SIGURÐUR G. Guðjónsson, hæstaréttarlögmaður og formaður félags um forsetaframboð Ólafs Ragnars Grímssonar, segir að heildarkostnaður við framboð Ólafs Ragnars hafi numið tæpum 42 milljónum króna með vöxtum og öðrum kostnaði.
SIGURÐUR G. Guðjónsson, hæstaréttarlögmaður og formaður félags um forsetaframboð Ólafs Ragnars Grímssonar, segir að heildarkostnaður við framboð Ólafs Ragnars hafi numið tæpum 42 milljónum króna með vöxtum og öðrum kostnaði.

Samkvæmt þessu var framboð Ólafs Ragnars dýrasta framboðið í kosningabaráttunni í forsetakosningunum árið 1996. Fram hefur komið í fjölmiðlum að heildarkostnaður við framboð Ástþórs Magnússonar og átaksins Virkjum Bessastaði hafi numið rétt rúmum fjörutíu milljónum króna. Kostnaður við framboð Péturs Kr. Hafstein hafi numið rúmum 35 milljónum króna og kostnaður við framboð Guðrúnar Agnarsdóttur hafi numið rúmum 17 milljónum króna. "Miðað við það sem allir hinir hafa sagt er framboð Ólafs Ragnars dýrasta framboðið," segir Sigurður aðspurður um þetta en hann bætir því við að hann hafi efasemdir um að kostnaðartölur hinna frambjóðendanna séu réttar vegna þess að þeir hafi auglýst meira en Ólafur Ragnar.

"Ég hef efasemdir um tölur hinna frambjóðendanna vegna þess að framboð Ólafs Ragnars var ekki með auglýsingar á strætisvögnum, ekki með auglýsingar á skiltum hingað og þangað um bæinn og það var auk þess síðasta framboðið til þess að auglýsa í sjónvarpi," segir Sigurður.

Þegar Sigurður er spurður um fjármögnun kosningabaráttu Ólafs Ragnars segir hann að á meðan á kosningabaráttunni hafi staðið hafi hún m.a. verið fjármögnuð með sölu á happdrættismiðum og með sölu á merkjum forsetaframboðsins auk þess sem fé hafi verið safnað frá einstaklingum og fyrirtækjum. Að forsetakosningunum loknum hafi þó komið í ljós að enn þyrfti að safna um 28 milljónum króna til þess að endar næðu saman. "Landsbanki Íslands lánaði framboðinu þá peninga til að gera upp við alla þá sem þurfti að gera upp við með veð í eignum Ólafs Ragnars," segir Sigurður en síðan þá hefur félagið um forsetaframboðið unnið að því að safna peningum til þess að geta greitt niður allar skuldir við bankann, m.a. með sölu merkjanna, bókar um forsetaframboð Ólafs Ragnars og með söfnun fjárframlaga frá einstaklingum og fyrirtækjum. Allar skuldur voru síðan að sögn Sigurðar greiddar niður hinn 30. desember sl. Hann segir að alls hafi um tíu til tólf þúsund manns lagt fé til stuðnings forsetaframboðinu og að sjálfur hafi Ólafur Ragnar lagt um fjórir til fimm milljónir króna í framboðið.

Sigurður hefur að sögn verið þeirrar skoðunar frá forsetakosningunum árið 1996 að fyrirtæki sem styðja forsetaframboð eigi að njóta frádráttar frá skatti á sama hátt og þau fyrirtæki sem styðji stjórnmálaflokka. "Það er eins og það sé ekki gert ráð fyrir því í lögum að menn þurfi að kjósa forseta á Íslandi," segir hann og telur að eigi að viðhalda því að kjósa forseta þurfi ríkið að koma inn í og styðja rekstur forsetaframboða eins og rekstur stjórnmálaflokka.