22. janúar 2000 | Menningarblað/Lesbók | 3839 orð | 3 myndir

HÖFUÐBÓLIN Í FLJÓTSDAL III

VALÞJÓFSSTAÐUR

[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Með hugvitssamlegri röksemdafærslu setur Barði Guðmundsson fram þá skoðun sína, að Randalín Fillipusdóttir, ekkja Odds Þórarinssonar á Valþjófsstað, hafi skorið út Valþjófsstaðahurðina kringum 1250. Þessi tilgáta tengist hugmyndum hans um Þorvarð Þórarinsson, mág Randalínar, sem höfund Njálu.
Kirkjustaðurinn Valþjófsstaður stendur í hlíðarrótum neðan undir Valþjófsstaðafjalli. Bæjarstæðið er einstaklega staðarlegt og tignarlegt. Kirkjan var upphaflega heima við bæinn, en var flutt niður á grundina þegar ný kirkja var byggð 1887-88. Skammt fyrir utan hana var svo byggt prestssetur 1944, og kallast það Valþjófsstaður I. Þar var áður hjáleiga, kölluð Miðbær. Enn utar var hjáleigan Garðar, og loks Gunnhildargerði, þar sem félagsheimilið Végarður er nú. Hjáleigurnar hafa ekki verið byggðar síðan fyrir aldamót.

Framan og neðan við bæinn eru Valþjófsstaðamelar, með upphækkaðri tungu ofantil, er skyggir á útsýni inn til Norðurdals. Melarnir eru í þremur stöllum, u.þ.b. 35, 40 og 50 m yfir sjávarmál. Þeir eru myndaðir af Jökulsá í ísaldarlokin, sem eyrar út í þáverandi Lagarfljót eða "Lagarfjörð". Bæirnir standa á miðstallinum, sem er langstærstur. Þar voru grundir, myndaðar af framburði lækja úr fjallinu, sem nú eru orðnar samfellt tún.

Valþjófsstaður er mikil bújörð og kostarík, vafalaust ein sú besta í landinu. Jörðin er ríkiseign. Síðustu áratugina hefur þar verið tvíbýlt, og þar eru tvö myndarleg íbúðarhús úr steini, ásamt tilheyrandi útihúsum. Auk túna er tilheyra býlunum, er þar sameiginleg nýrækt á vegum hreppsins. Núverandi ábúendur eru Helga Vigfúsdóttir frá Glúmsstöðum og Friðrik Ingólfsson frá Valþjófsstað, sem búa á gamla bæjarstæðinu, er nú kallast Valþjófsstaður II, og Lára G. Oddsdóttir sóknarprestur og Sigmar Ingason, sem búa í Prestshúsinu á Valþjófsstað I.

Fjallið sem leiðir ferðamenn í hlað

Upp af túnsléttunni á Valþjófsstað rís Valþjófsstaðafjall, með sínum reglulegu, láréttu klettabeltum, um 15 talsins. Margir hafa látið þau orð falla, að það sé eitthvert formfegursta fjall á Íslandi. Ármann Halldórsson ritar:

Ofan við grundirnar rís Valþjófsstaðafjallið, allhátt og einkennilega fagurt. Frá jafnsléttu upp á brún skiptast á grasbelti og beinar klettaraðir, en á víð og dreif um allt fjallið koma bjarkirnar út úr klettasprungum og teygja lim sitt upp fyrir brúnirnar. En fari maður meðfram fjallinu í hæfilegri fjarlægð, þá sýnist allt yfirborð þess fara á ið, ýmist ganga með eða móti ferðamanninum, líkt og það vildi leiða hann í hlað eða fylgja úr garði (Snæfell 1981, 17).

Nokkrir smálækir falla þvert niður fjallið. Þeir eru oftast þurrir á sumrum, en í vorleysingum geta þeir orðið býsna glaðhlakkalegir og falla í óteljandi fossum stall af stalli. Þá syngur fjallið og endurómar nið þeirra eins og margradda hljómsveit.

Berggangur mikill, sem kallast Tröllkonustígur eða Skessustígur, sker fjallið frá rótum upp undir brún, og er neðri endinn við samkomuhúsið Végarð. Gangurinn er ekki ósvipaður stíg eða vegi upp fjallið, enda iðulega notaður sem slíkur. Utan við Stíginn er fjallið nefnt Klausturhæð.

