Látinn er vinur okkar Kjartan Ögmundsson frá Kaldárhöfða en við þann bæ var hann jafnan kenndur þrátt fyrir að hann hafi búið á Selfossi síðari hluta ævi sinnar. Upp í hugann kemur fjöldi minninga um stundir sem við höfum átt saman, en allar eru þær á einn veg, góðar og skemmtilegar, því þannig var maðurinn.

Ein fyrsta minningin er frá árinu 1945. Það er jarðýta að koma eftir veginum, hún er húslaus og tannarlaus. Við unga fólkið á Búrfelli hlaupum niður fyrir túngarðinn til þess að sjá þetta stórmerkilega tæki, aldrei höfðum við séð annað eins. Ný jarðýta, TD9, eign Búnaðarfélags Grímsneshrepps er komin. Ýtustjórinn, Kjartan Ögmundsson, slekkur á vélinni og heilsar glaðlega, faðir minn, Páll, sem var formaður félagsins hefur bæst í hópinn, hann spyr: "Hvað varstu lengi frá Selfossi og hvar er ýtutönnin?" Kjartan svarar: "Um fimm tíma, ég komst ekki yfir Sogsbrúna svo ég varð að taka ýtutönnina af, það er vörubíll að koma með hana." Svo birtist bíllinn með ýtutönnina og hún sett á ýtuna og strax byrjað á næsta barði að jafna það niður. Jarðýtan lét strax vel að stjórn í höndum Kjartans og við horfðum hugfangin á. Bylting í túnrækt og vegaframkvæmdum í Grímsnesi var hafin og það var mikið unnið næstu árin. Tveim árum síðar fær stjórn Búnaðarfélagsins að gera tillögu um að úthluta þrem Willys-jeppum í sveitina. Fimmtán bændur sóttu um að fá jeppa, en stjórnin var sammála um að ýtustjórinn, Kjartan Ögmundsson fengi fyrsta bílinn og var það X-232 og hefur hann haldið númerinu æ síðan. Á þessum árum kom jarðýtan á flesta bæi vor og haust og sá sem þessar línur ritar færði ýtustjóranum mat og kaffi og fékk svo að sitja í ýtunni smástund og jafnvel setja í gang, hjálpa til við að smyrja eða bjóðast til að sækja jeppann svo hann væri nær ýtunni, þar sem hún var að vinna. Öllu þessu tók Kjartan með ljúfmennsku og góðlátlegri glettni, já, bændur í Grímsnesi voru ekki í vafa um að Kjartan væri besti ýtustjóri á landinu.

Kjartan stofnaði heimili á Selfossi með konu sinni Ingu Bjarnadóttur og starfaði sem mjólkurbílstjóri hjá Mjólkurbúi Flóamanna, hann var traustur og vinsæll starfsmaður.

Kjartan og Inga höfðu ánægju af jeppaferðum um óbyggðir Íslands og fóru slíkar ferðir árlega um miðjan ágúst, ferðir þessar skipulögðu Kjartan og Böðvar Stefánsson að vetrinum. Það var farið inn á Kjöl, í Landmannalaugar, hringferð um Skjaldbreið, Fjallabaksleið syðri og svo mætti lengi telja, en erfiðasta og óvenjulegasta ferðin er án efa ferð sem var farin árið 1960 þar sem þrem jeppum var fleytt á tunnum yfir Tungnaá hjá Haldi og Kjartan skrifaði svo ágætlega um í jólablað Þjóðólfs enda var Kjartan ágætlega ritfær og sagði vel frá. Í þessum ferðum var ávallt nokkuð um Grímsnesinga og nutum við hjónin margra slíkra ferða sem geymast í minningunni. Fyrir nokkrum árum fórum við hópferð um línuveginn norðan Skjaldbreiðs með góðu fólki. Þegar kom austur í Mosaskarð festum við rútubílinn í aurbleytu sem við áttum ekki von á. Ekki var hægt að snúa við, en nú kom sér vel að Kjartan var með í för, því hann kunni vel til verka um það hvernig ná skyldi bílnum upp með því að púkka grjóti undir hann og losa hann úr festunni, þarna var hann í essinu sínu. Já, við eigum margar góðar minningar frá þessum sumarferðum, þótt margt sé ótalið því áhugamál Kjartans voru mörg, svo sem veiðiskapur, myndatökur og lestur góðra bóka, en nú á skilnaðarstund erum við þakklát fyrir að hafa átt Kjartan að traustum og góðum vini allt frá barnæsku.

Við sendum eiginkonu, syni og fjölskyldu innilegar samúðarkveðjur.

Lísa og Böðvar, Búrfelli