru til annars staðar. Það var ekki alltaf dans á rósum að útvega fjármagn til nauðsynlegra framkvæmda, og skilningur ráðamanna oft lítill eða enginn. En Egill var þakklátur fyrir það sem hann fékk, og gat þá séð árangur erfiðis síns.

Þeir sem hafa áhuga á menningararfi okkar og lífi horfinna kynslóða, eiga oft undir högg að sækja, vegna skilningsleysis þeirra sem ráða fjármagninu.

Með fráfalli Egils Ólafssonar er horfinn einn af merkustu mönnum okkar á þessari öld og er það einlæg von mín að þjóðin beri gæfu til að sjá um að minjasafn hans verði komandi kynslóðum til góðs og varðveiti minningu mikils manns.

Að lokum færi ég og kona mín, ástvinum Egils okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Bjarni Jónsson listmálari