7. desember 1999 | Neytendur | 426 orð | 2 myndir

Dýrustu kaffivélarnar hella ekki alltaf upp á besta kaffið

Gott kaffi úr ódýrum kaffivélum

[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
VERÐ og gæði fara ekki alltaf saman þegar um kaffivélar er að ræða samkvæmt nýrri könnun dönsku neytendasamtakanna sem birt var í neytendablaðinu Råd og Resultater á dögunum.
VERÐ og gæði fara ekki alltaf saman þegar um kaffivélar er að ræða samkvæmt nýrri könnun dönsku neytendasamtakanna sem birt var í neytendablaðinu Råd og Resultater á dögunum.

Könnunin náði til 28 kaffivéla og niðurstöðurnar sýndu að dýrustu vélarnar fengu margar einungis miðlungsgóða einkunn og ódýrari vélar reyndust jafnvel betur.

Til þess að kaffisopinn verði sem bestur skiptir miklu máli að hitastig vatnsins sé rétt þegar það rennur í gegn um kaffið. Ákjósanlegt hitastig er 92-96 gráður og uppfylltu einungis tvær vélar í könnuninni þau skilyrði, Melitta Aroma Excellent, sem einnig reyndist besta vélin í könnuninni, og Philips Café Gourmet.

Aðrar vélar reyndust annaðhvort hita vatnið of lítið eða of mikið og hefur það töluverða þýðingu fyrir bragðgæði kaffisins, segir í blaðinu. Ef vatnið er of kalt nýtast bragðefnin í kaffibaununum ekki að fullu og ef það er of heitt sleppa úr baununum bitur bragðefni sem gera kaffið beiskt.

Þegar kaffi er hellt beint í bollann lækkar hitastig þess um u.þ.b. 10 gráður en nokkrum gráðum meira ef hellt er á hitabrúsa. Í niðurstöðum könnunarinnar segir jafnframt að kaffi sé drykkjarhæft við u.þ.b. 60 gráður. Hitastig uppáhellts kaffis í vélunum var á bilinu 71-86 gráður og því mátti í mörgum tilfellum ekki líða langur tími frá því að kaffið var komið í bollann og þangað til það var orðið of kalt.

Einnig var athugað hve kaffið hélst lengi heitt á hellunni og var það látið standa í hálfa klukkustund. Í flestum tilfellum féll hitastigið um nokkrar gráður. Þó er tekið fram að til þess að spara orkunotkun, sé ráðlegra að geyma kaffið á hitabrúsa ef ekki á að drekka það strax. Morgunblaðið hringdi í fjórar raftækjaverslanir á höfuðborgarsvæðinu og kannaði lauslega hvaða kaffivélar, af þeim sem könnunin náði til, væru þar á boðstólum. Verðið sem gefið er upp í töflunni er lægsta verð ef um mismunandi verð var að ræða eftir verslunum.

Philips Café Gourmet var á rétt innan við 10.000 kr. en hún er önnur þeirra véla sem hitar vatnið upp að réttu hitastigi áður en það rennur yfir malaðar baunirnar og fékk hún almennt góða einkunn.

Moulinex Cocoon þótti góður kostur samkvæmt könnuninni. Hún var fáanleg á 2.695 kr. Aðrar vélar sem fengust voru Braun Aromaselect á 4.695 kr., sem jafnframt fékk almennt góða einkunn.

Philips Café Délice á 4.995 kr. þótti sömuleiðis góð og Philips Café Gaia á 2.995 í meðallagi góð til góð. Krups Aroma-Café Time á 2.995 kr. þótti hinsvegar í meðallagi og Rowenta Café Magic á 2.990 kr. reyndist sæmileg.

Taflan sem fylgir hér með sýnir nokkuð nákvæmlega hvernig einstakir þættir ofantalinna véla komu út í könnuninni.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.