Valþjófsstaða- veldi

Valþjófsstaður er mesti sögustaður á Fljótsdalshéraði og jafnvel í öllum Austfirðingafjórðungi. Saga staðarins væri efni í heila bók, og verður því aðeins tæpt hér á fáeinum atriðum. Fyrir 1200 er saga Valþjófsstaðar lítið þekkt, en á 13. öld sátu þar höfðingjar af ætt Svínfellinga, sem þá ríktu yfir öllu Austurlandi og voru Svínafell í Öræfum, Valþjófsstaður og Hof í Vopnafirði helstu aðsetur þeirra.

Þekktastir þessara höfðingja eru Oddur og Þorvarður Þórarinssynir, sem oft eru kallaðir Valþjófsstaðabræður. Þeir koma mikið við sögu Sturlungaaldar. Oddur var veginn um tvítugsaldur norður í Skagafirði, þar sem hann hafði verið settur yfir "ríki" Gissurar jarls. Oddur var í banni Hólabiskups er hann lést, og var því grafinn utan garðs. Kona hans, Randalín Fillipusdóttir, af Oddaverjaætt, háði aldarfjórðungs langa baráttu fyrir því að fá hann leystan úr banni og jarðsettan í vígðri mold.

Þorvarður komst hins vegar til mikilla metorða, og á síðari áratugum 13. aldar var hann mestur höfðingi á Austurlandi. Hann varð síðastur íslenskra valdsmanna til að afsala goðorðstign sinni og ganga Noregskonungi á hönd, árið 1264. Því hefur hann verið nefndur "síðasti goðinn". Eftir það dvaldi hann um tíma í Noregi og er talið að hann hafi aðstoðað Magnús konung við samningu lögbókar er kölluð var Járnsíða. Hann lést árið 1296 nálægt 70 ára að aldri. Um hann ritaði Björn Þórðarson bókina "Síðasti goðinn" (Rvík. 1950).

Séra Ágúst Sigurðsson hefur ritað kirkjusögu Valþjófsstaðar (Forn frægðarsetur 1979). Þar gerir hann því skóna, að Sörli Brodd-Helgason, sem bjó á Valþjófsstað þegar Brennu-Flosi fór í liðsbón sína, hafi reist fyrstu kirkjuna á staðnum skömmu eftir kristnitökuna árið 1000. Hann telur örugga heimild um kirkjubyggingu þar laust fyrir 1200. Það var stafkirkja, hið veglegasta hús, sem stóð í margar aldir, jafnvel allt fram á miðja 18. öld, og var helgað Maríu mey. Má telja víst að fyrir henni hafi verið hin fræga Valþjófsstaðahurð (sjá síðar).

Landeign Valþjófsstaðar

Eins og fyrr getur var aðalkirkja sveitarinnar fyrst á Bessastöðum, en árið 1306 tekur Valþjófsstaðakirkja við því hlutverki, þegar Valþjófsstaður var gerður að "stað". Prestar hafa setið á Valþjófsstað a.m.k. frá því um 1300, og er svo enn. Valþjófsstaðakirkja auðgaðist fljótt af löndum og lausum aurum, og náði smám saman eignarhaldi á öllum afréttum milli Fljótsdals og Jökuldals, þar með töldum Hrafnkelsdal, auk nokkurra jarða í Suðurdal og Norðurdal. Jarðirnar hafa gengið undan kirkjunni, en hún er enn talin eigandi afréttanna.

Samkvæmt gamalli hefð skiptast afréttir Valþjófsstaðar í tvo hluta. Austan Snæfells og fellanna norðan og sunnan þess, er afréttin "Undir Fellum", sem telja má að nái frá Öxará inn að Vatnajökli, og eru austurmörkin við Jökulsá í Fljótsdal. Á því svæði eru Eyjabakkar, sem hafa verið mikið í sviðsljósinu undanfarna mánuði, vegna fyrirhugaðrar virkjunar Jökulsár. Eyjabakkar eru flæðislétta, um 50 km{+2} að flatarmáli, þar sem Jökulsá kvíslast milli vel gróinna bakka, og þykir þar einstaklega fagurt land. Þar er stærsti "fellistaður" heiðagæsa á jörðinni. (Sjá Lesbók Mbl. 24. okt. 1998 og tímaritið Gletting 2-3. tbl., 8. árg., 1998). Undir Fellum eru tveir gangnakofar, Laugakofi og Hálskofi (Sjá Múlaþing 25, 1998 og 26, 1999). Við Laugakofa er baðlaug.

