Efra-Sandgerði við Kettlingatjörn.
Efra-Sandgerði við Kettlingatjörn.
Þegar komið er til Sandgerðis eftir veginum norðan frá Garðskaga vekur einstakt hús athygli á útmörkum bæjarins. Sandgerðingar búa í einbýlishúsum og þau eru yfirleitt steinsteypt og bera öll merki þessarar aldar og nútímans.

Þegar komið er til Sandgerðis eftir veginum norðan frá Garðskaga vekur einstakt hús athygli á útmörkum bæjarins. Sandgerðingar búa í einbýlishúsum og þau eru yfirleitt steinsteypt og bera öll merki þessarar aldar og nútímans. En þetta bárujárnsklædda og blámálaða hús, sem heitir Efra-Sandgerði, vísar aftur til 19. aldar, en ber jafnframt með sér að einhver annast um það af kostgæfni. Það kemur raunar í ljós þegar að er gáð, að Efra-Sandgerði er elzta húsið í Sandgerði og að það á sér 116 ára sögu. Sú saga hófst með skipsstrandi sem varð happafengur fyrir húsakost í næsta nágrenni líkt og skipsstrandið nokkru síðar austur í Selvogi sem varð til þess að Árnesingar fengu ódýran húsavið.

Það var árið 1881 að kaupfarið James Town rak mannlaust að landi við Þórshöfn, skammt sunnan við Stafnes. Ekki hef ég rekizt á heimildir um hvað varð af skipshöfninni; hvort henni var bjargað í annað skip, eða hvort allir fórust. En svo mikið er víst að skipið var hlaðið húsaviði. Segja heimildir að þar hafi verið um 100 þúsund plankar og áttu menn erfitt verk fyrir höndum að koma farminum í land. En allt þetta timbur var vitaskuld eins og hver önnur himnasending, því mikill skortur var á timbri. Á næstu mánuðum risu mörg myndarleg timburhús á Suðurnesjum og Efra-Sandgerði var eitt þeirra.

Húsbyggjandinn þar var Sveinbjörn Þórðarson útvegsbóndi í Sandgerði, fæddur 1817 á Járngerðarstöðum í Grindavík, þá talinn annar auðugasti maður á Suðurnesjum á eftir Katli Ketilssyni í Kotvogi í Höfnum. Hann gerði út marga báta og átti auk þeirra nokkur þilskip. Litlar heimildir er að hafa um byggingu Efra-Sandgerðis en séra Sigurður B. Sívertsen segir í Suðurnesjaannál sínum að mörg hús hafi verið í smíðum haustið 1883, "þeirra mest Sandgerði hjá Sveinbirni bónda".

Sími var fyst lagður suður til Sandgerðis 1915 og þá í húsið Efra-Sandgerði, sem um tíma varð símstöð í plássinu. Enda þótt grunnflötur hússins sé aðeins um 60 fermetrar var oft þétt setinn bekkurinn í húsinu, en það var þó fremur regla en undantekning á fyrstu áratugum aldarinnar. Fyrir utan heimilisfólk fengu sjómenn á vertíðum að búa í húsinu og þar að auki voru þar 3-4 vinnukonur sem bjuggu í "stúlknaherberginu".

Tvær stofur voru á jarðhæð, "Hornstofan" og "Laufeyjarstofa". Í suðurenda var stúlknaherbergið en þrjú herbergi á loftinu. Kolaofn var í stofunni og engin önnur upphitun, en í einangrun hafði verið notaður mór og ýmis skonar dót; þar á meðal fannst skinnskór. Oft var kalt í Efra-Sandgerði; einnig það var regla fremur en undantekning í húsum af þessu tagi. Í viðbyggingu að norðan var upphaflega hlóðaeldhús og barst þaðan reykur upp á loftið; var stundum talað um "svartaloft" og "svartagang". Spölkorn sunnan við húsið voru hlaða, hesthús og 8-9 kúa fjós, en mólk var seld til bátanna í Sandgerði.

Svo fór að Efra-Sandgerði þótti ekki íbúðarhæft og lengi stóð húsið mannlaust og vildu sumir rífa það eða brenna. Af því varð þó ekki og svo fór fyrir 20 árum að Lyonsklúbburinn í Sandgerði eignaðist húsið og þar er nú félagsheimili klúbbsins. Á síðustu tveimur áratugunum hefur verið unnið að endurgerð Efra-Sandgerðis og er nú aðeins lítilháttar verk eftir á loftinu. Allir gluggar hafa verið endursmíðaðir í upprunalegri gerð, nema hvað þeir eru tvöfaldir og komin er hitaveita í stað kolaofnsins og veggir einangraðir á nútímavísu. Upprunalega var standandi timburklæðning utan á húsinu úr 2,5x7 tommu borðum, en með tilkomu bárujárns fyrir aldamótin var húsið járnklætt og er það enn.

Fyrir Lyonsklúbbinn og Sandgerðinga alla er sómi að Efra-Sandgerði, húsinu sem speglast í góðu veðri í Kettlingatjörn og er ólíkt öllum öðrum húsum í bænum.