Martha Eiríksdóttir
Martha Eiríksdóttir
LANDSSÍMINN, Morgunblaðið, Flugleiðir, Íslandsbanki, Landsbankinn og Sjóvá-Almennar hafa tekið höndum saman um stofnun markaðs- og upplýsingatorgs á Netinu, þar sem boðið verður upp á vörur og þjónustu af ýmsu tagi. Fyrirtækið nefnist Veftorg hf.
LANDSSÍMINN, Morgunblaðið, Flugleiðir, Íslandsbanki, Landsbankinn og Sjóvá-Almennar hafa tekið höndum saman um stofnun markaðs- og upplýsingatorgs á Netinu, þar sem boðið verður upp á vörur og þjónustu af ýmsu tagi.

Fyrirtækið nefnist Veftorg hf. og hefur Martha Eiríksdóttir verið ráðin framkvæmdastjóri þess, en áformað er að starfsemi á Netinu hefjist í apríl næstkomandi.

Upplýsingamiðill fyrir vöru og þjónustu

Martha, sem starfaði áður í höfuðstöðvum Europay International í Belgíu, sagði í samtali við Morgunblaðið að Veftorg yrði upplýsingamiðill fyrir vöru og þjónustu, og að á vefsvæðinu veftorg.is verði að finna hagnýtar upplýsingar til að auðvelda almenningi aðgang að Netinu.

Jafnframt verður lögð áhersla á að gera netviðskipti með vörur og þjónustu jafn örugg og þægileg og hefðbundin viðskipti.

Hlutafé fyrirtækisins hundrað milljónir

Að sögn Mörthu er áætlað að starfsmenn Veftorgs hf. verði um tíu þegar fram líði stundir. Hins vegar verði einnig töluvert um aðkeypta vinnu vegna sérverkefna. Hlutafé fyrirtækisins verður hundrað milljónir króna og munu aðstandendurnir sex væntanlega nýta veftorgið sem vettvang til að koma á framfæri vöru sinni og þjónustu.

Martha sagði aðspurð að Veftorgið yrði m.a. í samkeppni við vefinn Strik.is, sem nýlega var opnaður en sagðist trúa því að veftorg.is stæðivel að vígi vegna reynslu þeirra fyrirtækja, sem að Veftorgi standa. Kvaðst hún hlakka mjög til að takast á við þetta verkefni, ekki síst vegna þess að Netið sé í stöðugri þróun og mótun og komi til með að eflast gífurlega í náinni framtíð.