Vestan Snæfells og Snæfellshnjúka eru Vesturöræfi, víðlent og vel gróið afréttarland, með miklu votlendi og ótal tjörnum, og nær að Jökulsá á Dal. Vestasti hlutinn kallast Háls, og er mikilvægt burðarsvæði hreindýra. Á Vesturöræfum eru Sauðárkofi (Sauðakofi), og Snæfellsskáli vestan undir Snæfelli. Vesturöræfi eru í Jökuldalshreppi, en hafa mest verið nýtt af Fljótsdælingum, sem sjá um fjallskil þar. Við Hálsinn er fyrirhugað að gera gríðarmikið uppistöðulón ("Hálslón"), ef til virkjunar kemur í Jökulsá á Dal við Kárahnjúka.

"Dýrt er Drottins orðið"

Í gamalli þjóðsögu greinir frá 18 útileguþjófum, er settust að í helli í Þjófadal sunnan undir Snæfelli. Aðeins fjórir eru nafngreindir, og hét einn þeirra Valþjófur. Létu þeir greipar sópa um sauðfé Fljótsdælinga, og þótti byggðamönnum illt að búa við það hlutskipti. Þá var sá prestur á Valþjófsstað er Svarthöfði hét, og átti son og dóttur frumvaxta. Eitt sinn þegar þessi mál voru rædd á sveitarfundi, kvaðst prestur sjá ráð til að koma þjófunum í hendur byggðamanna og bað þá taka mannalega við, og hétu þeir því.

Skömmu seinna fréttist að prestssonur hefði framið hræðilegan glæp og væri horfinn til fjalla. Fór hann á fund útilegumanna, og tóku þeir við honum eftir miklar fortölur. Var hann þar veturinn eftir og ávann sér traust þeirra. Fór hann þá að ámálga við þá, að fara til byggða og sækja sér konur, því að þeim væri daufleg vistin kvenmannslausir. Samsinntu þeir því, og báðu hann finna ráð til þess. Prestsson kvað vænlegast að ráðast til atlögu á hvítasunnudag, þegar allt fólk væri við messu í Valþjófsstaðakirkju. Var það svo afráðið. Tókst honum að koma boðum til byggðamanna. Á hvítasunnudag fóru allir hinir hraustustu menn til kirkjunnar, og sátu þar í kvenfötum, alvopnaðir innan klæða. Komu þá ræningjar og greiddu atgöngu, en skildu vopn sín eftir úti, því þá grunaði ekki að þar væri nein fyrirstaða. Upphófst þá bardagi og er ekki að orðlengja að byggðamenn höfðu betur og drápu flesta ræningjana þar í kirkjunni, en nokkra eltu þeir til fjalls og unnu á þeim þar, sem ýmis örnefni votta. Valþjófur varðist lengst, með því að hlaupa bita af bita í kirkjunni, og var rómuð hreysti hans, en enginn má við margnum. Er svo að skilja að bærinn hafa síðan dregið nafn af honum.

Útilegumenn þessir voru dysjaðir sunnan garðs á Valþjófsstað, og voru þar sýnd leiði þeirra til skamms tíma, og kölluð Þjófadys eða Þrælaleiði. "Sannaðist á þeim, ef sagan er sönn, að dýrt er Drottins orðið," ritar Gunnar skáld (Árbók FÍ 1944). (Sögnin af Snæfellsþjófunum. Þjóðsögur Sigfúsar Sigfússonar IX, 165-170).

Glæsilega búin fornkona

Um aldamótin 1800 blés upp kuml á Valþjófsstaðamelum, suðaustan við túnið. Séra Vigfús Ormsson kannaði kumlið og lýsti því, og sendi gripina sem þar fundust til Fornleifanefndar Danmerkur. Í kumlinu var mikið af ýmiss konar tölum og þrír skildir úr bronsi, gullroðnir. Kristján Eldjárn segir þessa skildi vera skrautnælur, sem konur báru á viðhafnarklæðum sínum. Þarna hefur því verið jarðsett hefðarkona með sínu besta skarti.

