VÍKVERJI sá fyrir stuttu mynd Hrafns Gunnlaugssonar, Myrkrahöfðingjann. Greinilegt er að gerð myndarinnar hefur ekki verið auðveld, en flestar útisenur er teknar að vetrarlagi, oft í vondum veðrum.

VÍKVERJI sá fyrir stuttu mynd Hrafns Gunnlaugssonar, Myrkrahöfðingjann. Greinilegt er að gerð myndarinnar hefur ekki verið auðveld, en flestar útisenur er teknar að vetrarlagi, oft í vondum veðrum. Hrafni hefur tekist að skapa góða heildarmynd á verk sitt, auk þess sem honum hefur tekist að skapa áhugaverða sögu.

Það er svo annað mál hversu sögulega rétt Hrafn fer með Píslarsögu síra Jóns Magnússonar. Njörður P. Njarðvík, prófessor og rithöfundur, skrifaði grein í Morgunblaðið fyrir skömmu þar sem hann gagnrýnir Hrafn harðlega fyrir meðferð á varnarriti sr. Jóns. Hann nefnir í grein sinni að Hrafn fari rangt með nöfn persóna og að ekki sé farið rétt með sagnfræðilegar staðreyndir. Hann bendir m.a. á að Brynjólfur Sveinsson biskup dó á undan síra Jóni, en í kvikmyndinni er þessu öfugt farið.

Hrafn svaraði þessari grein Njarðar og benti á það sem kemur fram í kynningu með myndinni, að hún sé lauslega byggð á Píslarsögu síra Jóns Magnússonar og til að leggja áherslu á þetta hafi t.d. nöfnum feðganna í myndinni, sem voru brenndir á báli fyrir galdra, verið breytt.

VÍKVERJI telur að of mikið sé þrengt að sjálfstæði listamanna til að skapa listaverk ef þeir mega ekki nota fortíðina og verk sem samin voru í fortíðinni sem yrkisefni. Upp í hugann koma sum verka Halldórs Laxness, sem iðulega sótti yrkisefni í gamlar sögur. Eitt frægasta verk hans, Íslandsklukkan, er byggt á sögum af Árna Magnússyni handritasafnara og Jóni Hreggviðssyni, bónda á Rein. Ekki hirti Halldór alltaf um að fara rétt með sögulegar staðreyndir. Árna og Jón nefnir hann sínum réttu nöfnum, en hins vegar kallar hann Þórdísi, húsfreyju í Bræðratungu, Snæfríði. Í sögunni lætur Halldór sem Þórdís og Árni hafi átt í ástarsambandi, en Már Jónsson sagnfræðingur hefur sýnt fram á í nýrri ævisögu um Árna að nær engar líkur eru á að nokkur fótur hafi verið fyrir þessu. Már bendir einnig á að Halldór dragi upp nokkuð grófa og ósanngjarna mynd af hinni dönsku eiginkonu Árna í Íslandsklukkunni. Hann er þó ekki að áfellast Halldór fyrir að gera þetta; aðeins að benda á þessar staðreyndir. Einnig má nefna að Jón Hreggviðsson viðhafði aldrei þau orð um Danakonung sem lögð eru honum í munn í Íslandsklukkunni. Þau viðhafði annar maður og var refsað harðlega fyrir á Alþingi. Fáum dettur í hug að áfellast Halldór Laxness fyrir meðferð hans á sögulegum staðreyndum. Lesendur hans dáðst að Íslandsklukkunni og öðrum bókum hans. Þess má geta að einn helsti handritasérfræðingur okkar, Jón Helgason, var Laxness innan handar þegar hann samdi Íslandsklukkuna og mun raunar hafa bent honum á þetta yrkisefni. Víkverja dettur ekki í hug að líkja Myrkrahöfðingjanum við Íslandsklukkuna, en kvikmyndagerðarmenn verða eins og rithöfundar að hafa ákveðið svigrúm til sköpunar. Þar geta menn hins vegar eins og alls staðar farið út fyrir eðlileg mörk.