FIMM Eyfirðingar vinna nú að undirbúningi þess að setja á stofn kjúklingabú í Eyjafirði og er stefnt að því að framleiðslan nemi að minnsta kosti 500 tonnum á ári.
FIMM Eyfirðingar vinna nú að undirbúningi þess að setja á stofn kjúklingabú í Eyjafirði og er stefnt að því að framleiðslan nemi að minnsta kosti 500 tonnum á ári.

"Við höfum verið að skoða þetta gaumgæfilega að undanförnu og fórum í síðustu viku til Danmerkur þar sem við skoðuðum kjúklingabú og eftir þá ferð má segja að yfirgnæfandi líkur séu á að við förum út í þetta," sagði Auðbjörn Kristinsson einn fimmmenninganna, en hann rekur ásamt bræðrum sínum svínabú í Hraukbæ í Glæsibæjarhreppi norðan Akureyrar.

Auðbjörn sagði að kjúklingabúið yrði eins fullkomið og unnt væri, " "við færum ekki út í þetta öðru vísi en að hafa þetta fullkomið", sagði hann. Ætlunin er að búið starfi í fjórum einingum, í einni yrði stofnfugl og þar færi fram eggjaframleiðsla, í næstu einingu verður útungunarstöð, þá eldi á kjúklingum í þeirri þriðju og loks sláturhús í fjórðu einingunni. Auðbjörn sagði að nokkur vegalengd yrði á milli eininganna, minnst einn kílómetri. Starfsmenn munu starfa í ákveðinni einingu kjúklingabúsins og verður þeim ekki heimilt að fara á milli eininga til að gæta fyllstu smitvarna.

"Með þessu móti verður staðið að framleiðslunni á eins faglegan hátt og mögulegt er," sagði Auðbjörn.

Sjá ýmis sóknarfæri

Fimmmenningarnir eru þessa dagana að skoða svæði í Eyjafirði þar sem möguleiki er á að koma kjúklingabúinu fyrir. Áætlað er að hefja byggingaframkvæmdir næsta vor og stefnan sett á að framleiðsla geti hafist síðla hausts. Auðbjörn sagði að varlega áætlað yrði framleiðslan um 500 tonn á ári og starfsmenn á búinu yrðu 15 talsins. Hann sagði að viðræður stæðu yfir við Kaupfélag Eyfirðinga um sölu á afurðunum, en enn væri ekki búið að ganga frá þeim málum.

"Við erum bjartsýnir, þetta er vaxandi markaður og við sjáum ýmis sóknarfæri," sagði Auðbjörn.