Þessi rannsókn Vigfúsar er með því fyrsta sem gert var í því efni hérlendis. Ýmislegt hefur verið ritað um þennan fornleifafund, og gripirnir eru geymdir í Þjóðminjasafninu í Kaupmannahöfn (Nationalmuseet). (Kristján Eldjárn: Kuml og haugfé o.fl.)

Riddarinn og ljónið (Valþjófsstaðahurðin)

Mesta frægð hefur Valþjófsstaður hlotið fyrir útihurð eina gamla og fagurlega útskorna með myndum, sem kölluð er Valþjófsstaðahurðin. Hún er nú vandlega geymd í Þjóðminjasafninu í Reykjavík, en Halldór Sigurðsson myndskeri á Miðhúsum smíðaði og skar út nákvæma eftirlíkingu hennar, sem gefin var hinni nýju Valþjófsstaðakirkju, þegar hún var vígð árið 1966, og er hún þar fyrir innri dyrum.

Valþjófsstaðahurðin er frægust íslenskra forngripa, ef handritin eru undan skilin, segir Kristján Eldjárn í Afmælisriti Þjóðminjasafnsins 1973. Fjöldi lærðra ritgerða hefur verið saminn um hurðina, og jafnvel heilar bækur. Til þess liggja ýmsar ástæður. Í fyrsta lagi aldurinn, því hurðin er talin vera skorin um eða upp úr aldamótunum 1200, og er því með elstu tréskurðarverkum í Evrópu. Í öðru lagi er myndmál hurðarinnar afar merkilegt. Á henni eru tveir kringlóttir fletir með útskurði. Í þeim efri er eldgömul frönsk riddarasaga færð í myndrænan búning: Riddari leggur flugreka í gegn með sverði sínu og bjargar þannig ljóni sem drekinn hafði hremmt. Eftir það fylgir ljónið lífgjafa sínum til veiða eins og tryggur hundur og sést að lokum deyjandi á gröf hans. Á legsteininn er ritað með rúnum: "Sjá inn ríka konung - hér grafinn - er vá dreka þenna." Á neðri kringlunni eru fjórir sams konar flugdrekar, fléttaðir saman. Bítur hver þeirra í sporð sér, en klærnar tengjast saman í miðju. Þar er líkt og óskapnaðurinn sé bundinn í fjötra. Hin guðlega regla nær yfirhöndinni, enda telja fræðimenn að "hinn ríki konungur" sé enginn annar en frelsarinn Jesús Kristur.

Hurðin er fyrst nefnd í vísitasíu Brynjólfs biskups 1641, og er þá fyrir hinni gömlu og veglegu timburkirkju, sem fyrr var nefnd. Á fyrri hluta 18. aldar var byggð torfkirkja í hennar stað. Þá halda menn að hurðin hafi verið stytt um þriðjung, og einn myndflötur tekinn af henni. Árið 1851 (eða 1852?) var Valþjófsstaðahurðin seld Þjóðminjasafni Danmerkur í Kaupmannahöfn, og fékk kirkjan í staðinn nýja hurð og tvo "álnarstjaka", sem enn prýða altari hennar, en munu ekki vera til margra fiska metnir.

Rauðviðarskálinn

Sú saga gekk í Fljótsdal, að hurðin hefði upphaflega verið fyrir mikilli skálabyggingu, sem í margar aldir stóð á Valþjófsstað, og menn héldu að fornkappinn Þórður hreða hefði smíðað. Þar var hátt til lofts og vítt til veggja, og útidyr svo stórar, að sagt var að Skálholtsbiskup og sveinar hans hefðu riðið þar inn með alvæpni.

Þessi mikla bygging stóð fram á miðja 18. öld, og er til lýsing af henni frá þeim tíma. Skálinn var þá 17 m að lengd, 6 m breiður og 4,6 m hár um mæninn. Honum var skipt með þili í tvo misstóra hluta.

"Allir veggirnir niður að gólfi voru þiljaðir borðum úr eins konar við, sem mikið rak af hér við landið í gamla daga, og nefndist "rauðaviður". Úr þesskonar trjám var yfirbyggingin undir þakinu, sömuleiðis undir þverbitunum, og báðar hurðir á húsinu. En öll undirtré voru úr norsku timbri, sem fyrrum var vant að flytja hingað, höggvið á undan."

