FJÁRMÁLASÍÐUR Morgunblaðsins birta fimm sinnum í viku töflur sem sýna meðal annars raunávöxtun verðbréfasjóða sem verðbréfafyrirtækin reka.
FJÁRMÁLASÍÐUR Morgunblaðsins birta fimm sinnum í viku töflur sem sýna meðal annars raunávöxtun verðbréfasjóða sem verðbréfafyrirtækin reka. Til að skýra merkingu raunávöxtunartalnanna í samhengi við hina raunverulegu krónutölubreytingu er hér birtur útreikningur sem á að sýna hvaða fjárhæð einstaklingur, sem fjárfest hefur í viðkomandi verðbréfasjóðum, fengi til baka miðað við að hann hefði fjárfest fyrir þremur, sex, tólf eða tuttugu og fjórum mánuðum.

Samhengið milli raunávöxtunar og krónutölubreytingar

Tölur yfir raunávöxtun sem birtast á peningamarkaðssíðu Morgunblaðsins eru þannig reiknaðar út að tekin er raunveruleg breyting viðkomandi tímabils, og fundið út hver breyting yrði á einu ári ef breyting annarra árshluta yrði sú sama. Þannig fæst svonefnd nafnávöxtun. Hér skal þó tekið fram að enginn veit hvort þróunin yrði raunverulega sú á einu ári. Að reikna stærðir upp á ársgrundvöll er aðeins gert til að átta sig á þeirri stefnu sem mál eru að taka. Einnig er leiðrétt gagnvart þeirri verðbólgu sem verið hefur á tímabilinu, og gefur sá útreikningur raunávöxtunina miðað við viðkomandi tímabil.

Til að skýra þetta nánar er hér tekið dæmi. Ef fjárhæð tiltekins verðbréfasjóðs hefur hækkað um 5% á ársfjórðungi er hækkunin veldisreiknuð (reiknistuðullinn er 1,05 í fjórða veldi sbr. fjóra ársfjórðunga) til að fá árs nafnávöxtun, sem yrði í þessu tilfelli 21,6%.

Ef vísitala lánskjara eða neysluverðs hefur hins vegar hækkað um 1,5% á þessum þremur mánuðum myndi það þýða að verðbólga yrði 6,1% á árinu ef sama hækkun yrði áframhaldandi. Vegna verðbólgunnar hefur raunverulegt verðmæti verðbréfasjóðsins ekki hækkað um full 21,6%, því hluti hans hefur brunnið á verðbólgubálinu svonefnda. Því þarf að finna út hver raunveruleg verðmætaaukning hefur orðið, eða raunávöxtunin.

Til að fá út raunávöxtun ársfjórðungsins er því deilt í nafnávöxtunina með verðbólguþættinum, og fæst þá út 1,216/1,061 = 1,145. Með öðrum orðum þýðir þetta að verðbréfasjóður sem hefur hækkað um 5% á þremur mánuðum hefur gefið 14,5% raunávöxtun á þessum þremur mánuðum, reiknað á ársgrundvelli.

Ekki hækka allir verðbréfasjóðir frá tímabili til tímabils og er hér birt dæmi um það einnig.

Ef sjóður hefur t.d. lækkað um 5% á þremur mánuðum reiknast nafnávöxtun sem 0,95 í fjórða veldi eða 0,815. Það merkir að nafnávöxtun er sú tala mínus einn eða -18,5%. Raunávöxtun reiknast þá 0,815/1,061 = 0,767 sem þýðir að raunávöxtun er -23,3%.

Með öðrum orðum hefur sjóður sem lækkað hefur um 5% á þremur mánuðum gefið af sér -23,3% raunávöxtun á ársgrundvelli.

Þær raunávöxtunartölur sem birtast fyrir skemmri tímabil en eitt ár þurfa því ekki endilega að endurspegla hver raunveruleg þróun muni verða á heilu ári. Eins endurspegla þær ekki hver krónutölubreyting hefur orðið á eign í verðbréfasjóðunum. Raunávöxtunartölur sem birtar eru fyrir 24 mánaða tímabil þarf einnig að reikna upp, ef ætlunin er að finna út krónutölubreytingu. Þar sem raunávöxtun miðast við eitt ár er breytingin um tvöfalt meiri á tveimur árum en raunávöxtunarprósentan gefur til kynna.

Forsendur útreikninganna

Á meðfylgjandi töflu, á síðunni hér til hliðar, sést hvaða krónutala myndi koma í hlut einstaklings sem fjárfesti í viðkomandi sjóðum fyrir tilteknum tíma síðan, í samhengi við raunávöxtun sjóðanna í krónum, og hefur hér verið gert ráð fyrir þeim þóknunum sem verðbréfafyrirtækin taka af viðkomandi sjóðum, en þær eru reiknaðar af upphaflegri fjárfestingu.

Svo dæmi sé tekið úr töflunni með vísan til dæmisins hér að ofan, eru Einingabréf 5 Kaupþings með neikvæða raunávöxtun upp á 23,9% en 100.000 króna fjárfesting, ef hún væri tekin út nú, hefur lækkað um 6.515 krónur eða um 6,5% að teknu tilliti til þóknunar.

Eins má taka dæmi af alþjóðlegum hlutabréfasjóði Kaupþings sem staðsettur er í Lúxemborg. Sá sjóður hefur sýnt 221,7% raunávöxtun á þremur mánuðum, en fjárfestir myndi fá um 133.480 krónur til baka af 100.000 króna fjárfestingu sem gerir 33,5% hærri krónutölu en lögð var fram, einnig að teknu tilliti til þóknunar.

Hér skal tekið fram að verðbréfafyrirtækin mæla ekki endilega með því að fjárfest sé til svo skamms tíma í viðkomandi sjóðum. Eins getur verið að lágmarksfjárhæð sem unnt er að fjárfesta fyrir í einstökum sjóðum sé hærri en 100.000 krónur, en sú upphæð er hér valin til viðmiðunar þar sem 100 þúsund krónur gengur upp í 100 prósent. Þannig er þægilegt fyrir lesandann að átta sig á að 3 þúsund króna breyting merkir 3% breytingu á krónutölu, þó raunávöxtunin geti verið önnur eins og áður sagði.

Sú þóknun sem sýnd er fyrir sjóði Búnaðarbankans Verðbréfa gildir fyrstu þrjá daga mánaðarins, en aðra daga er þóknun helmingi hærri. Eins hefur Fortuna-sjóðum Landsbréfa verið sleppt úr þessum samanburði, þar sem ekki er gefin upp raunávöxtun þeirra á peningamarkaðssíðum Morgunblaðsins, heldur nafnávöxtun í evrum.

Að lokum skal tekið fram að sjóðir þeir sem verðbréfafyrirtækin reka eru ekki alltaf sambærilegir, t.d. hvað varðar fjárfestingarstefnu og áhættustig, og er lesendum og fjárfestum bent á að gaumgæfa það atriði einnig.