EIMSKIP hf. og Sjóvá-Almennar hf. keyptu í gær 3% hlut, hvort félag, í Eimskipafélagi Íslands hf. af Kaupþingi hf. Nafnverð hvors hlutar fyrir sig var 92 milljónir króna. Bréfin voru seld á genginu 13,5 og var söluverð hvors hlutar fyrir sig 1.
EIMSKIP hf. og Sjóvá-Almennar hf. keyptu í gær 3% hlut, hvort félag, í Eimskipafélagi Íslands hf. af Kaupþingi hf. Nafnverð hvors hlutar fyrir sig var 92 milljónir króna.

Bréfin voru seld á genginu 13,5 og var söluverð hvors hlutar fyrir sig 1.242 milljónir króna.

Eftir þessi viðskipti nemur eignarhlutur Sjóvár-Almennra hf. í Eimskipi 15,5%, og Eimskipafélagið á eftir viðskiptin 3% af eigin hlutabréfum.

Kaupþing seldi því í gær samtals 6% hlut í Eimskipi að nafnverði 184 milljónir króna, og var samanlagt söluverð hlutarins 2.484 milljónir króna.

Hörður Sigurgestsson, forstjóri Eimskipafélags Íslands, segir að ástæða kaupanna hafi verið sú að all nokkur hlutur af bréfum í Eimskipi hafi verið til sölu og hafi þeim boðist að kaupa hluta af þeim.

"Stjórn Eimskips mat það svo að það væri áhugavert fyrir félagið að eiga hluta af bréfunum til ráðstöfunar síðar," segir Hörður.

"Markaðurinn hefur ákveðið verðið á þessum bréfum. Það er síðan okkar markmið að auka verðmæti hlutabréfa Eimskips með því að stuðla að því að verð þeirra hækki, og við munum vinna áfram að því."

Hörður segir að ekki hafi verið ákveðið hvort félagið muni eiga bréfin áfram. "Við ákváðum að kaupa þessi bréf. Það hefur ekki verið tekin ákvörðun um hvernig þeim verður ráðstafað."

Einar Sveinsson, framkvæmdastjóri Sjóvár-Almennra hf., segir að ástæður þess að Sjóvá-Almennar kaupir þennan 3% eignarhlut í Eimskipi séu þær að hér sé um mjög vænlegan fjárfestingarkost að ræða þegar til lengri tíma sé litið.

"Þegar okkur var ljóst að þessi hlutur væri falur og stæði okkur til boða ákváðum við að ganga til samninga um að kaupa hann," segir Einar.

"Við erum fyrst og fremst að líta til ávöxtunar á þessum hlutabréfum, og ef við lítum til sögunnar er ljóst að fjárfesting okkar í Eimskipafélaginu til þessa hefur skilað lang mestum arði til Sjóvár-Almennra af öllum fjárfestingum félagsins. Fyrsta alvöru fjárfesting okkar í Eimskipafélaginu er frá árinu 1986, þannig að þetta er í eðlilegu framhaldi af veru okkar sem stærsta hluthafa í félaginu," segir Einar.

Hlutabréf í Eimskipafélagi Íslands hafa hækkað í verði um 75,3% frá upphafi árs 1999 til viðskiptanna í gær, eða úr genginu 7,7 í 13,5, og er Einar spurður um mögulega arðsemi fjárfestingarinnar miðað við gengi bréfanna og segir hann að

"það kann að virðast að þetta verð sé nokkuð hátt núna en við teljum að til lengri tíma litið séu þarna enn möguleikar á góðri ávöxtun."

Hreiðar Már Sigurðsson, aðstoðarforstjóri Kaupþings hf., segir í samtali við Morgunblaðið að nokkrir aðilar hafi í sjálfu sér sýnt þessum hlut í Eimskip áhuga. "Kaupendur hlutarins komu með tilboð sem við töldum viðunandi," segir Hreiðar.

"Við töldum þetta vera mjög góðan fjárfestingarkost," segir Hreiðar Már um upprunalega ástæðu þess að Kaupþing hóf að fjárfesta í Eimskipi, og segir hann að eignarhlutur Kaupþings í Eimskipi eftir söluna sé óverulegur.

"Við náðum að selja bréfin með söluhagnaði," segir Hreiðar aðspurður um fjárhagslega útkomu Kaupþings hf. af sölunni.

Í morgunkorni Fjárfestingarbanka atvinnulífsins er ýjað að því að hagnaður Kaupþings af viðskiptunum hafi numið um 450-550 milljónum króna, en Hreiðar Már vill ekki tjá sig frekar um arðsemi þessara viðskipta.

Hann segir aðspurður að kaup fjármálafyrirtækis eins og Kaupþings á stórum hlut í félagi eins og Eimskipi sé til þess að gera ekki óvenjuleg, og bendir á eignarhlut Búnaðarbankans í Útgerðarfélagi Akureyringa hf. og SÍF hf.

"Þetta er því ekkert sérstakt atriði í sjálfu sér. Við erum að sjá aukið magn í viðskiptum með hlutabréf almennt. Eins eru eigin viðskipti banka með hlutabréf fyrirtækja í eigin reikning að verða mun veigameiri í starfsemi bankanna og hefur það stuðlað að virkari og dýpri hlutabréfamarkaði hérlendis," segir Hreiðar.