Minni hluti skálans var "hafður fyrir drykkjustofu, og voru þar haldin brúðkaup, eða önnur hátíðleg samkvæmi." Þar voru tvö rúm, afþiljuð, er nefnd voru "múkalokrekkjur", með kringlóttum dyrum og útskurður í kringum þær. Í stærri hlutanum voru 12 hvílurúm, 6 hvoru megin, þar af fjórar lokrekkjur, sumar prýddar skurði. "Gluggarnir voru 4 kringlótt op efst á þakinu, eins og sagt er að sé á sumum bóndabæjum í Noregi."

Þegar þessi lýsing var skrifuð, líklega um 1750, hafði veisluskálanum nýlega verið breytt í "vanalega stofu, með glergluggum". Skálinn var líklega rifinn laust fyrir aldamótin 1800. Er líklegt að hann hafi þá verið elsta timburbygging á Íslandi. Í fyrstu útgáfu af Gunnlaugs sögu ormstungu (Hafniæ 1775), er teikning af skála, sem á að vera gerð eftir lýsingu skálans á Valþjófsstað, en ekki ber henni alveg saman við lýsinguna. "Rauðaviðurinn" var líklega lerki.

"Myndskerinn mikli frá Valþjófsstað"

Árið 1939 birti Barði Guðmundsson þjóðskjalavörður grein með þessum titli í Alþýðublaðinu. Með hugvitssamlegri röksemdafærslu setur hann fram þá skoðun sína, að Randalín Fillipusdóttir, ekkja Odds Þórarinssonar, á Valþjófsstað hafi skorið út Valþjófsstaðahurðina kringum 1250. Þessi tilgáta tengist hugmyndum hans um Þorvarð Þórarinsson, mág Randalínar, sem höfund Njálu. Telur hann að Þorvarður hafi notað persónur úr samtímanum í söguna, eins og skáldsagnahöfundar gera nú, og bendir á líkingu Randalínar við Hildigunni Starkaðardóttur í Njálu, en um hana segir sagan: "Hún var svo hög, að fáar konur voru þær er hagari voru." Auk þess telur Barði að Oddaverjar hafi rækt hina evrópsku riddarasöguhefð meira en aðrar íslenskar ættir. Randalín var líka afkomandi Magnúsar konungs berfætts, sem hafði ljón í skjaldarmerki sínu.

Rögnvaldur Erlingsson frá Víðivöllum hefur rökstutt þessa tilgátu Barða enn frekar. Hann bendir á að Randalín hafi gefið Skálholtskirkju mestallar eigur sínar, til að Oddur eiginmaður hennar mætti fá leg í vígðri mold. Í Sögu Árna biskups, frænda hennar, eru þessi ummæli höfð eftir henni: "Enn fremur mun eg, til sálarheilla Oddi, ofra einhverjum grip, herra biskupi og stað til sæmdar." Álítur Rögnvaldur að þessi gripur sé Valþjófsstaðahurðin. (Glettingur 2 (1), 1992.)

Miðstöð fornsagnaritunar á Austurlandi

Eins og fyrr var á minnst komst Barði Guðmundsson að því gegnum miklar pælingar, að Þorvarður Þórarinsson væri höfundur eða a.m.k. "ritstjóri" Njáls sögu. Reit hann um þetta nokkrar greinar í blöð og tímarit, er síðar voru dregnar saman í bókina "Höfundur Njálu", 1958. Síðan hefur Sigurður Sigurmundsson í Hvítárholti undirbyggt þessa kenningu frekar með blaðagreinum og bók sinni: "Sköpun Njálssögu" 1989. Þá hefur Svíinn Lars Lönnroth reifað svipaðar hugmyndir í bók sinni "Njálssaga, critical introduction." (Los Angeles 1976).

Þessir fræðimenn benda á ýmsa þræði sem legið hafi frá sögupersónum Njálu til þeirra Valþjófsstaðabræðra. Þeir voru af ætt Svínfellinga, sem röktu ætt sína til Brennu-Flosa á Svínafelli, og voru auk þess tengdir Oddaverjum, sem frá upphafi höfðu fengist við fræðiritun og bókmenntir. Brandur Jónsson, ábóti í Þykkvabæ og síðar Hólabiskup, var föðurbróðir þeirra, en hann kemur víða við sagnaritun og fræðimennsku, og hefur Hermann Pálsson getið sér þess til, að hann muni hafa samið Hrafnkels sögu. Einnig er athyglisvert, að Þorvarður er einn af örfáum 13. aldar mönnum, sem nefndur er með nafni í einu handriti Njáls sögu.

Í sambandi við tilgátu Hermanns um höfund Hrafnkels sögu, má benda á, að Valþjófsstaðakirkja taldi sig hafa eignarrétt á öllum Hrafnkelsdal og lögðu Valþjófsstaðaklerkar sig fram um það á seinni öldum að tryggja kirkjunni þennan rétt. Má líta svo á, að Hrafnkela sé fyrsta tilraun í þá átt, því að hún tengir höfuðbólið Aðalból við Fljótsdal og Velli, þar sem Hrafnkell og sonarsonur hans Helgi áttu goðorð.

Í niðurlagi Droplaugarsona sögu segir, að hún sé "sögð" af Þorvaldi Ingjaldssyni, er var þriðji ættliður frá einni af aðalpersónum sögunnar, Grími Droplaugarsyni. Hefur hann eflaust átt heima í sömu sveit. "Valþjófsstaðir, hið forna höfðingjasetur, voru helsta menntabólið á þeim slóðum, og eru öðrum fremur líklegir sem ritunarstaður sögunnar," segir Jón Jóhannesson í formála Droplaugarsona sögu í útgáfu Fornritafélagsins.

Bendir því margt til þess, að Valþjófsstaður hafi verið ein helsta miðstöð sagnaritunar á Íslandi, á sama hátt og Oddi á Suðurlandi og Þingeyrar norðanlands, þó að það sé minna þekkt.

Hjörleifur latínuskáld

Ýmsir merkisprestar hafa setið á Valþjófsstað. Hjörleifur Þórðarson (f. 1695) gegndi prestsembætti þar frá 1742 til æviloka 1786. Hann var Skaftfellingur að ætt. Hjörleifur var skáld gott, bæði á latínu og íslensku, og liggja eftir hann mörg kvæði og sálmar á báðum málunum. Merkust er þýðing hans á Passíusálmum Hallgríms Péturssonar á latínu, sem prentuð var í Kaupmannahöfn 1785. Háttalykill á latínu var prentaður 1918. Hann orti einnig rímur. Af honum er komin mikil embættismannaætt á Austurlandi og víðar, m.a. Hjörleifur Guttormsson þingmaður og Kristján Eldjárn, forseti Íslands.

Búnaðarfrömuðurinn

Vigfús Ormsson (1751-1841) var Sunnlendingur. Hann fékk Valþjófsstað 1789 og hélt til 1835, kvæntist Bergljótu Þorsteinsdóttur, dótturdóttur séra Hjörleifs. Bróðir hennar var Jón vefari, en af honum er komin Vefaraætt, sem er mjög fjölmenn á Austurlandi og víðar.

Vigfús var mikill búhöldur og tók upp ýmsar nýjungar í búskap. Þegar hann kom í Fljótsdal voru þar ekki fjárhús, nema lambhúskofar. Var það fyrsta verk hans að láta byggja hús fyrir allt féð. Hann áætlaði hverri skepnu ákveðið fóður, sem þá taldist til nýjunga. Einnig jók hann og bætti nýtingu húsdýraáburðar, og tók m.a. upp þann sið að hýsa (traða) stórgripi og jafnvel sauðfé á sumrum til að auka áburðinn. Hann byrjaði fyrstur að veita vatni á engjar austanlands, með því að grafa skurð úr Jökulsánni yfir á Valþjófsstaðanesið, og um svipað leyti byggði hann fyrstu kornmylluna á Héraði.

"Fór sá orðrómur af honum, sem ei var undarlegt, að hann væri mestur búmaður á öllu Austurlandi," ritar Ágúst Sigurðsson (Múlaþing 9, 1980). Fyrir þessar framkvæmdir fékk hann verðlaunapening frá danska Landbúnaðarfélaginu, sem geymdur er hjá afkomendum hans í Geitagerði.

Vigfús var einnig virkur í félagsmálum sveitarinnar, og stofnaði svonefnt Matsöfnunarfélag árið 1800. Það var eins konar tryggingarfélag, líklega hið fyrsta af því tagi hér á landi, en eftir miðja 19. öld spruttu slík félög upp víðar í sveitum. Tilgangur þess var að safna mat, svo sem korni, smjöri o.fl., í eins konar forðabúr, er síðan mætti nota til að lána úr í harðærum eða sérstökum áföllum. Til eru samþykktir félagsins í 19 liðum. (Múlaþing 12, 1982.) Börn fátæklinga tók hann oft og hafði sem matvinnunga.

Séra Vigfús varð snemma sjóndapur og blindur síðustu árin. Eftir að hann hætti prestsskap bjó hann þó rausnarbúi á Arnheiðarstöðum í nokkur ár. Einn af sonum hans var Guttormur stúdent, bóndi á Arnheiðarstöðum, sem einnig var frumkvöðull í búskap, en sonarsonur hans var Guttormur Vigfússon fyrsti skólastjóri Búnaðarskólans á Eiðum.

Leikur að stráum

Séra Lárus Halldórsson frá Hofi í Vopnafirði var prestur á Valþjófsstað 1877-1883. Hann tók upp ýmsa nýja hætti í starfinu, sem Fljótsdælir virðast ekki hafa kunnað að meta, og gerðist síðar fríkirkjuprestur í Reyðarfirði og Reykjavík. Dóttir hans var skáldkonan Guðrún Lárusdóttir, sem fórst á besta aldri.

Séra Sigurður Gunnarsson gegndi prestsstarfinu 1883-1894. Fyrsta verk hans var að standa fyrir byggingu nýrrar timburkirkju 1888, er stóð til 1966, og þótti glæsilegt hús. Hann var mikill áhugamaður um uppfræðslu barna og unglinga. Bróðir hans, Gunnar Helgi Gunnarsson, var faðir Gunnars skálds, og bjó um tíma á Valþjófsstað með séra Sigurði, og þar fæddist Gunnar.

Í fyrsta bindi skáldsögunnar "Fjallkirkjunnar" rifjar Gunnar upp bernskuár sín á Valþjófsstað, en hann var 7 ára þegar foreldrar hans fluttu þaðan. Lýsingar hans á heimilisfólkinu hafa mörgum þótt eftirminnilegar og er sú skoðun almenn, að þessir kaflar séu með því besta sem Gunnar hefur ritað. Þeir eru oft fluttir í leikritsformi og oft til þeirra vitnað.

"Ó blessuð vertu sumarsól"

Þórarinn Þórarinsson var prestur á Valþjófsstað 1894-1938, vinsæll og virtur. Valþjófsstaðaheimilið var á hans tíma orðlagt fyrir gestrisni og rausn í hvívetna, þó ekki síst fyrir sérstaka menningu, sem kom m.a. fram í tónlistariðkun og söng.

Til er saga af því, þegar Ingi T. Lárusson, hið ástsæla tónskáld Austfirðinga, kom ferðlúinn af Fljótsdalsheiði, og hafði á leiðinni samið lag sem hann vildi spila og syngja. Af því veður var gott, var orgel prestsins borið út á tún, og þar safnaðist allt heimilisfólkið í kringum tónskáldið, sem frumflutti þar lagið við kvæði Páls Ólafssonar: "Ó blessuð vertu sumarsól", sem næstum hver Íslendingur hefur kunnað síðan. Og Valþjófsstaðafjallið bergmálaði sönginn.

Sonur séra Þórarins, Þórarinn skólastjóri á Eiðum, hefur sagt þessa sögu, en hann var lengi söngkennari og kórstjóri í Eiðaskóla. Sagan er til í ýmsum gerðum, eins og Sigurður Magnússon hefur nýlega rakið í þætti um Inga T. Lárusson (Múlaþing 25, 1998, bls.7-28), en saga Inga sjálfs er þó ótrúlegust. Hann segist hafa verið 7 ára er hann samdi lagið heima á Seyðisfirði.

Eftirmaður séra Þórarins, Marinó Kristinsson, ættaður af Suðurnesjum, lét ekki sitt eftir liggja í þessu efni. Hann var um tíma einn efnilegasti einsöngvari landsins, og stóð fyrir líflegu kórstarfi í Fljótsdal, stjórnaði m.a. 20-30 manna kirkjukór, er söng við ýmis tækifæri.

Bjarni Guðjónsson, ættaður úr Meðallandi í Vestur-Skaftafellssýslu, var prestur og bóndi á Valþjófsstað, 1963-1998, ástsæll af sóknarbörnum sínum, og góður heim að sækja, enda jafnan glaður og reifur, eins og segir í Hávamálum að menn skuli vera til dauðadags. Núverandi prestur er Lára G. Oddsdóttir, Vestfirðingur að uppruna.

Núverandi kirkja og gripir hennar

Núverandi kirkja er byggð úr steinsteypu og var vígð árið 1966. Turn hennar hefur nýlega verið breikkaður og turnspíran hækkuð til muna.

Í Valþjófsstaðakirkju eru ýmsir gamlir gripir. Merkasti gripurinn er líklega oblátudósir úr silfri, sem Sigurður Þorsteinsson, gullsmiður í Kaupmannahöfn, smíðaði og gaf kirkjunni, ásamt Pétri sýslumanni, bróður sínum, til minningar um foreldra þeirra, Þorstein Sigurðsson, sýslumann á Víðivöllum, og konu hans. Á dósirnar eru grafnar tvær vísur og fleira letur. Þar er einnig gamall skírnarfontur, sem sagt er að Hjörleifur Þórðarson hafi látið smíða og gefið, svo og gamall kaleikur og patína. Nokkrar minningatöflur voru í kirkjunni, þar á meðal stór tafla um Jón Skjöld vefara, þann mikla ættföður.

Þá er í kirkjunni útskorinn stóll, sem að vísu er ekki gamall og fékkst í skiptum fyrir annan miklu eldri, sem kallaður var Prestsmaddömustóll, en Þjóðminjasafnið falaðist eftir á fyrstu áratugum aldarinnar. (Þeir sem voru á móti skiptunum nefndu hann "Fangastól".) Ýmsir gripir, sem getið er í gömlum úttektum kirkjunnar, virðast hafa farið forgörðum, m.a. Maríulíkneski sem var í kirkjunni 1821. (Hugsanlegt er að það sé sama líkneski og Þjóðminjasafnið fékk úr Wardssafni, og talið var frá Skriðuklaustri/ sjá Klaustur-Maríu þar). Merkasti gripur kirkjunnar er þó eftirmynd af Valþjófsstaðahurðinni, sem fyrr var getið.

Samkomuhúsið (Végarður)

Kvenfélag var stofnað í Fljótsdal árið 1909 og ungmennafélag 1910, en þá voru slík félög óvíða til í öðrum sveitum. Félögin stóðu að margvíslegri menningarstarfsemi, gáfu m.a. út handskrifuð sveitarblöð: "Leiftur" og "Helga Droplaugarson". Kvenfélagið kom sér upp stóru tjaldi, sem var leigt fyrir ýmsar samkomur. Á árunum 1914-15 byggði Ungmennafélagið samkomuhús á grundunum utan við Valþjófsstað. Það var kallað "Ungmennafélagshúsið" og varð nú miðstöð alls félagsstarfs í sveitinni. Húsið var á tveimur hæðum, með anddyri og leiksviði. "Ekkert ungmennafélag í landinu mun eiga jafn veglegt fundarhús..." segir Jón Kjartansson í Skinfaxa 1918. (J.K.: Ferðasaga. Skinfaxi, maí 1918. Endurpr. í Snæfelli 1981.)

Félögin skiptust á um að halda samkomur, með vel undirbúinni dagskrá. Þá voru oft sýnd leikrit sem heimamenn höfðu æft. Um 1960 var samkomuhúsið endurbyggt á sama stað, og skírt Végarður. Það er ennþá félagsmiðstöð sveitarinnar, enda vel í sveit sett, en samsvarar varla kröfum nútímans um þægilega aðstöðu.

Utan og ofan við Végarð eru fornar tættur, líklega af gamalli skilarétt. Þar var einnig hjáleigubýlið Gunnhildargerði, rétt við húshornið.

Þessi ritgerð er hluti af handriti sem nefnist "Vísað til vegar í Fljótsdal".

Höfundurinn er náttúrufræðingur og býr á Egilsstöðum.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.